17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Jónsson:

Hæstv. forsrh. fannst það mjög lítilfjörlegt, þótt hann yrði dæmdur fyrir meiðyrði í opinberri skýrslu. (TrÞ: Ég nefndi þetta ekki). Þetta er heldur eftirtektarvert frá hæstv. ráðh. Það minnir mann á það, þegar flokkur hæstv. stj. sendi þrjá af sínum miklu mönnum til að standa fyrir sínu máli á fundi í kauptúni einu. Allir þessir miklu menn stóðu þarna í röð, og allir nýdæmdir fyrir svívirðingar um aðra. Nú verður hæstv. forsrh. sennilega að bíta í það súra epli með þessum flokksmönnum sínum. Það var hlegið að því, að maður skrifaði eitt sinn þannig grein um annan í alfræðibók, að hægt var að stefna honum fyrir meiðyrði. En hvað er það þó hjá því að birta á kostnað landsmanna meiðyrði um þá sjálfa, sem hægt er að dæma stjórnina fyrir. Annars kennir margra grasa í bók þessari, og fyrir utan það glæpsamlega er margt hlægilegt. Skýrt er frá því, að þennan og þennan dag fór Jónas Jónsson suður í Hafnarfjörð. Þennan og þennan dag fór Jónas Jónsson austur yfir fjall! Ójá, hann kemur nú stundum austur yfir fjall! Hann kvað meira að segja hafa haldið sig þar að jafnaði undanfarið, eins og hann ætti þar heima.

Eins og hv. þm. G.-K. sagði, eru í þessari bók sumpart skýrslur, en inn í þær er sett allra handa gróm, sumu er ekki hægt annað en hlæja að, en sumt er svo stórhneykslanlegt, að ef Afturhaldsflokkurinn væri ekki búinn að venja menn á þennan ósóma í fjögur ár, þá yrðu menn gersamlega undrandi að sjá slíkt plagg. Það er þá eins og hvað hægt er að venja menn við vonda lykt.

Annars vildi ég aðeins svara hæstv. forsrh. viðvíkjandi því, sem hann þóttist finna veilt í minni ræðu. Fyrst er það, að ef hann gefur skýrslu nú, þá gæti hann leiðrétt eitthvað fyrri skýrslur, sem hinsvegar er ómögulegt að fá neinn af hans flokksmönnum til að leiðrétta. Ég sagði, að það væri sumpart ástæða til að leiðrétta vegna þess, að það hefir komið í ljós alltaf, að það er ekki hægt svo snemma á árinu að gefa fullkomna skýrslu fyrir árið á undan. Nú í júlí væri hægt að gefa þessa skýrslu rétta. En þar fyrir utan voru í þessari ræðu þeir hlutir, sem ekki er hægt að fá framsóknarmenn til að leiðrétta. Til dæmis það, hvernig voru gefin upp gjöld ársins.

Þá þótti hæstv. ráðh. gaman að fá þá yfirlýsingu frá mér, að hans flokkur sé stéttarflokkur bænda. „Litlu verður Vöggur feginn“, verð ég að segja, því að ég veit ekki betur en ég hafi alltaf haldið þessu fram, enda tala þar verkin. Hitt er annað mál, að það leikur grunur á — og hann er í fullu gildi enn — að margir af þessum mönnum, sem þannig eru að smeygja sér inn á bændur, hafi verið og séu sócíialistar.

Ég veit ekki betur en að þarna sitji nýkosinn 2. þm. Rang. og að hann hafi komið kommúnisti til landsins og orðið síðan snögglega sócialdemokrat, og nú er hann framsóknarmaður.

Þarna situr hv. 1. þm. Skagf. Fyrir nokkrum árum var ég á fundi með honum í Borgarnesi, og var hann þá rammaukinn sócialisti. Nú er hann framsóknarmaður. Ekki má gleyma hv. þm. Barð., sem vitanlegt er, að var yfirlýstur sócialisti. Nú er hann framsóknarmaður. Maður veit, að um marga fleiri er þetta svipað, svo að það er engin furða, þó að nokkur grunur liggi hér á. Hefir hæstv. forsrh. heyrt nefndan úlf í sauðargæru? Afturhaldsflokkurinn smeygir sér inn á bændur. En þeir sem þar eru, þó þeir séu í sauðargæru, geta verið allskonar kvikindi fyrir því. Kvikindi segi ég ekkert í slæmri merkingu.

Ég fer ekki út í gamanyrði hæstv. ráðh. um rafmagnið. Ég sagði bara, að það hefði farið svo einkennilega, þegar átti að útvarpa þingsetningunni, að þá biluðu vélarnar. En síðan vélarnar fóru að duga, þá hafa mennirnir hjálpað til að láta útvarpið misheppnast.

Ég ætla ekki eins og aðrir þm. hafa gert, að tala um fjárhaginn almennt, til þess er nógur tími. En það liggur hverjum manni í augum uppi, að þó að stj. og hennar flokksmönnum tækist að synda fram hjá óstjórninni í fjármálunum yfir síðustu kosningar, þá lukkast henni það ekki til fulls. Eftirtektarvert er til dæmis að sjá á skýrslu framan við reikninga Landsbankans, hvernig hagur hans breytist landinu til hins lakara 1930. Inneignir bankans lækkuðu um á 8. milljón, þrátt fyrir það, að á því ári voru tekin lán, sem námu umfram það, sem borgað var af lánum, á annan tug milljóna. Ég býst við, að hæstv. ráðh. segi, að stj. geti ekki að þessu gert. En hæstv. stj. á stórkostlegan þátt í því, sem langstærsti atvinnurekandi á undanförnum árum. Hún hefir átt sinn stóra þátt í að halda uppi þessum framkvæmdum, sem vitaskuld eru m. a. orsök þess, hvað hallinn er orðinn mikill. Búskaparlag hæstv. stj. hefir verið að eyða öllu í góðu árunum og hafa svo ekkert til þegar vondu árin koma. Um hinn gamla sannleika, að safna korni í góðu árunum til vondu áranna, hefir stj. ekkert hirt. Ekki eingöngu af illum vilja, heldur af því að hún er ekki fær um sitt starf. Þær röksemdir hafa heyrzt, að nú sé óhætt að framkvæma lítið, af því að svo mikið hafi verið gert undanfarið. En ef sæmilega hefði verið haldið á því geypilega fé, sem streymdi í ríkissjóð á þessu kjörtímabili, þá væri hægt að halda áfram stórkostlegum framkvæmdum nú. Einnig má líta á það, sem hver myndi líta á fyrir sjálfan sig, að nú mætti framkvæma margt fyrir langtum minna verð en áður, og þó myndu þær framkvæmdir koma að meira gagni fyrir þjóðarheildina en áður. Það er vitanlega ekki heppilegasti mátinn að framkvæma mest, þegar samkeppnin er allra örðugust.