12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Ég skal ekki vera margorður, því að tími er naumur, þar sem þarf að ganga til atkv. á þessum fundi. Ég get þó ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um nokkur atriði í ræðu hv. 1. landsk.

Hv. þm. virtist taka það nokkuð óstinnt upp fyrir mér, að ég spurðist fyrir um, hverjar orsakir lægju til þess, að tóbakseinkasalan leiddi til aukinnar smyglunarhættu. Ég komst að þeirri niðurstöðu, að ef smyglunarhættan ykist við það, væri það af því að þetta fyrirkomulag gæfi mönnum nokkurn viðauka við þá hvöt, sem þeir hafa til þess að smygla, af því að þeir væru á móti þessu fyrirkomulagi. Hv. þm. vildi ekki taka þessa ástæðu til greina og svaraði í þá átt, að hann hefði enga tilhneigingu til þess að leita að smyglurum innan sérstaks flokks. Ég hefi það ekki heldur, en þegar haldið er fram vissu atr., fer ég að leita að orsökunum til þess, og það eitt, sem fyrir mér vakir, er að fá að vita. hvers vegna smyglunarhættan er meiri, ef einkasölufyrirkomulag er en annars.

Hv. þm. sagði, að þeim, sem á annað borð legðu lögbrot fyrir sig, myndi þykja vænt um fyrirkomulag sem þetta. Ég býst ekki við, að ástæða sé til þess að leggja neina sérstaka merkingu í þessa framsetningu hv. l. landsk., en nokkuð nærri liggur að álykta af henni, að ein ástæða til þess að vera með þessu máli sé sú, að koma fram þeim mönnum, sem hafa sterka tilhneigingu til þess að smygla.

Ég álít, að Íslendingar séu yfirleitt minna hneigðir til smyglunar en aðrar þjóðir, og ef lögbrot af þessu tæi færu að eiga sér stað að nokkru ráði, myndi eftirlit og tollgæzla verða bætt. Ég álít líka, að með breyttu skipulagi, auknum innflutningi og víðtækri tollalöggjöf sé það óhjákvæmilegt, að tolleftirlitið sé aukið samfara því. En það hafa verið töluverðir misbrestir á því, þrátt fyrir það, að á seinni árum hefir nokkuð verið reynt að bæta úr því, og; vafalaust þarf að gera það ennþá betur. Annars skal ég segja hv. 1. landsk. það, að ég veit ekki betur en að hann og flokksblöð hans hafi tekið þessari auknu tollgæzlu illa og gert lítið úr tollgæzlumönnunum. Virðist þetta benda til þess, að þeim sé ekki sérstaklega hjartfólgið að fyrirbyggja misnotkun í þessu efni. Ég held áreiðanlega, að við eigum að halda uppi fullri tollgæzlu, og ég sé ekki, að meiri hætta sé á tollsvikum undir einkasölufyrirkomulaginu en með frjálsri verzlun. Annars er þýðingarlítið fyrir okkur hv. 1. landsk. að þrátta um þetta mál, því við getum ekki fært fram neinar sönnur á, hvernig það reynist í framtíðinni, en við getum fært fram líkur, og þær verða sterkari mín megin, þ. e. að bezt sé að halda uppi sæmilegri tollgæzlu í landinu.

Út af brtt. hv. 1. landsk. verð ég að segja, að ég hefi sennilega misskilið skýringu hans í fyrri ræðu hans. En hinsvegar vil ég taka það fram, að því ég telji starfsmönnum ríkisins ekki undir neinum kringumstæðum heimilt að taka neina slíka þóknun, þá virðist mér þó þessi aðferð fremur óviðeigandi, ekki sízt vegna þess, að ríkið hefir aðrar stofnanir undir hend, og vill hv. þm. ekki þar slá slíka varnagla.

Ég teldi rétt að taka til ath. í heild þau fyrirtæki, sem ríkið hefir komið á fót, þar sem vafi gæti leikið á um það, hvort starfsmennirnir gætu talizt embættis- eða sýslunarmenn og sem lög ná yfir.

Og þó er það í rauninni mesti orðhengilsháttur að hengja sig í þessi orð sýslunarmenn og starfsmenn. Um embættismenn er þetta aftur á móti ljóst. Ég hafði nú í fáfræði minni haldið, að sýslunarmenn og starfsmenn yrðu tæplega aðgreindir. Ég vil samt ekki halda því til streitu. Og ef löggjöfinni er áfátt að þessu leyti, þá er að breyta því. En þessi till. kemur fram sem tortryggni gagnvart væntanlegum starfsmönnum þessarar sérstöku stofnunar, ef ekki kemur hliðstætt fram um aðrar stofnanir. Ég held, að till. hv. 2. landsk. sé betri, þó að henni kunni einnig að vera áfátt. Ég er algerlega mótfallinn þessari till. hv. 1. landsk., en tel þó, að starfsmenn þessarar stofnunar eigi ekki að hafa neinar slíkar aukaþóknanir. Læt ég svo útrætt um þetta að sinni.