21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

113. mál, verkamannabústaðir

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, einkum af því að mér skildist, að brtt. við 2. mgr. 3. gr. ætti að vera til þess að samræma þessi lög við ríkisveðbankalögin, þannig að skuldabréf byggingarsjóðs féllu undir þau bréf, sem ríkisveðbankinn verzlar með. En ég álít, að brtt. sé alveg ófullnægjandi til að ákveða um þetta atriði. Þar er t. d. ekkert ákveðið um útgáfu bréfanna né innlausn þeirra. Ég lít því svo á, að það mál sé opið enn og megi leiðast til lykta síðar, en þessar breytingar séu aðeins settar hér af praktiskum ástæðum, og ef svo er, hefi ég ekki á móti þeim.

Ég verð að játa í ljós þá skoðun, að ég tel, að orkað geti tvímælis, hvort rétt sé að hækka tillög ríkissjóðs og bæjar- og sveitarsjóða. Það er auðsætt, að af því leiðir tilfinnanlegar byrðar fyrir viðkomandi sjóði, en ég hefi þó ekki viljað setja mig upp á móti þessu ákvæði, vegna þess að tilfinnanleg húsnæðisekla er nú sem stendur, og ég tel rétt, að það sé í gildi meðan verið er að bæta úr sárustu þörfinni. Þegar húsnæðiseklan er úr sögunni, ætti að vera hægt að kippa að sér hendinni og lækka það aftur.