04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (1400)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Jakob Möller:

Ég var ekki við og veit því ekki, hvort hv. 2. landsk. þm. veik að launum skrifstofustjóranna í stjórnarráðinu. En áþreifanlegri sönnun fyrir ranglæti þessarar lækkunar á dýrtíðaruppbótinni en þá yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. gaf, get ég ekki fengið. Hann lýsir yfir því, að stj. hafi orðið að fá ýmisleg aukastörf í hendur þessara embættismanna, til þess að þeim yrði lífvænt. Hvað mættu þá aðrir starfsmenn segja, sem eru enn verr staddir?

Viðvíkjandi heimild landsstj. til þess að greiða þau laun við landsspítalann, sem gert er, vil ég aðeins segja það, að ef það er heimild til þess í fjárl. að greiða þessum læknum slík laun, þá er þar og önnur samskonar heimild til þess að greiða öðrum starfsmönnum 40% dýrtíðaruppbót. Ef þetta er rétt hjá hæstv. forsrh., þá er hér alveg eins fullkomin heimild.

Milli mín og hv. frsm. virðist vera einhver misskilningur. Ég hélt, að ég hefði skilið það rétt, að hann vildi láta greiða lægra launuðum embættismönnum einhvern hluta þessarar dýrtíðaruppbótar. En ef svo er ekki, þá er öllum misskilningi okkar á milli lokið.