21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (1425)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Mér þykir gott að heyra, hvað góðar undirtektir brtt. hv. 2. þm. Rang. fær. Vil ég leggja áherzlu á, að hún verði samþ. Skal ég geta þess, að ég skil hana svo, að þeir, sem hafa rúmlega 2500 kr. laun, fái ekki lægri laun að viðbættri dýrtíðaruppbót en þeir, sem hafa 2500 kr. laun. Gildir þá 40% dýrtíðaruppbót um allt að 2600 kr. laun. Ef enginn mótmælir þessum skilningi, þá verður till. framkvæmd á þennan hátt.

Ég skal ekki deila við hv. 2. þm. Reykv. um það, hvort launatölur fjárlaganna séu bindandi. (EA: Ég kom með fyrirspurn, með hvaða prósenttölu reiknað væri í fjárlögunum). Ég skal svara því strax. Launauppbótin er reiknuð með 40%. Það kann að vera eitthvað „juridiskt“ í þessu, sem hann hefir meiri möguleika til að þekkja en aðrir, en ég hygg þó, að reglur þær, sem nú gilda um dýrtíðaruppbót embættismanna, séu þær, að þessi hundraðstala fjárl. sé áætlunarupphæð. Er það vitanlega óhjákvæmilegt að áætla hundraðstöluna, því að það er þráfaldlega svo, síðan dýrtíðaruppbótin var lögtekin, að ekki er hægt að sjá fyrirfram, þegar fjárl. eru samin, hver dýrtíðaruppbótin verður. Það mun og hafa verið svo, að þessi áætlunarupphæð hefir sjaldnast staðið heima við þær greiðslur, sem síðar hafa farið fram. Ég hygg þetta því bundið af ákvæðum launalaga og að þar sé að finna hina bindandi reglu um dýrtíðaruppbótina, hvað sem liður áætlunarupphæð fjárlaganna.