12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. landsk. var í niðurlagi ræðu sinnar að býsnast yfir sektarákvæðum frv. Þykir mér þar skjóta skökku við, þar sem hann hefir einmitt sjálfur flutt brtt. við frv. um sérstök refsiákvæði yfir þá menn, sem koma til með að starfa við þessa væntanlegu stofnun. Hv. þm. var að afsaka það, að fremur væri smyglað undir einkasölufyrirkomulagi en í frjálsri verzlun, með því, að slík vöntun væri að jafnaði á einkasöluvörum, að menn væru neyddir til að smygla þeim inn í landið. Þetta fólst a. m. k. í orðum hv. þm. Nú er til þess ætlazt, eins og 2. gr. frv. ber með sér, að einkasalan selji öllum þeim tóbak, sem við hana vilja verzla og verzlunarleyfi hafa, bæði kaupfél., einstökum verzlunarfél. og kaupmönnum. Hver verzlunarstaður á landinu ætti því að geta fengið nóg tóbak frá einkasölunni, svo að vöntun á þessari vöru þarf ekki að leiða til smyglunar á henni. Þar verða þá einhverjar aðrar ástæður að verki.

Þá var hv. 1. landsk. að mæla frekar með refsiákvæðatill. sinni, og sagði, að það væri auðveldara og vekti minni tortryggni að setja slík ákvæði um starfsmenn við þessa stofnun, sem ekki væri enn til, heldur en að setja almenna löggjöf í þessu efni. Kom mér þetta allundarlega fyrir, en það sýnir hugsunarhátt þessa hv. þm., og var þó sumum ekki grunlaust um það áður, að hann vildi láta sleppa öllum öðrum starfsmönnum hins opinbera við slík viðurlög, og að þessi till. hans væri ekki annað en staðfesting á gömlum dylgjum, sem blöð þm. hafa ósjaldan verið með um þetta fyrirtæki. Ef hv. þm. gengi heilög vandlætingarsemi til með þessari till., hefði hann átt að geta fallizt á að taka hana aftur með það fyrir augum, að sett yrði almenn löggjöf í þessu efni. Hv. 1. landsk. veit það vel, að bæði ég og aðrir, sem talað hafa um þessa till. hans, erum ekki á móti því að lögtaka slík ákvæði, en við viljum láta þau ná til allra starfsmanna hins opinbera undantekningarlaust. Því að það er í sjálfu sér spaugilegt, og ber raunar vitni um sérstaka tortryggni í garð þessa væntanlega fyrirtækis, ef fara á að taka væntanlega starfsmenn þess út úr, en sleppa öllum starfsmönnum við aðrar stofnanir ríkisins við slík viðurlög. Það má vera, að rétt sé, að hinir eiginlegu embættis- og sýslunarmenn ríkisins falli undir ákvæði hegningarlaganna í þessum efnum, en það er nú langt síðan þau ákvæði voru sett, og viðskiptalífið er orðið margþættara en þá var, enda hefir ríkið nú marga þá starfsemi með höndum, sem þá var ekki gert ráð fyrir. Nægir um það að minna á stofnanir eins og innkaupastofnun ríkisins. skipaútgerð ríkisins, landssmiðjuna, ríkisprentsmiðjuna o. s. frv. Mun orka tvímælis, hvort starfsmenn þessara stofnana falla undir áðurnefnd ákvæði hegningarlaganna og virðist því rétt að setja um þetta almenna löggjöf, svo að ekki geti leikið neinn vafi á því, að það er refsivert, ef starfsmenn hins opinbera reyna að hafa hagnað af embættum sínum á þann hátt, sem getur í till. hv. l. landsk. og frv. því, sem ég hefi borið fram um þetta efni.

