06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Guðmundsson:

Hv. frsm. fjvn. talaði talsvert um það, að ég hefði verið að gylla fjárhag ríkisins í ræðu minni við þessa umr. fjárlagafrv. og sagði, að ég hefði sýnilega ætlað að blekkja hv. d. Vil ég því endurtaka aðalatriðin í því, sem ég sagði þá. Ég tók það fram, að stj. hefði orðið að taka bráðabirgðalán til daglegra útgjalda, og því hlyti sjóðurinn að vera þurausinn. Er þetta að gylla fjárhaginn? Frsm. sagði ennfremur, að ég hefði hvatt til óvarkárni. Ég sagði, að ef áætlun hv. n. um tekjurnar 1932 stæðist, þá færu tekjur þessa árs mikið fram úr áætlun. Þetta getur hv. framsögumaður ekki hrakið. Það er auðvitað hægt að nota fé á yfirstandandi ári, svo að ekkert verði afgangs, ef ekki er farið eftir fjárl., eins og verið hefir á síðari árum. Vil ég spyrja, hve mikið fé hefir verið lagt í Reykjahælið austanfjalls á yfirstandandi ári. Man ég ekki eftir neinum ákvæðum í fjárl., er gert hafi ráð fyrir því. — Þegar ég bar saman tekjuáætlanirnar fyrir 1931 og 1932, vakti það fyrir mér, að fjvn. myndi hafa farið nokkuð harkalega í áætlun á tekjum á árinu 1932. Samt segir hv. frsm., að ég sé að hvetja til óvarkárni. Segir hann, að eðlilegt sé, að tekjuáætlunin sé svona há, því að gjaldaliðir séu að tiltölu áætlaðir eins háir. Er ég þó viss um það, að t. d. gjöld til heilbrigðismála eru of lágt áætluð. Munu þau ekki verða lægri á árinu 1932 en 1929. Sama máli gegnir um áætluð gjöld samkv., 14. gr., að þau eru áætluð lægri 1932 en þau reyndust 1929. Hvar hefir hv. frsm. bréf fyrir því, að svo muni reynast?

Frsm. minntist á till. hv. fjvn. um það að hækka áætlunina um óviss útgjöld um 50 þús. kr., úr 100 þús. kr. upp í 150 þús. kr. Sú hækkun held ég, að sé of lítil, því að ef till. um endurgreiðslu á tolli af kryddi í síld nær samþ., þá nemur það eitt meiru en 50 þús. kr., enda eru óviss útgjöld verulega hærri en 150 þús. kr.

Svo er það atriði, sem hv. frsm. benti á, að ekki eru áætluð útgjöld samkv. 25. gr. Þau útgjöld hafa venjulega verið um 1 millj. kr., en 1929 námu þau 1,7 millj. Er því alls ekki hægt að segja, að áætlað sé fyrir öllum útgjöldum. Það var einmitt svo áður, að tekjur voru áætlaðar lágt, til þess að þurfa ekki að áætla gjöld samkv. 25. gr., en vitanlega á að áætla hvorttveggja eins og ætlað er, að reynast muni.

Hv. frsm. sagði, að fjvn. sæi sér ekki fært að veita styrk þann til bryggjugerðar á Sauðárkróki, sem við þm. Skagf. fluttum till. um. Er leitt til þess að vita, því að ef þessi styrkur fengist, 10 þús. kr., myndi hreppurinn, sem hlut á að máli, láta byrja á verkinu í haust, þegar kreppir að um atvinnuleysi. Hefi ég fengið skeyti frá Sauðárkróki, þar sem sagt er, að atvinnuleysi sé mjög tilfinnanlegt, og erum við, þm. sýslunnar, beðnir að ráða þar bót á, eftir því sem við getum. Hreppsfélagið á að leggja hér fram fé á móti, eins og kunnugt er. Væri það öllum gott, að verkið gæti byrjað þegar í haust. Væru þar því slegnar tvær flugur í einu höggi: Fyrirtæki stutt, sem áreiðanlega yrði að veita fé til bráðlega hvort sem er, og útveguð atvinna. Hefir mikið verið rætt hér um atvinnubætur, og finnst mér þinginu vera skylt að framkvæma þær nú þarna, þar sem svona stendur á.

Hv. frsm. virtist ekkert hafa á móti eftirlaunaviðbót þeirri, sem ég fór fram á handa séra Ólafi Stephensen, en vildi þó láta það mál bíða, þangað til stj. væri búin að reikna út, hversu mikil eftirlaun þessa manns eigi að vera. En þar er því til að svara, að það myndi vera eins árs bið fyrir þenna fátæka prest. Og þar sem það er lögákveðið, hversu há eftirlaunin eru, ætti ekki að vera erfitt að reikna þau út. Er ekki hægt að halda því fram, að manninum beri að verða af viðbótinni, af því að stj. er ekki búin að reikna út eftirlaunin.

