07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jón Baldvinsson:

Ég fékk það út úr ræðu hv. 1. landsk., að hann áleit ekki, að þetta mundi auka tekjur ríkissjóðs, heldur þvert á móti mundu tekjur minnka fyrsta árið, og síðan mundi ríkissjóður ekki fá nema litlar tekjur af innflutningi tóbaks. En nú hefir það sýnt sig þessi ár, sem tóbakseinkasalan var, að hún gaf yfir 200 þús. kr. hagnað árlega. Og hv. þm. játaði, að tollur ætti ekki að lækka. Hitt játa ég að geti verið, að innflutningur tóbaks minnki eins og á öðrum vörum, þegar menn draga vil sig. Það sást berlega á árunum 1922–23, því að þá dróst allt saman, minna var flutt inn og minna keypt.

Nú vil ég þakka hv. meiri hl. n. fyrir meðferðina á frv. og brtt., sem sumpart gera ekkert til, en sumpart eru til bóta. Ef ég ætti þá yfirleitt að vera að þakka hv. þm., því að hv. framsóknarmenn hafa talið sig fylgja þessu máli frá upphafi, þó að misbrestasamt hafi orðið hjá þeim um framkvæmdir. Þeir hafa jafnan verið fúsir til einhverra ráða til að láta það ekki ná samþ., þingsins. (JónJ: Þeir eru gráðugir!). En í sambandi við þetta ætla ég að spyrja hv. fjhn. um fylgi við frv. um rafveitulánasjóð Íslands, sem gert er ráð fyrir, að hagnaður af tóbakssölunni renni til. Ég vil spyrja, hvað því frv. liði. Ég álít það ætti að koma samhliða þessu frv. í hv. d. Þetta mál er eitt af því, sem flokkarnir í þinginu hafa talið mikilsvert mál, þó að menn hafi ekki ennþá sameinazt um úrlausn rafveitumálanna. Ég vildi því mælast til, að hv. n. léti þetta mál koma fram sem fyrst, því að það á að fylgja þessu máli, sem nú er hér til umræðu.