22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (1522)

388. mál, ráðstafanir gegn dýrtíð og atvinnuleysi

Héðinn Valdimarsson:

Við jafnaðarmenn álítum þessa þáltill. þarflausa. Fyrst og fremst bar ríkisstj. sjálfsögð skylda til þess að sjá dýrtíðina í landinu fyrr en núna og gera ráðstafanir til þess að bæta úr henni. Auk þess er dýrtíðin núna minnkandi, en ekki vaxandi. Framsóknarmenn tala um yfirvofandi atvinnuleysi, eins og það sé ekkert atvinnuleysi í landinu nú. Allan síðastl. vetur og í vor og í sumar hefir verið atvinnuleysi í öllum kauptúnum landsins. Það er heldur ekki nýtt, að stj. beri skylda til þess að ráða bót á atvinnuleysinu. Hvaða hlutverki ætti ríkisstjórninni að vera skyldara að gegna en því að halda uppi atvinnu landsmanna? Á síðasta þingi komum við jafnaðarmenn fram með ýmsar till. út af þessu, en þá var þingið rofið án þess að ríkisstj. virtist kæra sig um afleiðingarnar af því þannig að fresta ákvörðun um þessi stórmál. Á þessu þingi bar stjórninni skylda til þess að koma fram með till. um að bæta úr atvinnuleysinu og minnka dýrtíðina. En það, sem frá henni hefir komið, er sama sem ekkert. Frá Alþýðuflokksmönnum hafa komið ýms frv. í þessa átt, en þau hafa öll verið svæfð í n., án þess að koma til 2. umr.

Það er engin ástæða til þess að hafa þingið svo stutt, að ekki sé hægt að lúka þessum málum. Stj. og flokkur hennar lítur svo á, að þetta þing hljóti að standa yfir í stuttan tíma og ganga frá hálfunnum störfum. Framsókn hefir, eins og ég sagði áðan, sama sem ekkert gert í atvinnuleysismálinu, og þó haft næg tækifæri og völdin. Mér finnst þessi till. því ekki vera neitt annað en Pílatusarþvottur hjá Framsókn og nýliðum hennar, sem hræddir eru við kjósendur í landinu og sjálfs sín samvizku, en víst að engin alvara liggi á bak við.