31.07.1931
Efri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

62. mál, útsvör

Jakob Möller:

Þetta frv. er komið frá Nd. og var flutt á þinginu í vetur fyrir tilmæli bæjarstj. í Rvík. Frv. fer í þá átt að heimila fleiri gjalddaga en útsvarslögin gera ráð fyrir. Það hefir áreiðanlega gert innheimtu útsvara erfiðari, og borgunin gengið verr vegna þess að gjalddagar hafa ekki verið fleiri en verið hefir. Annars geri ég ráð fyrir, að allir séu sammála um það, að sveitarstjórnir megi ráða slíku.

Í 2. gr. er farið fram á, að dráttarvextir hækki úr ½% upp í 1%. Ég býst við, að það sé öðru máli að gegna um þetta. En það var fyrir 1924, að dráttarvextir voru 1%, en voru síðar lækkaðir niður í ½%. En bæjarstj. hefir viljað hafa dráttarvexti hærri, aðallega til þess að reka á eftir innheimtum. Mér finnst eiginlega ekki þörf á því, að málið fari til nefndar. En ef hv. þdm. vilja það heldur, þá hefi ég ekkert á móti því.