20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

27. mál, einkasala á síld

Vilmundur Jónsson:

Ég vil ítreka það, að mér þykir þetta frv. grunsamlegt, og ekki síður þó, þegar verið er að réttlæta það með því að halda því fram, að útgerðarmenn og sjómenn eigi meiri sameiginlegra hagsmuna að gæta en sjómenn og verkamenn. Er það algengt herbragð andstæðinganna, að reyna að kljúfa þessar stéttir hvora frá annari, til þess að geta sem örugglegast drottnað yfir báðum. Þetta er sjómönnum yfirleitt ljóst, a. m. k. öllum félagsbundnum sjómönnum, og fyrir það hika þessar stéttir ekki við að standa saman, jafnvel þó að svo kunni að líta út, sem hagsmunir þeirra rekist á og geri það að vísu í einstökum tilfellum. Þess er einnig að gæta í þessu sambandi, að sjómenn og verkamenn eru engan veginn nákvæmlega sundurgreindar stéttir. Menn stunda almenna landvinnu annað árið, en sjó hitt eða skipta jafnvel um vinnu á sjó og landi á hinu sama ári. Og á þetta ekki sízt við um síldveiðimenn. Um sjómannafélögin er það að segja, að á Akureyri er tiltölulega fámennt félag sjómanna, og annað enn fámennara á Siglufirði; annarsstaðar á Norðurlandi eru þau ekki: Nú nær engri átt, að ekki hafi aðrir sjómenn á Norðurlandi hagsmuna að gæta við síldareinkasöluna en þeir fáu menn, sem í þessum félögum eru. Á Ísafirði hefir til þessa verið fámennt og lítt starfandi sjómannafélag og er það eina sjómannafél. á Vesturlandi. Hinsvegar eru verkalýðsfélög starfandi að kalla í hverju þorpi á Vestur- og Norðurlandi, eins og yfirleitt annarsstaðar á landinu, og sjómenn í öllum þeim fél. ekki síður en aðrir verkamenn.

Viðvíkjandi því, að verkamenn ættu að eiga hlutdeild í stjórn annara atvinnuvega, þá er það rétt, En það mál liggur ekki fyrir Alþingi nú. Þegar rætt verður um það hér, hverjir skuli eiga hlutdeild í stjórn togaraútgerðarinnar, þá munu koma fram raddir um, að verkamenn fái þar einhverju ráðið og bíður hvað síns tíma.