07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta er gamall kunningi hér á Alþ. og ekki sízt í þessari hv. d., og hér er það góður kunningi, því að Ed. hefir nokkrum sinnum afgr. það, þótt aldrei hafi það orðið að lögum. Þó er rétt að geta þess, að í þessum búningi, sem það nú er í, hefir það verið aðeins einu sinni áður, því að nú er ekki aðeins gert ráð fyrir heildsölu á tóbaki, heldur líka á eldspýtum.

Rök þarf ekki mikil fram að færa, því að þau hafa áður verið borin fram. Auk þess var áður einkasala á tóbaki um nokkur ár og reynslan sýndi, að ráðstöfun sú var ekki lítill tekjuauki fyrir ríkissjóðinn. Ég get minnt á ummæli fyrsta flm. þessa máls um það leyti, sem tóbakseinkasalan var lögð niður, að hún hefði uppfyllt þær vonir, sem hann hafði haft og færði rök fyrir tekjuöflun hennar.

Fjhn. gat ekki orðið sammála. Ég og hv. 2. þm. Árn. leggjum til, að frv. þetta verði samþ., en leggjum þó fram á þskj. 204 nokkrar minniháttar brtt. Um þessar brtt. vil ég fara nokkrum orðum.

1. brtt. er í 2 liðum. A-liður er aðeins leiðrétting, þannig, að óhjákvæmilegt þótti að vísa til 14. gr. um sektir. Um b-lið er það að segja, að þar er aðeins um málleiðréttingu að ræða.

2. brtt. er við 5. gr., og er hér ekki heldur um verulega efnisbreyt. að ræða. Við leggjum til að orða greinina upp og bæta því við að ríkisstj. semji reglugerð um reksturinn. Af því að það er gert ráð fyrir reglugerð, teljum við rétt, að þessi ákvæði komi hér.

3. brtt. er við 6. og 7. gr., og er sú, að í staðinn fyrir l. sept. komi 1. okt. — Fyrra ákvæðið er sýnilega fram komið fyrir þá sök, að frv. var borið fram á vetrarþinginu og talið þá óhætt að setja þetta tímatakmark svona snemma. En þar sem nú er orðið svona áliðið, þá er óhjákvæmilegt að færa þetta til.

4. brtt. er við 13. gr. og er efnisbreyt. Í gr. stendur að umbúðir allar um eldspýtur og tóbak skuli merktar með álímdum miðum. Þetta má skilja á þann hátt, að ekki skyldi merkja fyrr en hér á landi. Við töldum réttara að orða það þannig, að á umbúðirnar skuli letra: „Tóbakseinkasala ríkisins“. Þá er það óbundið, hvort það er merkt í verksmiðjunni eða hér heima. Við töldum rétt að halda báðum þessum leiðum opnum.

Síðasta brtt. er komin fram af þeim ástæðum, að í frv. er ekkert um það, hvenær lögin skuli öðlast gildi. En óumflýjanlegt er, að þau öðlist vildi þegar í stað. Þess vegna bættum við við 15. gr.

Þykist ég svo ekki hafa ástæðu til að segja meira fyrir hönd meiri hl. n.