04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

1. mál, fjárlög 1932

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að flytja nokkrar brtt. við þessa umr. fjárl. og skal nú leyfa mér að fara um þær nokkrum orðum, þó að það hafi reyndar litla þýðingu, þar sem sem fáir þm. eru viðstaddir.

Vil ég fyrst víkja að brtt. XXXVII, á þskj. 183, þar sem ég hefi leyft mér að fara fram á, að ungum og efnilegum söngmanni, Einari Kristjánssyni að nafni, verði veittar 1200 kr. til framhalds söngnámi sínu erlendis. Þessi ungi maður hefir brotizt áfram í fátækt, fyrst við nám hérlendis, og hefir lokið hér stúdentsprófi. Sýnir það, að hann hefir góða hæfileika til annars og fleira en söngs eingöngu. Hefir fátækur faðir hans lagt hart að sér, til þess að geta komið þessum unga syni sínum til mennta, og með þeim árangri, sem ég áður sagði. Bar þegar á því í skóla, að þessi ungi maður hafði óvenjulega fagra söngrödd, og samkv. ráðum og eindregnum tilmælum söngfróðra manna hér hefir hann dvalið einn vetur erlendis við framhaldsnám í söng, en hafði áður notið tilsagnar hins ágæta söngkennara Sigurðar Birkis. Hefir hann nú sótt um 1200 kr. styrk til þingsins, til þess að geta haldið áfram á listamannsbrautinni, sem hann virðist skapaður til að ganga, því að faðir hans er ekki þeim efnum búinn, eins og ég áður sagði, að hann geti kostað þennan efnilega son sinn af eigin rammleik. Þessi ungi maður hefir hin beztu meðmæli innlendra sem erlendra söngmenntamanna, sem telja hann hafa til að bera óvenjulega hæfileika á þessu sviði. Hirði ég ekki að greina frá þeim meðmælum hér, enda hafa hv. þdm. haft tækifæri til að kynna sér þau, og auk þess hafa þeir sjálfir heyrt þennan unga mann syngja, því að hann lofaði okkur þm. og mörgum bæjarbúum að heyra til sín, þegar alþingishátíðarkvikmynd frönsku stj. var sýnd hér á dögunum. Þó að þau 3 lög, sem hann söng þá, gætu ekki borið vitni öllu því, sem þessi ungi maður er fær um að inna af hendi í þessu efni, nægðu þau þó til að sýna það, hversu hann hefir óvenjulega fagra söngrödd. Þegar litið er til þess, hvílíka elju þessi ungi maður þegar hefir sýnt, þar sem hann hefir lokið stúdentsprófi, þrátt fyrir alla erfiðleika fátæktarinnar, að hann hefir brotizt utan til söngnáms fyrir áeggjan hérlendra kennara sinna í þeirri grein, og að heimsfrægir erlendir sönglistarmenn hvetja hann eindregið til að halda áfram á þessari braut, eins og líka engum kemur á óvart, sem hefir heyrt þennan unga listamann syngja, því að hann hefir ekki eingöngu óvenjulega fagra rödd, heldur líka þá sönghæfni, sem kemur fram í fullum skilning þeirra verkefna, sem hann flytur — þegar litið er til alls þessa, og hinsvegar á það, að þessi ungi maður fer ekki fram á meiri styrk sér til handa en svarar 100 kr. á mánuði við eins árs nám, verð ég að treysta því, að hv. þdm. telji ekki eftir þessa litlu upphæð til að styðja þennan unga og efnilega listamann áfram á braut sinni.

Þá hefi ég leyft mér að bera fram till. um það, að Gerðahrepp Gullbringusýslu verði veittur 10 þús. kr. styrkur til þess að standast kostnað af fátækraframfærslu fyrir árið í ár (183, LI). Hefi ég leyft mér fyrir hönd oddvita þessa hrepps að skrifa hv. fjvn. þessarar d. um það, hvernig ástatt er fyrir þessum hreppi, og sé því ekki ástæðu til að hafa um þetta mörg orð hér í d. nú, þar sem einnig flestum hv. þm. er kunnugt frá fyrri umsóknum sama efnis, hvernig fjárhag þessa hrepps er komið. Ómagaframfærslan í þessum hreppi er komin upp í um 15 þús. kr. á ári, og er svo ástatt, að ómagarnir í hreppnum eru fleiri en þeir vinnandi menn; sem standa eiga undir gjöldunum. Í vor hefir verið jafnað niður á hreppsbúa um 13–14 þús. kr., en þar sem mikill atvinnubrestur hefir verið þar í sumar, er fyrirsjáanlegt, að ekki tekst að innheimta meira en svarar helmingi útsvaranna. Margir af ómögum hreppsins eru á framfæri utan hans, og ef hreppurinn getur ekki staðið í skilum í haust um greiðslur til þeirra sveitar- og bæjarfélaga, sem þeir dvelja i, fyrir framfæri þeirra, verða þeir sendir heim á sinn eigin hrepp og þar bíður þeirra ekki annað en sultur og seyra. Vænti ég þess því fastlega, að hv. þdm. líti á neyð þessara fátæklinga, sem hér eiga hlut að máli; og samþ. að veita þenna styrk, sem ég hefi hér farið fram á, því að þó að hann sé að vísu ekki óverulegur, er hann að sumu leyti ekki óvenjulegur.

