20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

27. mál, einkasala á síld

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ef farið er að færa umr. út á víðara svið, þá má segja, að allir aðiljar hafi sameiginlegra hagsmuna að gæta, og er það gleðilegt, ef sú stefna er nú upp tekin af þeim, er skipta sér af landsmálum, að fremur skuli ráða hagsmunir almennings og allra stétta en að dreginn sé taumur einnar stéttar aðeins. Þætti mér eigi verr farið, þótt meiri víðsýni gætti hér á Alþingi en gerzt hefir í þessum efnum, og virtist mér nokkuð í þá átt koma fram í ræðu hv. þm. Ísaf.

Í þessu máli vil ég segja, að ef nokkurntíma er hægt að benda á, að útgerðarmenn og sjómenn hafi sameiginlegra hagsmuna að gæta, þá er það við síldarútveginn. Þar eru sjómenn ráðnir upp á hlut og fá þeir hlut sinn útborgaðan í peningum, eftir því sem síldin selst.

Í fyrra var unnið að söltun síldar undir handleiðslu og fyrir reikning síldareinkasölunnar sjálfrar. Var unnið að því á „rauða torginu“ svonefnda fyrir norðan, og er sagt, og vinnan hafi þar orðið nokkuð dýr, eða a. m. k. mun stjórn einkasölunnar hafa séð sitt óvænna að halda þessu uppi, því að nú hefir hún með auglýsingu gefið söltunina frjálsa, sem hún í fyrra vildi ein ráða yfir. Það má benda á mörg önnur dæmi þess, að vinnan hafi orðið mjög dýr, og það mun vegna þess, að goldið var allt of hátt kaup í landi. Hverjir hafa svo orðið að borga þetta kaup? Það eru eigendur síldarinnar. Það er margbúið að sýna fram á, að það eru útgerðarmenn og sjómenn. Því er augljóst, að þegar kaupkröfur verkafólksins ganga úr hófi fram, þá erorðið hagsmunastríð milli framleiðendanna á sjónum, þ. e. sjómannanna, og verkafólksins í landi. Þess eru hvergi gleggri dæmi en hér, að sjómenn eiga fremur samleið með þeim, sem skipin eiga.

Það er auðvitað deginum ljósara, að þegar til lengdar lætur, fara saman hagsmunir útgerðarmanna, sjómanna og verkamanna í landi. Því að hverjar eru horfurnar, ef atvinnufyrirtækin sligast? Við höfum séð þess mörg dæmi. Ég hefi haft fyrir augum síðustu mánuðina í Vestmannaeyjum eitt slíkt dæmi, að stórt atvinnufyrirtæki var, af sjálfsagt óviðráðanlegum ástæðum, stöðvað í rekstri. Þá hefir mörgum orðið ljóst, bæði þeim sem höfðu þar atvinnu og öðrum, að það var ekki almenningi hagur, að sá atvinnurekandi varð að stöðva rekstur sinn. Þess vegna má með sanni segja, þegar litið er á þetta með víðsýni, að hér fari allra hagsmunir saman. En þegar sérstaklega ræðir um, hvernig eigi að skipuleggja stjórn síldareinkasölunnar, með hliðsjón af því, sem þar hefir áður gerzt, þá eru þar varla heppilegir til forustu þeir menn, sem með ofurkappi halda fram kaupkröfum verkafólksins í landi, en skeyta engu um hitt, hvort rétt er eða sanngjarnt, eins og t. d. þegar tvær ferðir eru farnar á lystisnekkju einkasölunnar inn í Krossanes til þess að koma verkafólkinu til að spenna kröfurnar sem hæst og stöðva vinnuna, öllum til stórskaða.