22.08.1931
Sameinað þing: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (1447)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Magnús Jónsson:

Það hefir verið bent á, að ekki er laust við, að till. þessi sé hálfgerð hrákasmíð, og verði hún samþ. óbreytt, verður að drepa í mörg göt og rifur á henni. Eins og t. d. það, að ákvæði síðustu málsgr. á eingöngu við embættis- og starfsmenn ríkisins, en nær ekki til annara aðilja, sem annars er hér heimild til að greiða hækkaða dýrtíðaruppbót. Þetta skiptir náttúrlega ekki miklu máli í sjálfu sér, þar sem um einn mánuð er að ræða. En mér skilst þó geta legið í þessu nokkur hætta, að því leyti, að telji stjórnin till. nauðsynlega, þá verður hún að afturkalla þessa greiðslu hjá þeim, sem ekki falla undir neinn af þeim liðum, sem hér eru taldir upp. Ég fyrir mitt leyti er alveg samdóma þeim, sem álíta, að stjórnin hafi heimild í fjárlögum til að greiða þá uppbót, sem þar er ákveðin. En hitt er annað mál, að ef þingið lætur sérstaklega skilning sinn í ljós um það, þá mundi stj. telja sig talsvert bundna þeim skilningi.

En nú eru menn á fjárlögum, sem heyra ekki undir neitt af þessu, sem hér er talið. Ég rek mig í fljótu bragði á tvo, dr. Bjarna Sæmundsson og Einar Jónsson listamann. Hæstv. fjmrh. hefir lýst yfir því, að hann skilji, að verðstuðullinn sé sá, sem dýrtíðaruppbót embættismanna er reiknuð eftir. Og eftir hans skilningi á því, að stj. hafi þurft heimild til að greiða þessa hækkuðu dýrtíðaruppbót, þá skilst mér, að afturköllun verði að fara fram gagnvart þeim mönnum, sem ekki heyra undir neinn liðinn, sem taldir eru í þáltill. Ég býst alls ekki við, að þetta hafi verið meiningin, en vildi spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort þetta mundi vera gert. Því að ég er hræddur um, að hér sé eitt gatið enn á till., sem þurfi að fella upp í með yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra.