12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Hv. minni hl. fjhn. hefir gert ýtarlega grein fyrir afstöðu sinni í þessu máli, og þykir mér hlýða að taka nokkur atriði í nál. hans og ræðu hv. l. landsk. til athugunar. Það er vitaskuld gott að draga fram slíka skýrslu eins og hv. 1. landsk. hefir birt í nál. sínu, en það er nú svo með slíkar skýrslur, að af þeim flestum má draga ýmsar ályktanir, svo að komizt verður að ólíkri niðurstöðu.

Ef óhlutdrægt er litið á þessa skýrslu, blasir það strax við, að tekjurnar hafa farið hraðvaxandi þessi 4 ár, sem einkasalan starfaði. Það leiðir að vísu af sjálfu sér, að tekjurnar eru rýrar fyrsta árið, en reynslan hefir sýnt, að tekjurnar hafa farið hraðvaxandi með hverju ári, en mín sannfæring er sú, að eftir 4 ár hafi þó ekki verið fengin full reynsla fyrir hvaða tekjur megi af þessu hafa. Mér finnst því, að hv. 1. landsk. hafi gefið okkur, sem fylgjandi erum slíku fyrirkomulagi, mjög mikla ástæðu til að ætla, að ef fyrirtæki þetta fær að starfa í friði, uppfylli það allar þær vonir, sem við gerum okkur um það.

Hv. l. landsk. sagði, að tollurinn myndi minnka, ef einkasala kæmist á, og má það vel vera, að sú verði raunin á fyrsta árið, en til þess að tollurinn minnki varanlega, geta aðeins legið tvær ástæður, annaðhvort, að neyzlan minnki, eða að svo mikið sé flutt inn í landið af þessari vöru í heimildarleysi, að það dragi undan tollinum. Um fyrri ástæðuna verð ég nú að segja það, að ég teldi það ekkert þjóðarböl, þótt tóbaksneyzla minnkaði í landinu, því að þótt gott sé að fá tekjurnar í ríkissjóðinn, þá er þó betra, að einskis sé neytt af þessari vöru. Hinni ástæðunni legg ég ekki mikið upp úr. Það skein að vísu í gegnum ræðu hv. 1. landsk. og gægist líka fram í nál. hans, að þessi aðferð — að smygla inn tóbaki myndi verða upptekin, ef einkasala kæmist á, en hvaða sérstakar ástæður ættu að geta legið til þess, ef verð vörunnar héldist óbreytt? Hér er ekki að ræða um hækkaðan toll eða hækkun á verði svo neinu nemi, og þá er aðeins sú lausn til, að andstæðingar þessa máls taki upp á því að tollsvíkja þessa vöru einkasölunni til ófarnaðar. Ef skipulagsbreyt. á að valda þessu, þá er það auðsætt, að við sem viljum taka upp einkasölu, förum ekki að spilla fyrir henni með smyglun, en þá er ekki um aðra að ræða en þá, sem eru á öndverðum meiði við okkur, og virðast mér það þungar ásakanir, sem hv. 1. landsk. ber á þessa fylgismenn sína, og finnst mér það koma úr hörðustu átt.

Ég skal ekkert segja um þá áætlun hv. 1. landsk., að innflutningur kunni að minnka um 25%. Það ber allt að sama brunni; það getur verið, að svo verði fyrsta árið, en er fram líða stundir, hefir reynslan skorið úr því, að hagnaðurinn eykst, og þarf ég ekki frekar að svara því.

Þá sagði hv. l. landsk., að ef menn vildu fá meiri tekjur í ríkissjóðinn, þá væri ekkert annað en hækka tollinn. Það má vera, að hann líti svo á, en það geri ég ekki. Hv. þm. gáir ekki að því, að verzlunarfyrirtækin verða að hafa sinn hagnað af verzluninni, og hækkaður tollur er sama og hækkað verð á vörunni, og þá er þarna tekin aukaborgun af neytendum tóbaksins, seilzt niður í vasa neytenda og stungið í vasa hinna, sem með vöruna verzla. Ég held, að þessi hagnaður sé betur kominn hjá ríkissjóði en einstökum mönnum.

Þá minntist hv. 1. landsk. á eldspýturnar. Það er rétt, að það er öðru máli að gegna um þær. Þær teljast ekki nema að nokkru leyti til munaðarvöru. En það er nú svo ástatt með þessa vörutegund, að hún er komin í hendur hringa, en slíkar vörur getur verið ástæða til að taka í einkasölu. En það er ekkert stórt atriði og ekki stefnumál okkar að taka eldspýtur í einkasölu. En þar sem á annað borð er ráðgert að setja á stofn einkasölu á tóbaki, þá finnst mér ekki úr vegi að taka þessa vöru, sem er skyld tóbakinu og notuð samhliða því, án þess að hafa það fyrir augum að hafa verulegar tekjur af henni. Þetta er hinsvegar ekki neitt mikilvægt atriði, en gæti orðið að skaðlausu öllum nema þeim, sem verzla með eldspýtur, en fyrirtækið gæti fengið styrk af þessari sölu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja umr. um málið. Það hefir komið skýrt fram, hverjar ástæður liggja til frv., og ég get ekki séð, að langar þrætur um það, hvað framtíðin muni bera í skauti sér, beri nokkurn árangur. Reynslan ein verður að skera úr um það, hvort tóbaksnotkun minnkar, og hvort meira verður flutt inn af ólöglegu tóbaki. Úr þessu verður framtíðin að skera og úrskurð hennar álít ég, að ekki sé hægt að fá, nema með nokkurra ára reynslu að minnsta kosti.