19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Magnús Jónsson:

Um meðferð þessa máls er brugðið frá venjum með því að taka það úr höndum n., áður en hún hefir getað lokið við að athuga málið og skila um það áliti. Þó hafði n. tekið málið fyrir og beinlínis komið sér saman um, hvenær hún ætlaði að ljúka áliti.

Ég get sagt, að það er meira fyrir síðasakir en af þörf til þess að ræða málið, að ég vil ógjarnan, að það fari gegnum þessa umr., án þess að segja fáein orð um það.

Þetta mál hefir oft verið fyrir þinginu og er mörgum orðið kunnugt. Það var fyrir fyrsta þinginu, sem ég sat á, og fyrsta ræðan, sem ég hélt hér á Alþ., mun einmitt hafa verið um tóbakseinkasölu, sem þá var verið í þann veginn að lögleiða. Meiri og minni umr. hafa orðið um málið á mörgum þingum, án þess að mikill árangur hafi orðið af því, þar til nú, að svo lítur út sem eigi að afgr. það, fyrst farið er að því með svo miklum ákafa.

Það væri ástæða til þess að fara dálítið út í alm. umr. um frv., en mér virtist hæstv. forseti vera nokkuð óþolinmóður við hv. þm. Vestm., af því að hann greip niður á öðrum málum til stuðnings ummælum sínum. En þess munu ýms dæmi, að vikið hafi verið átölulaust að fleiri málum en þeim, sem beint liggja fyrir. Einu sinni var t. d. einn hv. þm. að tala í Ed. í máli, og menn, sem komu inn í d., greindi mjög á, um hvað hann væri að tala. Sumir sögðu, að hann væri að tala um vegalögin, aðrir um kynbætur hrossa, þriðju sögðu, að hann væri áreiðanlega að tala um innflutningstoll af áfengi, hinir fjórðu, að það væri Menntaskólinn á Akureyri; en það var þá víst um útflutning á gráðaosti. Ég býst við, að það hafi verið fornar endurminningar frá Ed.veru hv. þm. Vestm., sem ollu því, hafi hann seilzt víða um eftir dæmum.

Annars væri hægt að taka upp almennar umr. um málið þegar út frá 1. mgr. 1. gr. frv., því að þar er svo að orði komizt, að enginn nema ríkisstj. megi flytja inn nokkra teg. af tóbaki. Sú gr. gefur því tilefni til þess að ræða almennt um það, hvort heppilegt sé að taka upp einkasölu eða ekki.

Það eru aðallega tvö atriði, sem ég vildi athuga í þessu sambandi. Hið fyrra er, hvort þessi einkasala verði til þess að auka í raun og veru tekjur ríkissjóðs. Umr. hafa með réttu mjög oft snúizt um þetta atr. Af fylgismönnum þessa máls hefir því óspart verið haldið fram, að það myndi auka tekjur ríkissjóðs, og að þeir, sem urðu til þess, að tóbakseinkasalan var afnumin 1926, hafi kastað hundruðum þúsunda úr ríkissjóði og hent því til kaupmanna. Aftur á móti höfum við, sem erum andstæðingar þessa máls, haldið hinu fram, og sýnt það í tölum, bæði í ræðum og á prenti, að þetta er alls ekki rétt.

Um þetta mátti náttúrlega deila, meðan ekki var full reynsla fengin um það. En það er óneitanlega dálítið hart, að eftir að komin er skýr reynsla fyrir þessu og hægt er að bera saman tekjur ríkissjóðs af tóbakstolli áður en einkasalan komst á, tekjur af tolli og verzlunarágóða meðan einkasalan starfaði, og tekjur af tollinum um mörg ár eftir að hún var afnumin, og sýna fram á, að tekjurnar í tíð einkasölunnar voru rýrari en bæði á undan og eftir, án þess að verð eða vörugæði hafi breytzt til hins verra, — þá skuli samt sem áður þurfa um þetta að deila.

Það er kannske af fyrirlitningu meiri hl. fyrir minni hl., að hann hefir ekki reynt að sýna fram á með nokkrum röksemdum, að tóbakseinkasalan verði til þess, að meiri tekjur fáist í ríkissjóð. Tölur þær, sem komið hafa fram áður, og sem hv. 1. landsk. lagði fram í nál. sínu í Ed., hefir eftir því sem ég bezt veit enginn maður reynt að hrekja. Þar er sýnt fram á, að á árunum 1919-'21 nam tollur af tóbaki að meðaltali 584 þús., og þó var eitt af þeim árum, árið 1921, ákaflega tekjurýrt í þeim efnum. Síðan kemur meðaltalið af einkasöluárunum, sem var 481 þús. kr., af tolli, sem sýnir, að mjög hafði kippt úr innflutningi á tóbaki á þessum árum. Aftur á móti varð tollur og verzlunarágóði samanlagt meiri á þessum árum en tollurinn einn hafði áður verið. Það stafaði þó ekki af því, að fyrirkomulagið væri heppilegra, heldur af aukning á þessum lið yfirleitt, eins og sést af því, að meðaltalið síðan einkasalan var afnumin hefir verið töluvert miklu hærra af tolli einum saman heldur en bæði af tolli og verzlunarágóða á einkasöluárunum. Það stafaði meðfram af því, að tollurinn var hækkaður nokkuð, þegar einkasalan var afnumin, og nú er ætlazt til, að hann haldist jafnhár, ef einkasalan verður tekin upp aftur. Í þessu sambandi má benda á, að hér er komin nokkurskonar svikamylla, þar sem tollurinn er hækkaður, þegar einkasalan er afnumin, til þess að vera viss um að ná tekjunum upp, en síðan er einkasala sett á aftur, án þess að færa tollinn í samt lag.

