12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jón Baldvinsson:

Ég skal taka það fram, svo að það sjáist í umr., að ég ætla að greiða atkv. á móti till. hv. 1. landsk., og ég hefi gert grein fyrir, af hverju ég geri það. Ég hefi þegar bent á leið til þess að koma í veg fyrir, að starfsmenn slíkra fyrirtækja sem þessara hagnist af umboðslaunum eða öðrum þóknunum, og sú leið er að banna slíkt með sérstökum lögum, ef það er ekki nægilega ákveðið nú. Hv. þm. sagði, að ég hefði enga vissu fyrir, að það frv., sem felur þetta í sér, nái fram að ganga, en ég verð nú að segja honum það, að ég hefi enga ástæðu til að ætla, að það nái ekki samþykki, því að hv. 5. landsk., sem er nú mikill valdamaður innan sins flokks, hefir lýst yfir því, að hann teldi víst, að það yrði samþ., og frsm. meiri hl. gat þess, að n, sú, sem um það hefir fjallað, hafi fallizt á öll aðalatr. þess. Ég hefi því enga ástæðu til að ætla, að frv. verði fellt. enda sló hv. 1. þm. Reykv. sig á munninn nokkru síðar í ræðu sinni, er hann gat þess, að hann teldi enga ástæðu til að ætla, að frv. yrði ekki samþ. Annars virðist mér það ósæmilegar dylgjur hjá hv. 1. þm. Reykv. er hann sagði, að ég vildi engin ákvæði um þetta hafa í frv., til þess að þeir menn, sem við þetta ynnu, fengju umboðslaun af verzluninni. Ég þykist enga ástæðu hafa gefið til slíkra ályktana og vísa því þess vegna aftur sem ósæmilegum aðdróttunum. Hv. þm. sagði, að þeir kaupmenn, sem umboð hafa fyrir hin erlendu verzlunarhús, myndu geta hagnazt á því að selja vörur sínar til einkasölunnar, en mér er kunnugt um, að á fyrri árum gekk einkasalan ríkt eftir því, að verzlunarhúsin erlendis létu þá engin umboðslaun fá, enda var orðið lítið eftir af slíkum umboðum, þegar einkasalan var lögð niður. Svo er það einnig athugandi, að ef þetta verzlunarfyrirkomulag stendur lengi, þá myndu þeir menn falla frá, sem umboðin hefðu, og gæti þá einkasalan náð þeim í sínar hendur. Mér er sagt, að nú sé svo komið með víneinkasöluna, að umboðsmenn á víni hafi engan hagnað af hennar viðskiptum, og mun það aðallega vera að þakka þeim starfsmannaskiptum, sem þar voru gera og engin ástæða er til að ætla, að svo verði ekki með tóbakseinkasöluna.

Þá skal ég víkja að því, sem talað var um í dag, og hv. l. þm. Reykv. minntist á, að engar tekjur myndu verða á fyrsta ári vegna minnkandi innflutnings. Þetta má að vísu segja samkv. þeirri reynslu, sem fékkst 1922, en hv. þm. verður að gæta að því, að nú er nokkuð öðruvísi um hnútana búið en þá var. Í 7. gr. þessa frv. eru settar skorður við því, að innflutningur verði ýkja mikill á þessu ári, þar sem ákveðið er, að enginn tollgreiðslufrestur skuli veittur kaupmönnum, en þeir hafa ekki ráð á að birgja sig upp með þessar vörur svo að neinu nemi, nema þeir fái tollgreiðslufrest, því að þær eru dýrar og tollur af þeim hár, og því myndu tiltölulega fáir kaupmenn geta snarað út því fé, sem til slíks þarf. Með þessu væri fengin trygging fyrir því, að innflutningur myndi verða nokkuð svipaður fyrsta árið og hin á undan, en 1922 var ekkert slíkt ákvæði sett í lögin til að tryggja þetta. — Þá var hv. þm. að tala um þá spillingu og þann beinahagnað, sem myndi fylgja þessu, og ég verð að segja, að mér finnst það fara vel í munni hv. þm. að tala um slíkt, því að hann má vel af því vita. Það er að vísu satt, að ég hefi fundið að ýmsum starfsveitingum við núv. stj., og ég geri ráð fyrir, að margt athugavert mætti hjá henni finna, en ég geri þó ráð fyrir, að þeir einir myndu valdir til þessa starfa, sem væru þekktir að trúmennsku og samvizkusemi, og þótt við berum ekki mikið traust til stjórnarinnar, hygg ég þó, að hún verði fær um að skipa í þessar stöður, ef hún vandar sig.