12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Ég hefi skilað nál. um þetta mál á þskj. 261 og dregið þar saman þær helztu ástæður, sem ég hefi fram að færa á móti frv. Get ég ekki séð, að nein skynsamleg ástæða sé til þess að fara nú að lögleiða hér einkasölu á tóbaki, nema ef það væri til þess að afla ríkissjóði tekna. Ef hinsvegar er útlit fyrir, að ríkissjóður fái ekki auknar tekjur af breytingunni, eða ef hægt er að afla ríkissjóði tilsvarandi tekna á hagkvæmari hátt, eru þar með allar ástæður fyrir frv. fallnar burtu. Hefi ég í nál. mínu fært rök að því með tölum úr verzlunarskýrslunum að einkasölutilhögunin hafði í för með sér, að innflutningur tóbaks, sem tollur var greiddur af, minnkaði að miklum mun. Innflutningurinn á mann þrjú næstu árin á undan einkasölunni nam 1,3 kg. að meðaltali, og 4 næstu árin eftir að einkasölunni var létt af 1,2 kg., en þau 4 á, sem einkasalan stóð, nam innflutningurinn ekki nema 0,9 kg. á mann að meðaltali. Hefi ég ekki getað fundið neinar sérstakar ástæður fyrir því, að innflutningurinn skuli vera þetta minni 1922–1925 en árin á undan og eftir, aðrar en þessa tilhögun, sem þá var á tóbaksverzluninni. Því er ekki til að dreifa, að þessi ár hafi verið neitt sérstaklega erfið ár; 2 hin fyrri, 1922–23, voru að vísu óhagstæð verzlunarár, en seinni 2 árin, 1924–25, voru aftur á móti óvenjulega hagstæð ár. Því er og ekki heldur til að dreifa, að innflutningurinn næstu árin áður en einkasalan tók til starfa hafi verið óvenjulega mikill, þannig að miklar birgðir hafi þá verið fyrir í landinu. Þvert á móti. Innflutningurinn árið fyrir einkasöluna nam ekki nema 0,8 kg. á mann, og er það fyrir neðan meðaltal næstu áranna á undan. Þessi reynsla sýnir, að búast má við, að innflutningurinn minnki um 25%, ef einkasölutilhögunin verður tekin upp. Tollurinn af tóbaki síðasta árið, sem ég hefi skýrslur yfir, 1929, nam 1258000 kr., og minnkar hann um 25% samkv. þessu, og þar sem ekki er gert ráð fyrir að breyta tollákvæðunum, má búast við, að þessi lækkun á tolltekjum ríkisins af tóbaki nemi yfir 300 þús. kr., ef miðað er við árið 1929, en eitthvað undir þeirri upphæð, ef miðað er við síðustu 4 ár. Forgöngumenn þessa máls gera ráð fyrir það mikilli verzlunarálagningu á tóbaki hjá einkasölunni, að hún ætti að gefa ríkinu 250–300 þús. kr. í tekjur, sem er svipuð upphæð sem búast má við, að ríkið tapi á tolltekjunum, svo að vinningurinn fyrir ríkissjóð verður enginn, en byrðin lendir á þeim, sem halda áfram að kaupa og nota tollað tóbak, og má gera ráð fyrir, að verðið á tóbakinu verði að hækka um 15% frá því, sem nú er, til þess að ná þeim tekjum, sem flm. frv. reikna með.