Þá vil ég minnast örlítið á eftirlaun til Ögmundar Sigurðssonar, þó að mér komi það má1 ef til vill ekki við. Verð ég að segja, að það væri óréttlæti gagnvart þessum manni, sem jafnan hefir verið lágt launaður, er efnalaus, heilsutæpur og að verða blindur, ef honum væri ekki veitt viðbót þessi, sem ríkissjóð munar ekkert um. Mun hann að líkindum ekki lengi þurfa á henni að halda.

Þá vil ég minnast nokkrum orðum á tillögu þá, sem ég flutti ásamt hv. þm. V.-Sk. og hv. þm. A.-Sk. um skaðabætur til Vigfúsar Gunnarssonar að Flögu vegna bruna af eldingu. Hæstv. forsrh. sagði, að hætt væri við því, að fordæmi myndaðist, ef greiddar væru þessar skaðabætur. En ekki held ég, að þaðan myndi stafa mikil hætta, því að ég veit ekki um dæmi þessu lík síðustu 30 árin. Eldingunni sló niður í símaleiðslu og leiddist með þræðinum inn í hús. Virðist mér stappa mjög nærri því, að ríkisstj. sé beinlínis skaðabótaskyld, þar sem hún lét leggja símann þarna inn.

Viðvíkjandi húsi sýslumannsins í Borgarnesi sagði hv. frsm.. að ekki væri hægt að skylda ríkið til að kaupa hús, byggt að geðþótta einstaklings, og svo stórt, að hann hefði ekki þörf fyrir það allt. Hv. frsm. var víst ekki viðstaddur, þegar ég skýrði frá því, hvernig í málinu lægi. Sýslumaður byggði bæði yfir embættið og póstafgreiðsluna, en síðan var póstafgreiðslan tekin af honum, og þess vegna er honum nú um megn að greiða bæði vexti og afborganir.

Þá er brtt. á þskj. 207, frá hæstv. stj., um það að heimila henni að draga af öllum fjárveitingum fjárl., sem ekki eru lögum eða samningum bundnar, allt að 25%. Myndi slíkt, ef framkvæmt væri, ekki aðeins koma niður á verklegum framkvæmdum, heldur líka öllum styrkjum. Því er óneitanlega skoplegt, þegar sú stj., sem á undanförnum árum hefir notað 100% umfram það, sem fjárlög heimiluðu, er nú að koma til þingsins með beiðni um það að fá að draga úr nokkur hundruð þúsund, ef í nauðir skyldi reka. Býst ég þá líka við, að það myndi koma niður á styrkveitingum til Fiskifélagsins og Búnaðarfélags Íslands, því að sá styrkur er, að því er ég held, ekki byggður á lögum né samningum. En aðalatriðið er þetta, að það er meiningarlaust, að þingið sé að samþ. fjárl., sem það er í vafa um, að geti staðizt, en slái svo varnagla á þennan hátt. Væri nær að láta þetta bíða þingsins í vetur. Er það meira en lítil ógætni að samþ. fjárl., en verða svo að heimila stj. að draga úr hluta of því fé, sem veitt er.

Hæstv. forsrh. talaði í gær um lóðakaup brekkunni norðan menntaskólans. Taldi hann sjálfsagt, að ríkið keypti þessar lóðir. Það má vera, að þetta séu hagkvæm kaup fyrir ríkissjóð, en mér sýnist að minnsta kosti, að þau geti beðið betri tíða. Vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hvaða hús ætlazt sé til, að reist verði þar sem Bernhöftsbakarí stendur nú. Það er hrörlegt hús, sem líklegt er, að rifið verði innan skamms. Að færa það sem ástæðu fyrir kaupunum, að erfðafjárskattur eins dánarbús nægi til útborgana í bili, er hlægileg röksemd.

Ég hjó eftir því, að hæstv. forsrh. sagði, að það gæti verið, að það væri óhætt að samþykkja slík fjárl. sem þessi, en það gæti líka verið, að það væri ekki óhætt. Mér finnst ráðherrann hefði átt að koma með þessa aðvörun fyrr til stjórnar sinnar og annara flokksmanna sinna, sem ráða allri afgreiðslu þessa máls á þingi.

Ég beindi þeirri spurningu til hæstv. ráðh., hvernig stæði á því, að þær verklegu framkvæmdir, sem stæðu í fjárl. þessa árs, væru ekki allar framkvæmdar, hvort það væri af fjárskorti eða öðru. Hann hefir engu svarað því. Ég fyrir mitt leyti held ekki, að ástæðan sé fjárskortur, heldur hitt, að stjórnin leyfir sér að taka fé, sem veitt er í ákveðnu skyni, til annara framkvæmda, sem hún ber meira fyrir brjósti. Vil ég átelja það athæfi að fara ekki að vilja þingsins í þessu efni, heldur nota féð á allt öðrum stöðum en það hafði ráð fyrir gert.