04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (1390)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þáltill. þessi lá hér fyrir hv. d. á síðasta þingi, og það fór þá svo, að ég gat ekki orðið samferða samnm. mínum um afgreiðslu till. Ég lagði til, að till. yrði felld. Nokkra grg. fyrir skoðun minni gerði ég þá í minnihl.nál., svo sem sjá má af þskj. 115 frá síðasta þingi.

Nú kemur till. þessi aftur fram, og ég verð að segja það að því er mig snertir, að afstaða mín til till. er óbreytt, og svo er einnig um samnm. minn, hv. 2. þm. Árn.

En þar sem nú stendur þannig á, að ríkisstj. hefir greitt starfsmönnum og embættismönnum ríkisins allt fram að þessum tíma laun með dýrtíðaruppbót, miðaðri við þá upphæð, sem þessi þáltill. ræðir um, þá getum við, meiri hl. í fjhn., gengið inn á, að till. verði samþ. á þann hátt, að þessi skipun haldist til loka septembermánaðar í ár, þannig lagað, að þrjá fjórðu hluta af yfirstandandi ári verði embættis- og starfsmönnum ríkisins greidd þessi uppbót. En við teljum, að lengra sé ekki ástæða til þess að láta heimildina ná.

Það má segja, að síðan á síðasta þingi hafi ástæður fyrir þessari till. ekki færzt í þann veg, að þær mæli frekar með framgangi hennar nú heldur en á síðasta þingi. Ég lít svo á, að þvert á móti séu kringumstæðurnar þannig, að heldur hafi færzt á hina hliðina, bæði að því er snertir útlit um afkomu ríkissjóðs, og þá ekki síður að því er snertir útlit um afkomu alls almennings í þessu landi.

Það mun ekki þurfa að fara í neinar grafgötur um það, að afkoma atvinnuveganna hér á landi mun vera með allra erfiðasta móti, og þarf ekki annað en vitna í þskj. þau, sem liggja fyrir þinginu, og umr. þær, sem fram, hafa farið. Allt hnígur í þá átt, að gera þurfi sérstakar ráðstafanir til þess að fyrirbyggja neyðarástand, bæði hjá atvinnurekendum og eins hjá fólkinu, sem lifir af handafla sínum. Það er auðséð, að allir íbúar landsins verða nú að draga svo mikið af kröfum sínum sem verða má. Ég lít svo á, að svipaðar kröfur verði að gera til starfsmanna ríkisins, og að því er snertir velflesta þeirra álít ég, að þessi krafa sé sanngjörn. Þó að megi segja, að nokkur hl. þeirra sé lágt launaður, svo að hann þyrfti að fá þessa launauppbót, verður þó að líta svo á, að afkoma þeirra flestra getur verið nokkru tryggari en afkoma alls fjöldans, bæði vinnulýðs landsins og hinna smærri atvinnurekenda.

Menn verða að gá að því, að þegar efni þessarar þáltill. var fyrst hér til meðferðar og þingið féllst á að veita nokkru hærri dýrtíðaruppbót en eftir þeim reglum, sem felast í launalögunum frá 1919, þá var árferði gott og þingið leit með björtum augum á, að ríkið myndi geta greitt starfsmönnum sínum svipuð laun og þá voru almennt greidd hjá stofnunum og atvinnurekendum. En á þá ráðstöfun verður undir öllum kringumstæðum að líta sem bráðabirgðaráðstöfun. Því að vitaskuld er lausn þessa máls, launamáls starfsmanna ríkisins, fólgin í því, að launalögin verði öll endurskoðuð, en til þess hefir ekki unnizt tími enn.

En þó að þingið 1929 líti svo á, að þetta væri vel gerlegt, þá tel ég, að með því hafi alls ekki verið slegið fastri neinni reglu um, að svo skyldi verða í framtíðinni, hvernig sem ástæður væru, bæði að því er snertir ríkissjóð og afkomu landsmanna yfirleitt.

Ég hygg því, að eins og nú er ástatt sé fyllilega sanngjarnt og jafnvel skylda þingsins að taka þá stefnu í þessu máli, sem meiri hl. n. leggur til.

Ég tel ekki réttmætt að greiða 10% hærri dýrtíðaruppbót á laun starfsmanna ríkisins en launalögin gera ráð fyrir.

Hitt er vitanlegt, að laun lægst launuðu starfsmannanna eru of lág. En það réttlætir enganveginn að greiða þessa aukauppbót á hin betur launuðu störf. Og þó að það sé allrar virðingar vert að bæta kjör þeirra, sem lægst hafa launin, verður þó að gæta þess, að það fé, sem til þess er varið, er tekið úr vösum hinna framleiðandi manna í landinu, og ég vil fullyrða, að mikill hl. framleiðendanna verður nú að lifa við þrengri kost en hinir lægst launuðu starfsmenn ríkisins. Auk þess, að þessi laun eru trygg, hafa embættis- og starfsmenn ríkisins sína starfskrafta að meira eða minna leyti til þess að bæta upp þessi laun.

Ég verð því að líta svo á, að mjög sé ógætilegt að samþ. þessa till. óbreytta, og þingið verður að athuga vandlega, að hér er verið að gera upp á milli þeirra manna, sem borgað er af almannafé, og þeirra, sem greiðslurnar inna af hendi, til þess að hægt sé að greiða þessum mönnum.

Ég vænti þess svo, að hv. d. samþ. till. okkar meiri hl. í fjhn. Með því er stigið eitt spor, þótt lítið sé, til þess að jafna aðstöðu þeirra, sem þurfa að sjá fyrir sér og sínum á þessu landi.