Ég gat þess áður, að ég hefði ekki fundið neinar sérstakar ástæður fyrir hinum minnkaða tóbaksinnflutningi árin 1922–25 aðrar en einkasölutilhögunina sjálfa. Hefi ég þó leitað í huga mér að ástæðunum til þessa. Árferðið hefir mikið að segja í þessum efnum, en eins og ég tók fram, getur það ekki réttlætt þetta, því að þótt tvö hin fyrri árin væru allerfið ár, voru hin tvö síðari einmitt veltiár og bættu þannig hin fyrri upp. Þá er því ekki heldur til að dreifa, að þjóðin hafi verið neitt sérstaklega sparsöm á munaðarvörur á þessu tímabili. Eru til upplýsingar um það í verzlunarskýrslunum, hve mikill hl. munaðarvörurnar eru af öllum innfluttum vörum á hverju ári, og samkv. því hefir innflutningur á munaðarvörum numið svipaðri hundraðstölu af innfluttum vörum í heild sinni þessi 4 ár, sem einkasalan stóð, og árin fyrir og eftir. Árin 1919–21 nemur innflutningur á munaðarvörum 11,9%. 1922–25 11,l% og 3 síðustu árin, sem til eru skýrslur um, tæpum 9% af öllum innflutningnum. Ég held því, að gera verði ráð fyrir, að tollur af innfluttu tóbaki minnki við það, ef einkasalan verður tekin upp, og þar með er grundvellinum kippt undan þeim vonum um tekjuauka, sem menn gera sér með þessu frv.

Ég hefi þar næst leitt rök að því, að sú tollhækkun, sem gerð var, þegar einkasalan var lögð niður í ársbyrjun 1926, hefir reynzt drýgri tekjuauki fyrir ríkissjóð en tóbaksverzlunin þau 4 ár, sem einkasalan var við lýði. Þó var tóbakstollurinn ekki hækkaður svo mikið, að gert væri ráð fyrir, að verzlunararðurinn næðist upp með tollhækkuninni. Það var slakað til með tollinn af þeim tóbakstegundum, sem álitið var, að einkum væru notaðar af hinu efnaminna fólki í landinu. En þó að svo varlega væri farið í sakirnar, hefir reynslan þó sýnt, að tollurinn af tóbaki síðustu 4 árin hefir gefið 383 þús. kr. meiri tekjur árlega en heildartekjurnar af tóbaki urðu undir einkasölufyrirkomulaginu. Er fljótfundið, í hverju þetta liggur. Tóbaksinnflutningurinn nemur á mann 1,2 kg. að meðaltali síðustu 4 árin, en ekki nema 0,9 kg. á meðan einkasalan stóð yfir, og af þessu hafa tolltekjurnar orðið þetta meiri en menn gerðu ráð fyrir, þegar einkasalan var lögð niður, af því að menn þorðu ekki að reikna með því, að niðurlagning einkasölunnar mundi hafa þessi áhrif á tóbaksinnflutninginn. Skýrslur þær, sem ég hefi tekið upp í nál. mitt, sýna ennfremur, að heildartekjurríkissjóðs af tóbakinu urðu um 758 þús. kr. að meðaltali á ári meðan einkasalan starfaði, en eftir að hún var lögð niður og tollurinn hækkaður sem nam nokkrum hluta verzlunarálagningarinnar, hafa þessar tekjur hækkað upp í 1141 þús. kr. árlega. Mismunurinn er 383 þús. kr. eða um 50% hækkun frá þeim tekjum, sem ríkissjóður hafði af tóbakinu yfir einkasölutímabilið. — Á þessum skýrslum er ennfremur tilgreint verðið á innfluttu tóbaki, eins og það er talið í verzlunarskýrslunum, og er þar miðað við innkaupsverð að viðbættum flutningskostnaði til landsins. Sést þar, að 1929, en það er síðasta árið, sem skýrslur eru til yfir, hefir innkaupsverðið numið 1320 þús. kr., en tollurinn nemur það sama ár 1258 þús. kr. Er því svo komið, að tollurinn, sem greiddur er af tóbakinu í ríkissjóð, nemur jafnmiklu að kalla má og innkaupsverð vörunnar kominnar hingað til lands. Bendir þetta til þess, að varhugavert sé að ætla að ná verulega auknum tekjum ríkissjóði til handa með auknum álögum á þessa vörutegund yfirleitt, því að þeim mun meiri mismunur, sem er á milli innkaupsverðs vörunnar og útsöluverðs hennar hér á landi þeim mun meiri hætta er líka á því, að salan minnki. Það er hætt við, að neyzlan minnki, bæði af því að varan er tiltölulega dýr í samanburði við aðrar vörur og hættan af smyglun er miklu meiri sökum hagsmunavonarinnar og það er mjög varhugavert.