Með þessum röksemdum er því algerlega slegin niður sú ástæða, að hægt sé að ná nýjum tekjum í ríkissjóð með því að innleiða einkasölu. Enda er öllum augljóst, að ef ríkið vill fá meiri tekjur af tóbaki, þá er hægurinn hjá að hækka bara tollinn, ef menn þá álíta það óhætt, án þess að hvetja menn of mikið til óleyfilegrar sölu.

Þessar röksemdir mínar eiga við einkasölu og frjálsa verzlun að því er snertir tekjur í ríkissjóð almennt. En svo koma þær sérstöku ástæður, sem eiga við um næstu ár, ef tóbakseinkasala verður nú sett á. Það eru tvær ástæður, sem koma þar til og gera það að verkum, að ríkið afsalar sér til almennra afnota talsvert miklu fé. Fyrst er það, sem mjög er eðlilegt og skýrslur sýna, að innflutningur minnkar mikið fyrst eftir að einkasala er sett á. Það stafar bæði af því, að einn heildsali getur komizt af með minni birgðir en fleiri, og hinu, skeytingarleysinu, sem einkennir alltaf einkasölur, um að vera vel birgar af vörum þeim, sem menn gera kröfur til að fá. Það er önnur hlið hverrar einkasölu, að hún getur sagt eins og kerlingin: „Það skal í hann“. Hún þarf ekki að hafa fjölbreyttar vörur, hún getur skapað og skammtað eins og hún vill. Hún veit, að þörf manna og krafa til þess að fá þessar vörur er svo mikil, að þær ganga út, þótt ekki séu þær nákvæmlega eins og menn helzt óska, svo framarlega sem menn vilja ekki fara óleyfilegar leiðir til þess að ná í þær.

Af þessu leiðir, að innflutningur hlýtur óhjákvæmilega að minnka mjög mikið fyrst eftir stofnun einkasölunnar, og þar af leiðandi rýrna tekjur ríkissjóðs af þessum tekjustofni a. m. k. á árinu 1932, og sjálfsagt áframhaldandi, eins og reynslan sýndi á fyrri einkasöluárunum.

Svo koma ákvæði 14. gr., sem ég vildi einnig minnast á, um að helmingurinn af tekjum einkasölunnar skuli renna til ákveðinnar notkunar, sem náttúrlega gerir það að verkum, að hinn helmingurinn verður aldrei annað en lítill partur af því, sem ríkið mundi hafa til almennrar ráðstöfunar með því aðeins að halda tollinum óbreyttum. En þessi grein er mjög óskýr, og ég býst við, að ef á að samþ. frv., þá muni þurfa að gera ákvæði hennar skýrari. Ég get fyrir mitt leyti alls ekki komizt að því með vissu, við hvað er átt með henni. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa þessa grein upp:

„Tekjum ríkissjóðs samkv. lögum þessum skal verja þannig:

„Helmingur teknanna skal renna til byggingarsjóða samkv. l. nr. 45 1929, um verkamannabústaði, og skiptist sá helmingur milli byggingarsjóðanna að tiltölu við ríkissjóðstillagið til þeirra. Hinn helmingurinn rennur til byggingar- og landnámssjóðs samkv. l. nr. 35 1928“.

Þegar ég las þessa grein fyrst, leit ég svo á, að með þessu væri aðeins átt við það, að þessum tekjum skyldi sérstaklega varið til þess að uppfylla þau skilyrði þessara tvennu laga, sem gerð eru um fjárframlög úr ríkissjóði, þótt annars sýnist vera tiltölulega tilgangslaust að taka frá ákveðna tekjustofna og segja, að þeir skuli renna til þessa eða hins. En við nánari athugun kemur í ljós, að tekjurnar eiga að renna til þessara stofnana auk þess, sem veitt er til þeirra samkv. öðrum lögum, því það væri óeðlilegt orðalag að segja, að helming teknanna skyldi varið til stofnunar, sem lögum samkv. á að fá ákveðna upphæð úr ríkissjóði á ári, þar sem helmingur teknanna getur verið mismunandi há upphæð frá ári til árs. Það er tekið fram um annan liðinn, að sá helmingur skuli skiptast milli byggingarsjóða verkamannabústaðanna að tiltölu við ríkissjóðstillagið til þeirra. Þetta þyrfti ekki að taka fram, ef þetta væri ekki styrkur til byggingarsjóðanna fram yfir það, sem þeim ber lögum samkv. Það er því dálítið einkennilegt orðalag, þegar segir í 14. gr. frv., að þessar tekjur skuli renna til byggingarsjóða „samkv. 1. nr. 45 1929 um verkamannabústaði“ og „til byggingar- og landnámssjóðs samkv. l. nr. 35 1928“ því í hvorugum þessara laga er gert ráð fyrir þessum tekjum.

