04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (1394)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Út af fyrir sig sé ég ekki ástæðu til að lasta stuðning þann, sem þeir hv. 1. og 2. landsk. hafa lýst yfir við stj. Ég get tekið undir það með hæstv. forsrh., að mér þætti það lýsa meiri einlægni, ef það kæmi fram í fleiri málum en þessu. Ég þarf ekki mörgu að svara hv. 2. landsk. Hann gat þess, að eftir till. okkar í meiri hl. fjhn. mundi ríkissjóður geta sparað um 50 þús. Ég vil taka það fram, að eftir því sem fjhn. eða ég í vetur komst næst um, hvað mikil upphæð þetta yrði fyrir ríkissjóð, þá mun aukadýrtíðaruppbótin (10%) nema um 220 þús. kr. á ári, eftir því sem hagstofan hefir reiknað. Þar fyrir utan voru ýmsar greiðslur, sem ekki eru aðgengilegar, en ég tel varlegt, þó að maður telji þær um 10–15 þús. á ári. Eftir brtt. minni mundu þá sparast 50–60 þús. kr. á þeim ársfjórðungi, sem eftir er af árinu. Það er náttúrlega ekki mikil upphæð, en þó svo, að væri henni varið til þeirra, sem hv. 2. landsk. berst mest fyrir, verkamannanna, þá gæti hún orðið að nokkru liði. Hann sagði, að ég hefði farið með rangt mál, þar sem ég sagði, að þinginu hefði ekki unnizt tími til að endurskoða launalögin, og hann var ekki lengi að finna ástæðuna fyrir því, að þau hafa ekki verið endurskoðuð hingað til. Hún var sú, að þingið þyrði það ekki. Hv. þm. veit, hvað hjá sér gerist. Ég get lýst því yfir hvað mig snertir, að ég mundi vel hafa þorað að gera minar till. í því máli, alveg eins og ég er óhræddur að gera mínar till. til breyt. á því máli, sem hér liggur fyrir. Ég hygg, að þó hv. 2. landsk. hafi máske ekki vísvitandi farið með rangt mál, þá hafi hann farið með ógrundað og ósannað mál.

Hvað snertir ræðu hv. 1. landsk., þá eru það ekki mörg atriði, sem ég tel ástæðu til að svara. Hann taldi, að í sambandi við þessa till. yrði að gæta þess, að eftir till. okkar væri verið að gera upp á milli tveggja vinnandi flokka í landinu, sem vinna hjá ríkinu, og benti á, að tímavinnulaun nú við opinberar framkvæmdir séu hærri en árið 1928. Ég ætla ekki að bera brigður á það. En vill hv. 1. landsk. halda því fram, að tímavinnulaun séu nú 1931 eins trygg og þau laun, sem starfsmenn ríkisins fá með launalögunum? Þó að það sé rétt, að tímavinnulaun, ef atvinna er allt árið, gef í hærri útkomu en fastákveðin starfslaun manna, sem vinna í lágt launuðum stöðum, þá verður að líta á það, hvað tímavinnan er ótrygg. Ég býst við, að engum blöðum sé um það að fletta, að þeir, sem stunda tímavinnu nú í ár, og þó að þeir hafi hærra kaup nú en 1928, þá sé þeirra vinna svo óviss, að þeirra kostur er lakari en þeirra, sem hafa föst laun, þótt lág séu. Atvinna þeirra, sem tímavinnu stunda, er svo á hverfanda hveli, að ekki er til hennar að jafna. Það er áreiðanlegt, að þó að dýrtíðaruppbótin sé færð niður, þá þolir lægra launaði flokkur starfsmanna ríkisins fullan samanburð bæði við vinnandi lýð í landinu og framleiðendur. Ég held, að það sé full ástæða fyrir þingið að ganga inn á þessa till. okkar, og ég tel, að það sé gætilega ráðstafað, en ég legg ekki mikið upp úr því, sem kom fram í ræðu hv. 2. landsk., að það mætti vænta aðgerða frá starfsmönnum, ef þeir verða sviptir þessari launauppbót, sem þeir hafa haft undanfarið. Ég skal ekki um það segja, hvað þessum hv. þm. tekst að koma þeim langt á þeirri braut, en ég hygg, að fæstir af þeim mundu segja upp stöðu sinni og gerast tímavinnumenn. Það verður áreiðanlega ekki til að tryggja afkomu þeirra. Ég vona það, að starfsmenn ríkisins líti með sanngirni á erfiðleika þá, sem atvinnuvegirnir eiga við að búa, og telji sér skylt að gera sitt til, að afkoma almennings geti orðið sæmileg, vilji neita sér um það, sem hægt er að neita sér um, og sætti sig við það að reyna að hafa ofan af fyrir sér í frístundum sínum á einn eða annan hátt.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um till. okkar meirihl.manna; það verður að skeika að sköpuðu, hvernig fer um hana. Fari svo, að brtt. okkar meiri hl. verði felld, mun ég þó greiða atkv. með till. til síðari umr., í von um, að þá verði máske tækifæri til að fá hana lagfærða á annan hátt.