22.08.1931
Sameinað þing: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (1459)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þessi síðustu ummæli hv. 1. landsk. vissi ég ekki glöggt, hvernig bar að skilja. Því að ég veit ekki, hvaða ástæða er til að draga það í efa, að þessi till. verði eins framkvæmd gagnvart stj. eins og öðrum.

En um ýmsa aðra hluti, sem hv. 1. landsk. telur óþarfa eða of háa, þá kemur það ekki þessari till. við.

Hv. 1. landsk. sagði, að til séu fordæmi um það, að greiddar séu hærri fjárhæðir heldur en lög mæla fyrir um. Ég býst við, að hann eigi við meðgjöf með sjúklingum á Kleppi eða eitthvað þess háttar. En í rauninni er það ekki nein fyrirmynd, að þar hafa verið látin haldast úrelt ákvæði, sem allir eru sammála um að víkja frá. Það hefir aðeins farizt fyrir að breyta þessum lagafyrirmælum. (JónÞ: Ráðherrann má líta miklu nær). Ég tek þetta dæmi, af því að það hefir verið til þess vitnað.

Þá sagði hv. þm., að ef minn skilningur á launalögunum og áætlunarupphæð fjárlaganna væri réttur, þá hefði stj. heimildarlaust greitt 40% þetta ár. Það er rétt, að stj. hefir ekki haft formlega heimild. En sé nú gefin heimild um það, þá nægir hún fyllilega. En að stj. hefir gert þetta í heimildarleysi, liggur í því, að sú venja var að myndast að láta uppbótina vera 40% og hverfa algerlega frá ákvæðum launalaganna. Stj. mun hafa þótt réttast að bíða eftir ákvörðun þings, sem kom saman rétt eftir áramótin. Og ég geri ráð fyrir, að það sama verði nú uppi á teningnum, að þeim reglum, sem nú eru settar annaðhvort í lögum eða þál. um dýrtíðaruppbót, þeim verði því fylgt þangað til næsta þing setur aðalregluna, þó að segja megi, að stj. sé heimildarlaus í þessu efni frá 1. janúar næsta árs þar til þing kemur saman.

Ég vil mælast til þess, að hv. þm., sem hér tala, viðurkenni það, að ég er ekki að ræna þá Bjarna Sæmundsson og Einar Jónsson neinum fjárhæðum, sem þeim ber með réttu. En þeir verða vitanlega að lúta ákvæðum þessarar till., ef samþ. verður, eins og aðrir. Ég sem þm. vildi svo gjarnan láta þessa menn hafa einhverja aura umfram aðra, ef heimild væri til þess og fjárhagur leyfði, ef til vill upp á væntanlega fyrirgefningu Alþingis. Þessir tveir menn eru vel kynntir, og það vilja allir þeim það bezta.

Hv. 2. landsk. sagði, að stj. ætti auðveldan aðgang að svona vesalingum, sem stæðu í fjárlögum, og gæti kúgað þá til að falla frá sínum kröfum. Virtist svo sem hv. þm. væri eitthvað vanur slíkri aðferð. Ég hygg, að hv. þm. hafi enga ástæðu til að bera mér á brýn, að ég mundi reyna að kúga þessa menn til að falla frá kröfum, með því að hóta þeim að taka þá ekki í fjárlög næsta árs, ef þeir láti ekki af sínum rétti. Og hv. þm. getur verið alveg rólegur fyrir slíku. Það virðist næstum eins og þörfin að finna að hjá stj. hafi verið þarna ríkari en umhyggja fyrir þessum mönnum, sem eru í engri hættu. Og hv. þm. má vita, að til eru þau málaferli, sem háð eru með samkomulagi beggja aðilja, þegar þeim kemur ekki saman um skilning á einhverju. Og slíkt má heyja án þess að það sé háð eins og „pólitísk“ barátta flokkanna hér á Alþingi.