04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (1391)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Þorláksson:

Það skýtur nú svo skökku við í fjhn. um þetta mál, að ég er þar í minni hl. og er stuðningsmaður hæstv. stj., sem flytur þessa till. Ég legg til, að till. verði samþ. eins og hún liggur fyrir, en hv. meiri hl. hefir stungið upp á þeirri breyt., sem nú hefir verið gerð grein fyrir, að þessar greiðslur á óskertri dýrtíðaruppbót haldi ekki áfram nema til septemberloka.

Ég gerði grein fyrir afstöðu minni til þessa sama máls á vetrarþinginu, og byggi fylgi mitt við þessa till. aðallega á því, að þar sem kaupgjald flestra eða kannske allra manna, sem starfa hjá einkafyrirtækjum og hjá því opinbera við daglaun eða tímakaup, er nú hærra heldur en það var árið 1928, þá þykir mér ósanngjarnt að lækka kaup hinna mánaðarlaunuðu starfsmanna þess opinbera frá því, sem það var 1928. En þessi till. fer einmitt fram á það, að kaup þeirra manna, sem taka mánaðarlaun hjá ríkinu, haldist til loka þessa árs óbreytt eins og það var 1928 og hefir verið síðan.

Ég þarf eiginlega ekki meira um þetta að segja, en vil þó út af orðum hv. frsm. meiri hl. taka það fram, að hér er sannarlega ekki eingöngu verið að gera upp á milli þeirra manna, sem taka laun af opinberu fé, og hinna, sem gjalda til ríkisins þarfa eða stunda aðra atvinnu. Hér er miklu fremur verið að gera upp á milli mismunandi flokka þeirra manna, sem taka laun fyrir að vinna hjá öðrum. Till. fer fram á það, að kaup þess hl. af launafólkinu, sem vinnur hjá hinu opinbera fyrir mánaðarkaup, haldist óbreytt, og það liggur langnæst að bera þessa menn saman við þá aðra, sem vinna fyrir kaup hjá öðrum. Og sá samanburður leiðir til þeirrar ályktunar, sem ég hefi nefnt, að það sé ekki rétt að taka þennan flokk launamannanna út úr og lækka kaup þeirra niður úr því, sem var 1928, meðan allur þorri manna fær hærra kaup en þá var.