07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Það lá fremur vel á hv. 1. þm. Reykv. þegar hann flutti sína, ræðu. Ég skal ekki segja, hver var orsökin, en það gaf mér ástæðu til að álykta, að rétt væri að taka, ýmislegt af því, sem hann sagði, í spaugi. Hann sagði m. a., að þegar tóbakseinkasalan var hér áður, hefðu stórir landshlutar engin viðskipti haft við einkasöluna, heldur aflað sér tóbaks á annan hátt. Þetta hefir hann sagt í spaugi, því að ef það er í alvöru sagt, þá felst í því allþungur dómur fyrst og fremst á landsmenn almennt, en ekki síður á þá ríkisstjórn og starfsmenn hennar úti um land um slæmt eftirlit. (Rödd af þingbekkjum: En kaupmenn?). Kaupmenn falla auðvitað undir þennan dóm líka.

Ég er nú viss um, að þetta er ofur vel hægt að rannsaka, aðeins fara í reikninga einkasölunnar frá þeim tíma. Og þeir munu sýna, að ekki er nokkur landshluti, sem ekki skipti við hana. (JónÞ:Tala nú mjög varlega). Svo að þessi ástæða er mjög veigalítil. En ef á að taka þetta alvarlega, þá verður að líta svo á, að þessi öflun tóbaks hafi horfið eftir að verzlunin var gefin frjáls, — ekki fyrir það, að tóbak yrði ódýrara, en þá aðeins fyrir það, að eftirlit með tollgæzlu hefir batnað. Þar liggur ástæðan, ef nokkur fótur er fyrir fullyrðingu hv. þm. En svona órökstudd ummæli geta ekki verið nokkur mótbára gegn frv., því að það vita allir, að það er verðlagið á tóbakinu, sem gefur freistinguna til að fara utan hjá l., en ekki það, hvort kaupmenn verzla með tóbakið eða ríkisverzlun. Nú vita menn, að meiri hl. tóbaksverzlunar hér á landi er í höndum eins félags. Býst ég ekki við, að kaupmenn úti um land geri það í gustukaskyni við Tóbaksverzlun Íslands að skipta við hana, ef þeir hafa ekki skipt við einkasöluna áður. Ég tel yfirleitt ekki sæmilegt á Alþingi að slá svona ummælum fram í alvöru, en hinsvegar fyrirgefanlegt, ef það er í gamni gert.