Þá á ég XVIII. brtt. á þessu sama þskj. (183), þar sem ég fer fram á það, að veittur verði 2500 kr. styrkur til þess að fullgera alveg af sýsluveginum í Járngerðarstaðahverfi að Stað í Grindavík. Svo er mál með vexti, að oddvitinn í Grindavíkurhr., séra Brynjólfur Magnússon, hefir sent þinginu erindi, þar sem hann sýnir fram á það, að nauðsynlegt sé að leggja þenna veg af ýmsum ástæðum. Hefir hreppurinn þegar kostað 2800 kr. til þessarar vegarlagningar, og telur presturinn, að hægt muni að fullgera verkið fyrir 4 þús. kr. Nú hefir hreppurinn ekki fjármagn til að gera þetta af eigin rammleik og hefir því farið þess á leit, að Alþingi veiti 2500 kr. styrk til þess að leiða þetta verk til lykta. Hreppsbúum er hin mesta nauðsyn á að fá þennan veg, m. a. af því, að tæplega er hægt að bera lík til grafar, nema vegurinn verði lagður, því að þarna syðra er hvergi nægilega djúp mold, nema þar sem kirkjugarðurinn stendur nú, en þangað má heita ófært með líkbörur, eins og nú er. Hefi ég greint frá þessu af því, að presturinn leggur sérstaka áherzlu á þetta í áðurnefndu erindi sínu. Auk þessa þykir mér rétt að geta þess, að þarna syðra hefir verið stofnuð björgunardeild úr Slysavarnafélagi Íslands, útbúin með öllum nauðsynlegustu björgunartækjum, og er það álit form, þessarar björgunardeildar og eins skrifara Slysavarnafélagsins, að þessi tæki komi ekki að fullum notum, nema þessi vegur verði lagður. Þar sem þess vegna er hér um svo margþætta þörf að ræða, en hinsvegar óverulega fjárupphæð, vænti ég þess, að hv. d. taki vel í þessa málaleitun.

Mér þykir rétt að láta þess getið, að ég hefi ekki flutt við þessa umr. till., sem ég flutti við 2. umr., en tók þá aftur samkv. tilmælum fjvn., þess efnis, að veittar væru 8500 kr. til Útgerðarfélags Vatnsleysustrandar, til lendingarbóta þar. Hefir hv. frsm. n. skýrt frá því, að samvinnufélag sjómanna og verkamanna þar syðra muni fá 4000 kr. í þessu skyni af þeim 32500 kr., sem samkv. till. n. eiga að fara til bryggjugerða og lendingarbóta á næsta ári, og jafnframt lýst yfir því, að ef kostnaðurinn af þessu mannvirki færi fram yfir 12 þús. kr., ættu þessir aðiljar kröfu til uppbótar þessum styrk sem svaraði þriðjung alls kostnaðar af þessum framkvæmdum. Get ég eftir atvikum sætt mig við þetta og lét því niður falla þessa brtt. mína.

Þá kem ég að styrknum til Eimskipafélagsins. Vildi ég hafa sagt nokkur orð um hann, en þar sem svo fáir þm. eru viðstaddir; verða þau færri en ella hefði orðið. Hæstv. stj. hefir lagt það til, að styrkurinn væri bundinn því skilyrði, að stj. hefði heimild til að kaupa hlutabréf í félaginu sem svaraði styrknum, og nú hefir hv. fjvn. lagt til í ofanálag, að styrkurinn heimilaði ríkisstj. að hafa hönd í bagga með rekstri félagsins. Nær auðvitað engri átt að ganga inn á þessa braut. Það nær meira að segja engri átt að vera að tala um það hér á Alþingi, að Eimskipafélagið, sem er hlutafélag, fari að gefa út ný hlutabréf fyrir styrk, sem því er veittur sem nauðþurftarstyrkur, og útþynni þannig gildi hinna gömlu og upprunalegu hlutabréfa. — Að því er hitt atriðið snertir, að ríkisstj. hafi hönd í bagga með rekstri Eimskipafélagsins, vil ég segja það, að stj. félagsins og framkvæmdastj. skipa slíkir hæfileikamenn, sem hæstv. ríkisstj. auk þess hefir aðgang að, að það er með öllu óverjandi að setja slíkt skilyrði, og mundi af því leiða, að félagið væri álitið verr statt en það raunverulega er, af þeim mönnum, sem ókunnugir eru. Þætti mér nær sanni, að stj. gerði af þeim kunnugleika, sem hún sumpart hefir og sumpart á auðvelt með að afla sér, þær till. til breyt. á rekstri félagsins, sem sanngjarnar geta talizt, og ef þær næðu ekki fram að ganga, gæti komið til mála að fara að tala um að setja slíkt skilyrði. Fyrr er þess ekki þörf og mundi auk þess beinlínis verða skaðlegt fyrir félagið. Og þegar litið er til þess, hversu skammt er til næsta þings, virðist sem allir aðiljar ættu að geta sætt sig við þetta. Ég vildi því eindregið mæla með því, að brtt. hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Borgf. yrði samþ., en þeir leggja til, að framlagið verið ekki bundið öðru skilyrði en því, að nauðsyn reki til, að ríkið inni þetta af höndum. Þingið verður að varast allar þær ráðstafanir, sem geta orðið til þess að slíta sambandið milli ríkisins og Eimskipafélagsins eða til að rýra traust Eimskipafélagsins út á við sem inn á við.