07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég held, að hv. 2. þm. S.-M. hafi nú verið að tala í spaugi. Því að ég held satt að segja, að honum hljóti að vera þetta nokkurn veginn eins kunnugt og mér, og sennilega töluvert betur. Annað mál er það, að hv. þm. hefir ekki nákvæmlega rétt eftir það, sem ég sagði. Hann kvað mig sagt hafa, að enginn kaupmaður í þessum landshlutum hefði haft nokkur viðskipti við einkasöluna. Ég sagði lítil, svo að tóbak var nálægt því ófáanlegt í búðum. Og þetta sagði ég blátt áfram sem reynslu og í fullri alvöru. Og ég held, að hv. þm. hljóti að vera þetta að einhverju leyti kunnugt. En það er ekki heldur rétt hjá hv. þm., að tóbaksverðið eitt geri það að verkum, að svona getur farið. Það er verzlunarmátinn. Það er þetta, að aðeins einn aðili hafi tóbaksverzlunina í höndum sínum, sem veldur töluvert miklu. T. d. bara það, að þegar fleiri eru seljendur, þá er samkeppni, og þá er auðveldara fyrir kaupmenn að fá vöruna heldur en þegar einn selur og hefir allt í hendi sinni, en stj. einkasölunnar hefir lítilla hagsmuna að gæta í sambandi við verzlunina.

Mér er líka vel kunnugt, að það gekk oft erfiðlega fyrir kaupmenn að fá tóbak hjá einkasölunni, en nú hafa kaupmenn mjög greiðan aðgang að vörunni. Um þennan landshluta, sem ég minntist á, get ég ekki fullyrt nú fyrir víst, hvort þar er verzlað á þann löglega og eðlilega hátt: ég hefi ekkert grennslast eftir því. Ég held, að það séu tyllivonir einar, er hv. meðmælendur frv. álíta, að ríkissjóði myndi verða tekjuhækkun að því, að frv. yrði samþ. Það ætti að vera öllum hv. dm. ljóst, að fyrst í stað, á næsta ári, myndi það hafa í för með sér óhjákvæmilega tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, að einkasalan væri sett á stofn. Það er þess vegna mjög gálauslegt af hv. framsóknarmönnum að ætla að koma einkasölunni á fót nú, einmitt þegar ríkissjóður þarf nauðsynlega að fá allar þær tekjur, sem hann getur fengið. Og fyrst hv. stjórnarflokkur hefir ekki hreyft þessu máli í 4 síðastl. ár, þá held ég, að hann ætti að fresta því a. m. k. um eitt ár ennþá.