07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það hefði verið nokkur ástæða til að benda hv. flm. á, að það virðist sem verið sé að sveigja hann nokkuð af þeirri leið, sem hann þóttist vera að ganga. Hann ætlaði að útvega tekjur í ákveðnum tilgangi. Það er að vísu tekið góðfúslega á móti tekjum. — hvað miklar þær kunna að verða, áreynslan eftir að sýna — en tilganginum virðist bara algerlega vísað á bug. Þetta er dálítið eftirtektarvert einmitt í sambandi við það, sem við vorum að tala um á dögunum um frv. sem flokkur hv þm. er að bera fram í Nd. Ég var að benda honum á, að ekki væri alveg víst, að tekjunum yrði varið samkv. því, sem til væri ætlazt. Það gæti farið svo, að hæstv. stj. færi þá eftir sínum geðþótta.

Ég vil nú henda hv. flm. á, hvort ekki sé ráð að stöðva framgang frv. þangað til séð verður, hvað meiri hl. fjhn. ætlar að gera við rafveitulánasjóðsfrv.

Hv. 5. landsk. talaði um menn, sem vildu styðja að landshagsmunum í sambandi við þetta mál. Ég vil leyfa mér að spyrja þennan hv. þm., hvað hann hefir verið að gera fjögur undanfarin ár. Mér virðist hann hafa setið á landshagsmununum allfast, því að ég veit ekki betur en það hefði verið algerlega á hans valdi að koma einkasölu á á þingi 1928. (JónasJ: Ég var alltaf með því þegar málið var til umr.), en landshagsmunirnir hafa ekki átt upp á pallborðið hjá hv þm. fyrr en ef það verður nú. Það kynnu þá kannske að vera aðrir hagsmunir, sem meira eru metnir hér eftir en hingað til.

Annars vil ég lýsa yfir því, að ég er sömu skoðunar um þetta mál og hv. 1. landsk. Ég er sannfærður um, að einkasala verður ekki til hagsmuna fyrir ríkissjóð, heldur þvert á móti. Ég vil benda á, að með einkasölufyrirkomulagi á síldarverzlun er alveg verið að eyðileggja þennan atvinnuveg fyrir landsmönnum, og koma honum algerlega í hendur útlendinga. Verður væntanlega ekki langt að bíða þess, að við verðum að biðja útlendinga að koma aftur og veita okkur vinnu við þennan atvinnurekstur. Og við vitum um reynsluna af einkasölu á tóbaki. Það voru stórir landshlutar, sem sama sem ekkert skiptu við einkasölu ríkisins, heldur öfluðu sér tóbaks á einn eða annan hátt. Ég man það, að þegar ég var á ferð eitt sinn úti á landi, var mér sagt, að tóbak fengist yfirleitt ekki í búðum, menn öfluðu sér þess á annan veg. Oft var það, að verzlunarmaður átti eitthvað til sinna nota, og gat hjálpað öðrum, ef lá á. Í þetta horf mun sækja aftur, ef einkasala kemst á. Þess vegna vildi ég óska, að hv. 5. landsk. og aðrir vildu gera svo vel að sitja sem allra fastast á þessum „landshagsmunum“, eins og þeir hafa setið fast á þeim fjögur undanfarin ár.