21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Bergur Jónsson:

Mig furðar ekkert á því, að hv. þm. Vestm. þurfti að fara í smiðju til hv. þm. G.-K. og notaði gamla útúrsnúninga frá honum til þess að svara mér. Sá hv. þm. sagði á þingsetningardaginn, að ég hefði sagt í minni fyrstu þingræðu, að ég hefði ekki „beitt fölsun við kosningar, af því að ég hefði ekki þurft á því að halda“. Sannleikurinn er sá, að ég tók um leið fram, að til þess hefði ég heldur enga löngun haft. (ÓTh: Ég hefi ekkert lagt til þessara mál). Nei, ekki núna, en það voru útúrsnúningar hv. þm. frá þingsetningardeginum, sem flokksbróðir hans var nú að slá um sig með.

Hv. þm. talaði um freistingu í þessu sambandi, en ég geri ráð fyrir, að um slíkt verði ekki frekar að ræða við tóbakseinkasöluna en t. d. vínverzlun ríkisins og aðrar stofnanir, sem líkt stendur á um, því að gera má ráð fyrir, að hin erlendu verzlunarhús bjóði umboðslaun, hvaða vara sem í hlut á, hvort sem það er tóbak, vín, byggingarefni eða annað. Ég vildi aðeins benda á, hversu óviturleg lagasetningaraðferð það væri að setja lög þannig um einstakar stofnanir, í stað þess að setja almenn ákvæði, sem af sjálfu sér næðu þá til allra hlutaðeigenda.