En ef menn vilja fá meiri tekjur af þessari vöru, þá má hækka tollinn ofurlítið, því að það myndi ekki draga neitt að ráði úr innflutningnum, a. m. k. ekki eins mikið og einkasalan myndi gera. Á fyrsta ári einkasölunnar myndi verða mjög mikil tekjurýrnun, en því til sönnunar þarf ekki annað en benda á árið 1922, og gera samanburð á tekjunum áður og eftir að einkasalan komst á. Menn kunna nú að segja, að þetta myndi ekki verða, ef hömlur væru settar á innflutning til áramóta, en slíkt kemur að engu gagni, því að þegar innflytjendur eiga von á einkasölu, þá flytja þeir ekki mikið inn af vörunni, eins og sýndi sig fyllilega árið 1921, því að tekjur af tóbaki hafa aldrei verið eins lágar og árin 1921 og 1922, þau árin, sem einkasalan var að komast á, og eins myndi fara nú.

Um það, að draga eldspýtur inn í þetta einksölufrv., þarf ég ekki margt að segja. Eldspýtur eru nauðsynjavara, og það mætti taka hvaða aðra nauðsynjavöru sem er, en það er að fara inn á nokkuð aðra braut en verið hefir gert til þessa. Tóbak er óþarfavara, sem ekkert er að athuga við, þótt sé tollað hátt eða lagðar hömlur á innflutning þess, en ég álít það hreina neyðarráðstöfun, ef slíkt hið sama á að fara að gera við nauðsynjavörur. Þá þykist ég hafa gert næga grein fyrir því, af hvaða ástæðum ég greiði atkv. á móti frv. þessu, en ef svo skyldi fara að frv. yrði samþ., þá hefi ég borið fram brtt. á þskj. 243, um að aftan við 5. gr. bætist: .,Forstöðumaður og starfsmenn fyrirtækisins mega hvorki sjálfum sér til handa né handa fyrirtækjum, sem þeir eru við riðnir, taka við neinum umboðslaunum eða þóknun í neinni mynd frá framleiðendum eða seljendum vörutegunda þeirra, sem Tóbakseinkasala ríkisins verzlar með. Brot gegn þessu heimfærast undir 13. kapítula hinna almennu hegningarlaga.

Það hefir þótt vafasamt, hvort starfsmenn sem þessir yrðu taldir til embættis- eða sýslunarmanna ríkisins. Ekki alls fyrir löngu hefir þó fallið dómur í öðru svipuðu tilfelli, þar sem úrskurðað hefir verið, að starfsmaður við víneinkasöluna sé sýslunarmaður. Mér þótti rétt að setja inn í frv., að þessir menn mættu ekki taka við umboðslaunum frekar en embættis- og sýslunarmenn, sem óheimilt er að taka við slíku.

Ástæðan til þess, að ég ber þetta fram, er sú, að ég þykist hafa orðið var vil það, að slíkir menn teldu sig hafa heimild til að taka á móti slíkum þóknunum, en til þess að fyrirbyggja allan misskilning, vil ég taka það fram, að það dæmi, sem ég á við, er ekki frá Tóbakseinkasölunni gömlu.

Ég álít rétt, að þótt þessir menn taki ekki laun sín beint úr ríkissjóði, heldur frá arðberandi stofnunum ríkisins, skuli þeir lúta sömu lögum og embættis- og sýslunarmenn, og brtt. mín ákveður, að þeir skuli teljast sekir við 13. kap. hegningarlaganna, ef þeir gera sig seka í afglöpum. Ég álít líka ástæðu til að minna á þetta, ef verið er að breyta til með þetta hvað eftir annað, þannig að verzlunin er ýmist frjáls eða rekin með einkasölufyrirkomulagi, og verksmiðjur hafa hér umboðslaunaða menn; þá er ástæða til að ákveða í eitt skipti fyrir öll, að menn við slík einkasölufyrirtæki megi ekki á neinn hátt hafa stöðu sem umboðsmenn fyrir þessar verksmiðjur í hinni almennu verzlun.