21.08.1931
Efri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

66. mál, slysatryggingalög

Magnús Torfason [óyfirl.]:

Frv. þetta lá fyrir í Nd. á vetrarþinginu og var þá athugað í allshn. og afgr. frá henni. Við í allshn. hér athuguðum þetta mál. og þau ákvæði, sem voru í frv. í fyrra, eru nú alveg eins. En nú var í Nd. bætt nokkrum ákvæðum á þessu þingi við frv. eins og það var í fyrra. Þess má geta, að eins og frv. kom fyrst, þá var allmikill ruglingur á því, en síðan kom leiðrétting á þskj. 303 við frv. frá skrifstofunni. Eftir það var frv. aðgengilegt í allstaði. Ég skal geta þess, að í 3. gr. er nýmæli um að telja til slysa fingurmein o. fl. Við 4. gr. er nýmæli, að auk dagpeninga skuli greiða 2/3 lyfja og umbúðakostnaðar. Hvað snertir þetta ákvæði þótti okkur í allshn. vera dálítið einkennilegt, að ekki væri sama hlutfallið milli læknishjálpar og lyfja- og umbúðakostnaðar. Síðan málið var í n. hefi ég átt tal við einn lækni um þetta, sem mun vera upphafsmaður þessarar till. í Nd., og hann sagði mér, að þessi skerðing á greiðslu til umbúðakostnaðar kæmi af því, að annars væri hætt við, og menn notuðu of mikið af lyfjum og umbúðum. Ég býst við, að þetta sé rétt hjá þessum hv. þm. — Þá er í 5. gr. ákvæði um það, að bætur til barna séu gerðar helmingi hærri en áður, í staðinn fyrir 300 kr. komi 600, og í staðinn fyrir 600 komi 1200. Slíkt er auðvitað álitamál, en ég býst við því, að það sé ekki of mikið.

Þá er við 8. gr. l. frá 1929 nokkur leiðrétting frá því, sem áður var; hún er í þágu útgerðarmanna, þess efnis, að þeir þurfi ekki að greiða 2 iðgjöld fyrir sama tíma manns, þegar maðurinn hefir gengið úr skinrúminu. Þetta er sjálfsagt réttarbót og hefir ekki neinn verulegan frádrátt í för með sér fyrir slysatryggingasjóðinn, en það er aðeins þannig, að þeir, sem eiga að sjá um þetta, verða fyrir nokkru ónæði.

Þá er við 12. gr. nokkur leiðrétting á því, að það er talað þar um frjálsar tryggingar, og þurfti það leiðréttingar við, eftir því sem það var áður í lögum. Það er réttara það, sem hér er í gr.

Þá er 8. gr., sem er breyt. við 15. gr. l. frá 1929. Hún er gerð til þess að fyrirbyggja, að þessar frjálsu tryggingar verði misnotaðar, og það virðist ekki nema sjálfsagt.

Þá er 9. gr., sem er breyt. við 17. gr. l. frá 1929, um að slysatryggingin skeri úr ef vafi leikur á, til hvaða áhættuflokks tryggingarskylt fyrirtæki heyri samkv. l. gr., og virðist það sjálfsagt, að slysatryggingin gefi reglur um það. Önnur ákvæði eru hér ekki, sem sérstaklega er þörf á að fara út í. Þar sem nál. hefir ekki verið samið um þetta frv., þá get ég ekki lýst öðru en minni skoðun á málinu, en þó er mér kunnugt, að meðnm. minn, hv. 2. þm. Eyf., mun vera þessu frv. samþykkur í öllum aðalatriðum. Ég fyrir mitt leyti mæli með því, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Nd., og þá sérstaklega fyrir þá sök, að það er orðið svo áliðið þingtímans, að ekki er tími til að bæta við smágreinum, sem maður hefði kannske talið, að betur mundi fara.