31.07.1931
Neðri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

113. mál, verkamannabústaðir

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Þetta frv. berum við jafnaðarmenn í deildinni fram til þess að ráða nokkra bót á núv. löggjöf um verkamannabústaði, eftir því, sem reyslan hefir sýnt, að þörf er á.

Það er nú víða á landinu verið að reyna að koma upp verkamannabústöðum, þótt enn sé hvergi farið að byggja þá nema á Akureyri og grafa fyrir grunni hér í Reykjavík. Víðast hefir strandað á því, að vantað hefir fjármagn til þess að koma þessu í framkvæmd.

Það hefir verið reynt að fá erlend lán til byggingarsjóða verkamannabústaða, en það hefir aðallega strandað á því, að skv. lögunum er ríkisábyrgð aðeins fyrir helming lánanna, en ábyrgð bæjanna að hinum helmingnum, en sú breyting var samþ. á upphaflegu frv. okkar jafnaðarmanna um algerða ríkisábyrgð, að tilhlutun forsrh.

Hér er því farið fram á ríkisábyrgð fyrir allri lánsupphæðinni, en kaupstaðir og kauptún standa svo bakábyrgð fyrir öllu láninu. Áhætta ríkissjóðs verður því ekki meiri en áður, en vaxtakjör verða þá betri en nú eru þau. Sömuleiðis er lagt hér til, að leyft sé að taka lán í erlendri mynt, því meðan ekki hefir verið fest gengi ísl. krónu, er erfitt að fá lán í ísl. mynt.

Þá er nauðsynlegt að afla byggingarsjóðum verkamannabústaðanna meiri tekna en þeim ber skv. lögunum frá 1929, því ekki er hægt að fá allt það fé, sem þörf er á til bygginga, frá útlöndum. Skv. núgildandi lögum ber sjóðnum að fá úr ríkissjóði eina krónu fyrir hvern íbúa kaupstaðarins og annað eins úr bæjarsjóði eða sveitarsjóði. Nú er hér farið fram á, að þetta framlag sé hækkað upp í 3 kr. frá hvorum um sig, ríkissjóði og bæjar- eða sveitarsjóði. Þetta gjald hefir þegar verið hækkað á Ísafirði í 3 kr. eða meira, og ætti það þá ekki að vera erfiðara fyrir aðra staði.

Auk þess er lagt hér til, að lagt verði sérstakt gjald á allar fasteignir, og renni það í byggingarsjóðina. Þetta gjald er ákveðið 4 af þúsundi af fasteignamatsverði. (Í grg. stendur 4%, en það er vitanlega prentvilla fyrir 4%, sbr. 3. tölulið l. gr. frv.). Finnst okkur rétt, að hluta af verðhækkun landsins, sem til er komin án tilverknaðar lóðareiganda, sé varið til þess að koma upp verkamannabústöðum.

Ef þetta frv. nær fram að ganga, geri ég ráð fyrir, að hægt verði bráðlega að koma upp sæmilegum bústöðum fyrir verkafólk og aðra tekjulága menn, enda er þetta nauðsynjamál, sem ekki má lengi dragast, einkum vegna hinnar upprennandi kynslóðar, og verði ekkert gert í þessu máli, er hætt við, að það komi hart niður á næstu kynslóð.

Þá eru hér nokkur atriði, sem ekki eru beint um tekjuaukningu, heldur miða að nauðsynlegum framkvæmdum málsins.

Hér er farið fram á, að breytt verði til um lánin til byggingarfélaganna, þannig að í stað fyrsta veðréttarláns allt að 85% af kostnaðarverði eignarinnar komi fyrsta og annars veðréttarlán, er nái sömu hæð. Þetta er gert í þeim tilgangi, að hægt verði að selja veðbréf þessi á sama hátt og veðdeildarbréf Landsbankans og Búnaðarbankans þegar Ríkisveðbanki Íslands tekur til starfa. Hefi ég borið fram sérstakar brtt. við frv. um Ríkisveðbanka Íslands, sem heimila það. Það er því ekki alltaf nauðsynlegt að fá nema 2. veðréttarlán, en með því móti verður auðveldara að fá lán og því meira byggt.

Það hefir sýnt sig við byggingarnar hér í Reykjavík, að það gat verið hentugt að hafa ýmislegt sameiginlegt fyrir margar íbúðir. Það þarf t. d. mann til þess að hafa eftirlit með þeim, og er farið fram á það í frv., að félagið ætli íbúð handa honum, en það má ekki vera eftir lögunum frá 1929. Sömuleiðis er hér farið fram á, að byggja megi sameiginlegt miðstöðvarhús, þvottahús og hús fyrir matvöruverzlun. Loks er hér farið fram á, að gera megi sameiginlegan leikvöll handa börnum fyrir sambyggingar, en eftir lögunum má ekki gera nema smábletti fyrir hverja íbúð.

Þá hefir það sýnt sig hér í Reykjavík, að það ákvæði laganna, að félagsmaður megi ekki hafa hærri árstekjur en 4000 kr., hefir verið ranglátt í garð þeirra manna, sem hafa fyrir fjölskyldu að sjá. Hér er því farið fram á, að tekjuhámarkið verði hækkað um 500 kr. fyrir hvern ómaga, þó svo, að árstekjur kaupanda íbúðarinnar nemi aldrei meiru en 6500 kr., eða eignirnar meiru en 5000 kr.

Þá skal ég loks geta þess, að hér er farið fram á, að verkamannabústaðir, sem gerðir eru skv. lögum þessum, skuli undanþegnir fasteignagjaldi fyrstu 5 árin. Lóðirnar eru eign bæjarsjóðs, svo á þeim hvílir ekkert gjald til bæjarsjóðs nema leigan.

Hvað svo sem hinir ýmsu flokkar deildarinnar segja um þessi ákvæði, sem hér er farið fram á, eru þau nauðsynleg, ef lögin eiga að vera önnur eins lyftistöng fyrir verkafólk eins og tilgangur þeirra er. Vil ég svo mælast til þess, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og allshn.