04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (1396)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Jakob Möller:

Hv. 1. landsk. hefir tekið fram mikið af því, sem ég ætlaði að segja. En ég get bætt því við, að flestar stöður, sem stofnaðar hafa verið á síðari árum, eru stofnaðar með hærri launum en launalögin frá 1919 ákveða. Þá hefir hæstv. stj. hvað eftir annað upp á eigið eindæmi samið við menn um það, að taka störf með hærri launum en vera myndi samkv. launalögum. Má í þessu sambandi benda á stöður læknanna við landsspítalann, og verður ekki séð, að henni hafi til hugar komið að leita til þingsins um slíka samninga. En það var í raun og veru búið að samþykkja dýrtíðaruppbótina á þingi 1931, því að við vitum, að stjórnin telur sér heimilt að fara eftir áætlunum þeim, sem gerðar eru í fjárl. Þar sem meiri hl. n. og hæstv. forsrh. tala um, að það væri sök sér að ákveða, að dýrtíðaruppbótin haldist á launum lágt launaðra starfsmanna, þá þarf a. m. k. að gera eitthvað í þá átt. En hér er ekki um neitt slíkt að ræða, heldur það eitt að fella hana niður hjá öllum jafnt.