08.08.1931
Efri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

62. mál, útsvör

Jón Þorláksson:

Ég hefi leyft mér að bera hér fram brtt., sem fer í þá átt að minnka ofurlítið þá refsivexti, sem frv. gerir mönnum að skyldu að greiða, ef þeir greiða útsvör sín of seint.

Það er svo nú, að ákveðið er, að þessir menn skuli greiða ½% vöxtu á mánuði hverjum, sem greiðslan dregst fram yfir tvo mánuði, en í frv. því, sem fyrir liggur, er ætlunin að hækka þetta upp í 1% á mánuði. Þetta finnst mér ranglátt gagnvart þeim mörgu mönnum, sem erfitt eiga með að greiða útsvör sín í tæka tíð, og því kem ég fram með þá miðlunartill., að þeir skuli aðeins greiða ½% í vexti, ef þeir greiða útsvar sitt innan tveggja mánaða, en þar eftir skuli vextirnir hækka upp í 1% á mán.

Þegar þess er gætt, að sveitarfélög hafa lögtaksrétt á útsvörum og fá frjálsar hendur um að ákveða gjalddagann, þá held ég, að réttur þeirra sé svo vel tryggður, að ekki sé ástæða til að krefjast meira.