04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (1392)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil geta þess, að ég álít, að fjárhagsaðstaða öll fyrir okkar land hafi breytzt mjög á þeim tíma, sem liðinn er frá því sú ákvörðun var tekin um síðustu áramót að greiða áfram dýrtíðaruppbótina með 40%. Horfurnar hafa versnað svo um afkomumöguleika fyrir einstaklinga og ríkið í heild, að ekkert er undarlegt, að þeir, sem um síðustu áramót álitu, að ekki kæmi annað til mála en að greiða sömu dýrtíðaruppbót, verði nú að skoða hug sinn um það mjög alvarlega, undir þessum breyttu aðstæðum, hvort þetta sé fært.

Það er rétt hjá hv. frsm. meiri hl., að allir, sem reka einhverja atvinnu í landinu, verða nú að draga saman seglin. Þess vegna mun það koma í hendi, að það misræmi lagast, sem verður milli þeirra launa, sem greidd eru af einkafyrirtækjum og af ríkinu. Því með þeirri afkomu, sem nú er í landinu, þá er óhjákvæmilegt annað en að einkafyrirtæki verði að draga úr kostnaði við rekstur sinn. Mér er kunnugt um, að eitt af stærstu fyrirtækjum í landinu, Samband ísl. samvinnufélaga, mun þegar vera að gera ráðstafanir til þess að draga úr rekstrarkostnaði sínum, með því að lækka kaup starfsmanna sinna og byrjar á sjálfum húsbóndanum á heimilinu.

Ég verð að segja, að þótt mér þyki gott, að hv. 1. landsk. komi fram sem stuðningsmaður stj., þá þætti mér þó betra, ef sá stuðningur kæmi fram í því á þessum erfiðu tímum að firra ekki ríkissjóð þeim tekjum, sem hann þarf að hafa til þess að standast sin útgjöld, og stuðla að viðleitni til þess að draga á öllum sviðum úr kostnaðinum við ríkisbúskapinn.

Ég verð fyrir mitt leyti að leggja með því, að till. meiri hl. fjhn. verði samþ., einkanlega þar sem það verður að telja nokkra óvissu ríkja um, hvað ríkið fær að halda miklu af þeim tekjustofnum, sem það hefir haft.

Ég gat þess, þegar till. var lögð fram, að löggjöfin um dýrtíðaruppbót gildi ekki nema til næstu áramóta. Ef þingið framlengir þá ekki löggjöfina, verður öll dýrtíðaruppbót að falla niður. Ég beindi því til n., hvort hún vildi ekki taka þetta til athugunar í sambandi við þetta mál, sumpart vegna óvissu um það, á hverjar tekjur ríkisins mætti byggja. Ég vildi óska, að fjhn. vildi taka þetta til athugunar áður en þessi till. verður afgreidd frá d. Eins og hv. frsm. meiri hl. benti á, þá er um fleiri leiðir að ræða, annaðhvort að framlenging verði, eins og hv. 1. landsk. myndi vilja, og á árinu 1932 verði greidd 40% dýrtíðaruppbót, eða þá eins og hagstofan reiknar nú, ellegar þá eins og hv. frsm. meiri hl. leggur til, að veita dýrtíðaruppbót hinum lægra launuðu embættismönnum, en kippa að sér hendinni með hina, sem hærri launin hafa.