Ég vil skjóta þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvað hann hyggst fyrir þegar ég hefi lokið máli mínu, því að deildin er nú ekki ályktunarfær. (Forseti: Ég mun segja til þess þegar hv. þm. hefir lokið máli sínu. — Forseti hringir). Ég var ekki að biðja hæstv. forseta að hringja. Þessir hv. þm., sem nú eru fjarverandi, eru það sjálfsagt vegna æðri skipunar. Þeir eru líka sumir hverjir að búa sig til heimferðar og þurfa því að kaupa í nestið og eitthvað handa krökkunum. Ég vil því alls ekki vera að gera þeim það ónæði, að hæstv. forseti hringi þá þá.

Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál úr þessu. Mun skeika að því, sem ákveðið er á hæstu stöðum um það, og þýðir ekki í móti að mæla. Veldur því hið fasta taumhald hinna fornu bandalagsmanna, stjórnarflokksins og jafnaðarmanna. Þó er það enn eitt atriði, sem ég ætlaði að minnast á hér í þessu sambandi.

Í hv. Ed. var felld till. þess efnis, að þeir, sem störfuðu við þessa verzlun, mættu ekki taka ómakslaun af firmum þeim, sem skipta við einkasöluna. Hv. 3. þm. Reykv., sem nú er ekki viðstaddur, afsakaði sig á alla lund um hina fyrri einkasölu og sagði, að þar hefðu engin ómakslaun verið tekin. Þessu til sönnunar sagði hann, að hann og Magnús heitinn Kristjánsson hefðu ekki viljað verzla við þau firmu, sem höfðu umboðsmenn hér á landi til þess að umboðslaunin skyldu öll lenda hjá einkasölunni. Ég ætla ekki að bera þær sakir á þá, er störfuðu við hina fyrri einkasölu, að þeir hafi tekið nein óleyfileg umboðslaun, enda hefði það verið glæpsamlegt af mönnum í þeirra stöðum, en það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, er engin sönnun í þessu efni. Menn þekkja söguna um strákinn, sem fékk mömmu sína til þess að banna systkinum sínum að drepa flugur, til þess að hann gæti gert það sjálfur. Eins má henda á það, að ekki er ómögulegt nema forstjórar slíkra fyrirtækja vildu beina viðskiptum sínum til þeirra firmna, sem þeir eru sjálfir umboðsmenn fyrir. Án þess að ég vilji beina neinum slíkum aðdróttunum til þeirra, sem mælt hafa hér með þessu gamla einokunarfyrirkomulagi, vil ég aðeins benda á, hvílík hætta liggur í þessu einokunarbrölti, og hver freisting er lögð fyrir þá, sem hafa góða aðstöðu við einkasölufyrirtæki. Það er næstum ótakmarkað vald, sem þeir hafa til þess að afla sér peninga. Þeir geta sagt við hvert firma, að þeir verzli ekki við það, nema þeir fái slík ómakslaun. En ég vil ekki, að einokunin leggi slíka freistingu fyrir þá. Og það, sem verst er, er það, að ef beitt er óleyfilegri aðferð til þess að afla sér fjár á þennan hátt, kemst það ekki upp við neina endurskoðun. Það er ekki eins og þegar um kostnaðarsaman rekstur er að ræða, t. d. þegar forstjóri kaupir sér bíl, það er undir gagnrýni endurskoðenda. En þessi óleyfilegu umboðslaun koma hvergi fram, nema eitthvert sérstakt atvik leiði það í ljós. Þetta er það, sem ég álít varhugaverðast við slíka einkasölu, og mér finnst það glannaleg og einkennileg aðferð hjá þeim, sem berjast fyrir því, að slíkt fyrirkomulag komist á, að þeir skuli fella það, að slík misbeiting valds varði við lög. En þetta er ekki nema einn gallinn á þessu fyrirtækjabrölti hins opinbera. Annar gallinn er sá, að með þessu öðlast ríkið ráð yfir ýmsum föstum bitum, en þau völd geta orðið viðsjárverð í höndum sumra manna.

Ég skal ekki fjölyrða meir um þetta, en aðeins geta þess, að mér finnst það koma nokkuð einkennilega heim hvað við annað að vilja nú taka þessar tekjur frá þörfum ríkissjóðs og ráðstafa þeim til sérstakra hluta, en á sama tíma ber stjórnarflokkurinn sér á brjóst og kvartar undan því, hve erfitt það sé að fá ríkistekjurnar til þess að mæta þörfum komandi ára.