21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í D-deild Alþingistíðinda. (1417)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Meiri hl. fjhn., sem er undirritaður á nál. 393, leggur til, að till. verði samþ. með þeirri breyt., að í stað þess að hún gildi fyrir allt árið, skuli hún aðeins gilda um 3/4 árs, eða til septemberloka.

Ég vil geta þess, að ekki voru allir á fundi í n. þegar þetta mál var afgr., og auk þess rituðu tveir nm. undir nál. með fyrirvara, og geri ég ráð fyrir, að þeir geri grein fyrir honum, ef þeim þykir ástæða til.

Það er svo með þetta mál, að auka dýrtíðaruppbót var samþ. fyrir árin 1929 og 1930, og á sama hátt hefir verið gert ráð fyrir, að svo yrði 1931. Till. um það var borin fram á vetrarþinginu síðasta, en náði þá ekki fram að ganga frekar en margt annað, sökum þeirra óvæntu atburða, sem þá gerðust.

Um afstöðu n. vil ég annars taka það fram, að hún lítur svo á, að minni ástæða sé til að samþ. þessa aukadýrtíðaruppbót nú en árið 1929. Þá var frávikið milli aukadýrtíðaruppbótar og lögákveðinnar uppbótar hækkað úr 4% upp í 15%, en síðan hafa vörur lækkað í verði, og fyrirsjáanlegt þykir, að svo muni verða enn, ef kreppan heldur áfram, og þá er síður ástæða til að halda þessari aukadýrtíðaruppbót.

Það er vitanlegt, að fjárhagur allra einstaklinga hefir versnað við dýrtíð og atvinnuleysi, og þá virðist ekki eðlilegt, að starfsmenn ríkisins fái bættan hag sinn jafnframt því, sem hagur annara þrengist.

Eins og menn sjá, fer þessi till. fram á, að framlenging þessarar dýrtíðaruppbótar gildi um það, sem liðið er af árinu, og er það gert með tilliti til þess, að erfitt myndi reynast að heimta aftur það, sem ofborgað hefir verið.

Ég sé, að komin er fram brtt. á þskj. 419, og um hana hefir n. auðvitað óbundnar hendur, en mér virðist, að hún komi því aðeins til greina, að nokkur dýrtíðaruppbót verði ákveðin með lögum. En eins og ég hefi tekið fram, hefir n. ekki athugað hana, og hefir því óbundnar hendur.