21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (1418)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Magnús Guðmundsson:

Ég skal geta þess, að hvorki ég né hv. þm. G.-K. vorum á nefndarfundi, er þetta mál var tekið til athugunar, því að eftir að þrjú mál höfðu verið tekin af nefndinni eftir örstuttan tíma, sáum við ekki ástæðu til að fást við nefndarstörf yfirleitt. — Þingsaga þessarar till. er næsta einkennileg. Hún var borin fram á vetrarþinginu síðasta af hæstv. fjmrh. þáv., en lenti þá í pappírskörfunni eins og fleira, er þing var rofið. Hún kom þó til atkv. í hv. Ed., en þar greiddi enginn atkv. með henni af hv. stuðningsmönnum stjórnarinnar nema fyrrv. fjmrh., ekki einu sinni hinn ráðh., sem þar átti sæti, en þó var þetta kallað mál stjórnarinnar.

Nú er það svo um slík mál, að því aðeins geta þau kallazt vera frá stjórninni, að öll stj. sé þar á einu máli. Því þykir mér gaman að sjá, hvort hæstv. forsrh. greiðir till. nú jáatkvæði sitt, þar sem núv. stjórn hefir borið þetta fram.

Annars er það auðsætt, að eins og þessi till. liggur fyrir, þá er hún aðeins kvittun til hæstv. stjórnar, eða syndafyrirgefning fyrir að hafa greitt dýrtíðaruppbót í heimildarleysi það sem af er árinu, og má því vera, að stjórnarflokkurinn veiti henni þá syndakvittun, en ég tel mér ekki skylt að taka þátt í þeim leik eða aflátssölu.

Mér finnst það ekki skipta neinu verulegu máli, hvort þessi uppbót er greidd allt árið eða aðeins til septemberloka, en það eina, sem verulega þýðingu getur haft, er það, að stj. fái þessa kvittun eða fyrirgefningu, en um það verður hún að leita til flokksmanna sinna. Hér liggur fyrir brtt. frá hv. 2. þm. Rang., og skal ég um hana segja, að mér finnst hún sanngjörn, því að verst eru þeir stæðir, sem lægst eru launaðir, og mun ég því greiða atkv. með henni. Annars er það eftirtektarvert, að af þeim 3 nm., sem hafa gefið út nál., hafa tveir undirritað með fyrirvara, svo að ekki er samkomulagið sem bezt. Annars vil ég hér taka það skýrt fram, að stj. hefir í algerðu heimildarleysi borgað, það sem af er þessu ári, miklu hærri dýrtíðaruppbót en lög heimila. Hún fer nú fram á samþykki þingsins fyrir þeirri greiðslu, en ég synja alveg um það samþykki að því er mig snertir.