21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Héðinn Valdimarsson:

Hv. þm. Vestm. og hv. þm. N.-Ísf. hafa verið að senda mér og flokki mínum hnútur fyrir að við værum að ganga í bandalag við Framsókn. Mér finnst því ekki ótilhlýðilegt að rifja upp, hvernig Íhaldið hefir hagað sér á þessu þingi.

Fjvn. beggja deilda hafa skilað einróma áliti um fjárlögin 1932, þrátt fyrir loforð þm. Íhaldsflokksins um að fella fjárlögin. Íhaldsflokkurinn fékkst ekki til að fella verðtollinn, af ótta við að það gengi yfir pyngju manna sinna. Þetta er að vísu ekki óeðlilegt, þegar þess er gætt, að þeir eiga einn ráðherrann eftir samkomulagi milli þessara flokka. (JJós: Hver er það?). Það er hv. þm. V.-Ísf., núv. fjmrh.

Það, sem þeir belgja sig yfir nú, er, að við Alþýðuflokksmenn ætlum að hleypa fjáraukalagafrv. 1929 í gegn, eftir að þeir eru búnir að samþ. fjáraukalög fyrir 1930, þar sem um er að ræða margfallt stærri upphæðir. Hitt er vitað, að þeir ætluðu að nota aðstöðu sína til verzlunar, ef form. Alþýðuflokksins hefði greitt atkv. á móti frv., en ég sé ekki, að alþýðu þessa lands sé gert neitt gagn með slíku. Þótt það sé vitað, að meðal þessara hv. þm. séu ýmsir hneigðir til kaupskapar, þá er hitt eins víst, að við Alþýðuflokksmenn gerum ekki leik að því að útvega þeim aðstöðu til slíks.