22.08.1931
Sameinað þing: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (1467)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Einar Arnórsson:

Ég skal ekki að þessu sinni blanda mér inn í deilur um það, hvernig beri að skilja einstaka liði fjárl.; við ræddum um það í Nd. í gærkvöldi. En það er eitt, sem ég vildi benda hv. þingheimi á. Þegar fjárlfrv. fyrir 1931 var gert, þá sagði stj. sem svo í aths. við það, að dýrtíðarupphót á laun sé áætluð 40%, og má sjá það í þingtíðindum 1930, A. bls. 42.

Nú er það alkunna, að 1929 var dýrtíðaruppbótin ekki orðin 40%, ef reiknað var nákvæmlega eftir launalögunum. Og það var ekki nokkur ástæða til að ætla, að í árslok 1929 eða í upphafi árs 1930 mundi verð á þeim vörum hækka, sem dýrtíðaruppbót er reiknuð eftir. Ef sú hefði verið tilætlun þings og stj. 1930 að fara eftir launalögunum, hefði ekki verið nein ástæða til þess, og ekkert vit heldur, vil ég segja, að áætla dýrtíðaruppbótina 40%, þar sem hún var þá 34–36%. Hefði þá verið skynsamlegra að áætla uppbótina eftir þeirri hundraðstölu, enda mundi svo vafalaust hafa verið gert, ef ekki hefði verið tilætlun þings og stjórnar að greiða 40% í uppbót á embættis- og starfsmannalaunin. Með þessu virðist mér og sem embættis- og starfsmönnum hins opinbera hafi verið veitt von um sömu uppbót fyrir árið 1931 og greidd hefir verið undanfarin ár, og vakið svo mikið traust hjá þessum mönnum að þessu leyti, að Alþingi geti ekki sóma síns vegna — hvernig svo sem dómstólarnir kynnu að líta á þetta mál — kippt að sér hendinni um þetta nú, þegar næstum 8 mánuðir eru liðnir af árinu 1931. A. m. k. mundi verða lífið svo á í viðskiptum milli einstaklinga, að slíkt væri ekki sæmileg meðferð. Atvinnurekandi, sem færi svo að gagnvart verkamanni sínum, mundi ekki talinn fara heiðarlega að.

Hv. l. þm. N.-M. vildi halda því fram, að með samþykkt slíkra þáltill. á undanförnum þingum hefði stj verið heimilaðar þessar greiðslur, en mér virðist sem ekki þurfi að liggja meira í því en að stj. hafi viljað fá það fram svart á hvítu með samþykkt till., að þingið hefði ekkert að athuga við þessa ráðabreytni, þó að hún í sjálfu sér hefði fulla heimild til að greiða þetta eftir fjárl., enda geri ég ráð fyrir, að stj. hefði ekki þurft að óttast aðfinnslur eða að hún yrði látin sæta ábyrgð að þessu leyti, því að ég hefi aldrei heyrt andstæðinga stj. finna að þessu, hvorki í ræðu né riti.