04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (1401)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Magnús Torfason:

Menn mega ekki halda, að þessi brtt., sem komin er frá meiri hl. fjhn., hafi verið neitt skemmtiverk í okkar augum. Ég get játað það með þeim, sem talað hafa af hendi minni hl., að þetta er neyðarbrauð. En það hefir ætíð verið litið svo á, að þessi hv. deild væri ráðnari hluti þingsins. Eins og nú er ástatt, fannst okkur, að koma ætti frá þessari deild einhver vottur þess, að svo væri. Ég hefi því orðið form. n. sammála um að bera fram þessa brtt.

Viðvíkjandi því, sem talað hefir verið um það að draga úr áhrifum brtt., þá vil ég segja það fyrir mig, að við höfum ekki aftekið að gera brtt. í þá átt, að lækkunin næði ekki til lágtekna. En þó að þetta kæmi til orða, þá varð það úr að fara ekki lengra. Meiri hl. leit svo á, að í þessu efni væri bezt að láta hverjum degi nægja sína þjáning, en þetta gæti komið til mála við síðari umr.

Með þessum orðum vil ég mæla með því, að brtt. verði samþ. nú, og svo athugar n., hvað frekar er hægt að gera til samkomulags fyrir síðari umr.