04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

1. mál, fjárlög 1932

Einar Arnórsson:

Ég á tvær brtt. við þessa umr. fjárlaganna, og ætla ég að fylgja þeim með fáeinum orðum, þó að þær séu svo góðar, að þær mæli með sér sjálfar. Fyrri brtt. er sú XXX. á þskj. 183, og er þar farið fram á, að veittar verði 1500 kr. til aukakennara í þýzku við háskólann. Þessi till. er flutt samkv. heiðni háskólaráðs og heimspekideildar. Okkur ætti að vera í minni hin rausnarlega gjöf þýzka ríkisins á Alþingishátíðinni í fyrra. Og okkur ætti því að vera ljúft að sýna þýzku þjóðinni og menningu hennar nokkurn sóma. Hér er þýzkur maður, dr. Keil, sem mælir á íslenzku, og væri fáanlegur til þess að halda uppi hér við háskólann kennslu í þýzku og þýzkum fræðum, ef þessi styrkur fengist. Það væri sæmd fyrir háskólann að fá þangað þekktan vísindamann eins og dr. Keil, enda hefir hann eindregin meðmæli heimspekideildar og háskólaráðs.

Seinni brtt. er sú L. á sama þskj: Hún er eiginlega tvær till. Sú fyrri er um það, að veita Valgarði Thoroddsen 1200 kr. til þess að lúka námi í rafmagnsfræði í Þýzkalandi. Þessi ungi maður er kominn mjög nálægt prófi og er mjög gáfaður og efnilegur og af góðum ættum kominn. Ég get hent á, að samskonar styrkir hafa verið veittir árlega nú um nokkurt skeið, t. d. munu 3 slíkar styrkveitingar standa í þeim fjárl., sem nú gilda.

Í seinni liðnum er farið fram á, að Ingveldi Sigurðardóttur verði veittar 1000 kr. til að ljúka námi í verzlunarfræði í Þýzkalandi. — þetta er ung stúlka, foreldrar hennar eru fátækir og eiga fyrir 15 börnum að sjá. Þau hafa nú komið 6 af þeim fram yfir fermingu, en 9 eru eftir. Svo að það er auðskilið, að þeim muni veitast erfitt að kosta þessa dóttur sína til náms erlendis, og því flyt ég þessa till. Vona ég, að hv. d. bregðist vel við.

Ég hjó eftir því í ræðu hv. frsm. fjvn., að n. hefði hækkað tekjuáætlunina um 860 þús. kr. Ég er því feginn, að n. skuli hafa gert þessa bragarbót. Ég benti á það við 2. umr. fjárl., að tekjuáætlunin væri 3 millj. lægri en tekjur ríkisins hefðu reynzt 1929. Ég sé, að hv. n. hefir fallizt á ummæli mín um það að áætla tekjurnar nær því, sem þær eru í raun og veru. En þrátt fyrir þessa hækkun, finnst mér n. hafa verið nokkuð um of aðgætin. Ég er sannfærður um, að tekjurnar af mörgum liðum verða miklu hærri en áætlað er. — En ég þykist vita, hvernig í pottinn er búið í þessari hv. d. Það virðast vera samtök í Framsóknarflokknum, sem er stærsti flokkur þingsins og getur ráðið afgr. fjárlagafrv. í þessari d., að skera niður flestar fjárbeiðnir nema þær, sem koma frá hv. fjvn., og þar sem Framsókn virðist vera ákveðin í því að afgreiða frv. í þeirri mynd, sem það kom frá hv. fjvn., þá sé ég ekki til neins að vera að koma fram með till. um að hækka tekjuáætlunina eða útgjöldin. Mér skyldi ekki koma á óvart, þó að með þessu væri skilin eftir allrífleg fúlga, sem hæstv. stj. gæti farið með eftir vild. — Það má minna á í þessu sambandi, að fyrir skömmu var felld hér í hv. d. till., sem átti að vera nokkurskonar hemill á stj. um að greiða ekki óhæfilega úr ríkissj., þegar enginn stafur fyndist fyrir því í fjárl. Það er því algerlega á valdi meiri hl. þingsins og þeirrar stjórnar, er hann styður, hvernig því fé verður ráðstafað, sem afgangs kann að verða, þegar greiddar hafa verið þær fjárhæðir, sem ráðstafað er í fjárlögum. Stjórnarflokkurinn ætlast til þess, að stjórnin haldi að þessu leyti sama hætti sem Framsóknarstjórnin hafði 1927–1930.