Ég hefi áður drepið á það, að réttast sé að miða tóbaksinnflutninginn við innflutning á einstökum öðrum munaðarvörum, og sýndi ég þá fram á, að tóbaksinnflutningurinn hefir farið eftir sömu þrepum og innflutningur á öðrum munaðarvörum í miklum og litlum innflutningsárum. — Hv. 1. landsk. vildi véfengja það, að árið 1924 hefði verið erfitt ár allt fram í júlímán. Þykir mér hv. þm. vera orðinn nokkuð gleyminn, þar sem hann vill halda þessu fram. Árið 1923 var verra en árið 1922. Þá var hér í Rvík og í fleiri kaupstöðum landsins mikið atvinnuleysi. Haustið 1923 og veturinn 1924 og reyndar allt fram í júní var einna versti kaflinn á þessu tímabili. Hv. þm. sagði, að fiskurinn hefði hækkað í verði í des. 1923. Hefi ég ekki skýrslur um þetta, og má vel vera, að það sé rétt, en þessi hækkun á fiskverðinu hefir þá ekki verið farin að verka meðal almennings, heldur aðeins orðið vatn á myllu einstakra fiskikaupmanna. Ég held að ekki sé hægt að tala um, að batnað hafi í ári, fyrr en nýja framleiðslan var komin á markaðinn, og það var ekki fyrr en í júlímán, en þá seldist líka mikið, og skapaði þetta mikla kaupgetu hjá almenningi seinni hl. ársins 1924. — Innflutningur tóbaks sem annara vöruteg. fer að sjálfsögðu mest eftir því, hvernig ástatt er hjá almenningi. Þegar gott er í ári, er mikið flutt inn af tóbaki, en minna þegur kreppir að. Og hinu sama gegnir um aðrar munaðarvörur, eins og ég hefi bent á. Innflutningurinn minnkar þegar versnar í ári, en eykst samhliða því, sem kaupgeta almennings vex. Þetta er það lögmál, sem innflutningurinn fer eftir, og það er eins og hver önnur fjarstæða, að minna sé flutt inn af tóbaki, af því að einkasala sé á því. Minnkandi innflutningur á tóbaki stafar ekki af neinu öðru en vondu árferði í landinu. Árið 1919 er eitthvert hið mesta veltiár, sem yfir þetta land hefir komið, fyrr og síðar, og því er ekki nema eðlilegt, að þá væri mikið keypt og mikið flutt inn af tóbaki.

Andstæðingar einkasölunnar hafa ekki að þessu sinni komið með þá mótbáru gegn henni, að einkasölur hefðu yfirleitt verri vörur á boðstólum en hin svokallaða frjálsa samkeppni hefði upp á að bjóða. Orkar það ekki tvímælis, að tóbakseinkasalan gamla hafði á sínum tíma á boðstólum allar hinar beztu tóbaksteg., enda stóð einkasalan í verzlunarsamböndum við öll hin betri firmu í þessari grein.

Aftur á móti sýndi það sig 1921, þegar einkasalan kom í gildi og farið var að gera skrá yfir vörubirgðir kaupmanna, að meginhluti allra tóbaksbirgða þeirra var mesta óþverrarusl, lélegar og ódýrar tegundir, pappírsvörur og eftirlíkingar, sem kaupmenn höfðu safnað að sér á stríðsárunum í hinni frjálsu samkeppni. Og landsverzlunin mun hafa beðið talsverðan hnekki við það, að hún sýndi kaupmönnunum of mikla tilhliðrunarsemi í því að kaupa af þeim tóbaksbirgðirnar og selja þær aftur með sínum nýju vörum. Það hefir verið mál þeirra manna, sem tóbak nota, að einkasalan hafi haft góðar og vandaðar vörur, og það er eng- in ástæða til þess að ætla annað en að svo muni verða framvegis.

Ég hefi þá vikið að flestu því, sem hv. l. landsk. hefir borið fram til stuðnings sínu máli og fæ ég ekki séð, að nein af hans ástæðum standist og sízt sú tillaga, sem hann hefir nú borið fram, því að hún virðist gerð aðeins til málamynda; ef hann ætlar ekki að fylgja frv. því, sem ég hefi borið fram, um að banna öllum starfsmönnum hins opinbera að taka þóknun í nokkurri mynd frá fyrirtækjum þeim, sem þeir starfa við, þá er þetta ekkert annað en til þess að ala á tortryggninni gömlu gegn tóbakseinkasölunni, sem blöð hans fluttu á sínum tíma. og hv. þm. vill þá aðeins láta þessi ákvæði gilda um þetta eina fyrirtæki, en ekki önnur, sem ríkið rekur nú, né aðra margháttaða starfsemi, sem gömlu hegningarlögin ná ekki yfir, en ef þörf er á að setja slík ákvæði sem hv. l. landsk. vill vera láta um væntanlega tóbakseinkasölu, þá virðist sjálfsagt, að hið sama eigi að gilda um önnur fyrirtæki, sem ríkið rekur.

Ég hefi minnzt ofurlítið á brtt. hv. 2. þm. N.-M. um að fella niður eldspýturnar. Það hefir engin gild ástæða verið fram borin fyrir þeirri brtt., og það, sem ég sagði um hagnaðinn af því að hafa þessa vöru í einkasölu, stendur óhrakið enn. Ekki er heldur sú ástæða fyrir hendi, sem borin var fram, að þetta væri nauðsynjavara, því hv. þm. verður að athuga, að áreiðanlega ekki nema einn tíundi hluti af öllum þeim eldspýtum, sem eytt er, fer til nauðsynlegrar brúkunar. Hitt fer í sambandi við tóbaksnotkunina. Ég er sannfærður um, að gistihúsin hérna í Reykjavík nota árlega eins mikið af eldspýtum eins og allir bændur landsins nota til samans árlega af þeirri vöru til nauðsynlegra hluta.