20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

27. mál, einkasala á síld

Jóhann Jósefsson:

Ég býst varla við, að tími verði til, að þetta mál nái fram að ganga, þar sem er orðið svo áliðið þings. En ég verð að segja það, að okkur, sem í 3 skipti höfum flutt frv. um að breyta fyrirkomulaginu á stj. einkasölunnar, verður ekki kennt um það. Það er meiri hl. þingsins, sem ræður því, hver mál ná fram að ganga.

Ég get verið hv. þm. Ísaf. sammála um það, að það fyrirkomulag, sem nú er á stj. einkasölunnar, er óviðunandi, enda höfum við, sem að þessu frv. stöndum, verið fyrstir manna til þess að kveða upp úr um það. Ég veit ekki til þess, að það hafi verið aðrir en við sjálfstæðismenn, er hafa bent á, hvílík hætta vofir yfir síldveiðunum vegna einkasölunnar. En því miður höfum við alls engar undirtektir fengið fyrr en nú, að sjútvn. hefir fallizt á till. okkar um að gera breyt. á stj. einkasölunnar og byggir þar á till. okkar sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna.

Það er dálítið einkennilegt, að það hefir fallið í hlut okkar sjálfstæðismanna að draga fram margt af því, sem misfarið er í stj. einkasölunnar. Það eru þó fleiri en við, sem eigum þar hagsmuna að gæta. Það eru sjálfsagt allir flokkar þingsins, sem hafa hag eða halla af þessum rekstri, eftir því, hvernig hann gengur.

Hv. þm. Ísaf. sagðist ekki geta tekið undir það, sem ég sagði hér í gær um síldareinkasöluna. Hann taldi, að hún hefði orðið Ísfirðingum til hagsbóta. Ef svo er, er gott til þess að vita, og eru það þá einustu sjómenn landsins, sem hafa haft hag af einkasölunni, hv. kjósendur hv. þm. Ísaf. Ég ber ekki brigður á það, að hv. þm. fari með rétt mál viðvíkjandi högum kjósenda sinna. En ég get ekki sagt hið sama fyrir mína kjósendur. Ég hygg, að hv. þm. myndi hvergi á landinu finna hóp af sjómönnum sem finnst þeir hafa grætt á síldareinkasölunni. Um ráðningakjör mun líkt háttað og ég sagði í gær, og var það byggt á umsögnum skilgóðra manna og tekið meðaltal afla. Það getur verið, að Ísfirðingar fái betri kjör, en þó ætti það að vera svipað. Hann sagði, að þeir myndu hafa 500–600 kr. og fæði. Það er það hæsta, sem ég hefi heyrt nefnt, að menn geri sér vonir um með normalveiði og því verði, sem áætlað er. Það er ekki búið að borga nema 3 kr. út á tunnu af þeirri síld, sem veiddist í júlí og ekkert út á það, sem veiddist í ágúst. Og það er ekki von til, að því sé hraðað, þegar þess er gætt, að það er ekki lokið greiðslu frá síðastl. ári, og er það einn vottur þess, hve þunglamalegt það er, þetta einkasölufyrirkomulag. Þegar þessi vertíð er á enda, þá er ekki allt greitt frá í fyrra.

Ég held, að þeir, sem gleggst þekkja til, geti tæplega verið samdóma hv. þm. Ísaf. um, að einkasalan sé til bóta. Ég hefi áður haft tækifæri til þess að benda á stærstu ágallana á einkasölunni, og hafa aðdáendur hennar reynt að hrekja það, er ég hefi haldið fram, en flest hefir reynzt rétt með farið. Það var lengi reynt að hrekja það, að ekki hefði verið nóg til af tunnum í fyrra, svo að hnekkir hefði orðið að, og stóð flokksblað hv. þm. Ísaf. framarlega í því. Nú er það alveg óumdeilanlega sannanlegt, að svo var.

Það er alveg óþarfi að minnast á skakkaföll undanfarinna ára, svo sem tunnuskortinn og matið á síldinni. Ég henti áður á það, að ef aðalumboðsmaður vildi ekki flokka síldina eftir geðþótta síldareinkasölustj., þá var undirmaðurinn tekinn. Þá benti ég á, að ferðakostnaður fór á 3 árum upp í 100 þús. kr. Þá er markaðsleitarsjóðurinn uppétinn og í stórskuld að auki.

Þetta er nú næstum fallið í gleymsku vegna nýrra skakkafalla, er síðan hafa komið og koma svo að segja daglega.

Síðastl. ár voru 10–15 þús. tn. óseldar í lok vertíðar, og átti síldareinkasalan kost á að selja þær fyrir sæmilegt verð, þegar leið á vetur, en hafði ekki vit á að taka því tilboði. Hún varð gripin sama breyskleikanum og útgerðarmennirnir áður — að spekúlera og varð að síðustu að sæta lakara verði.

Í sumar hefir skortur á verkunarefnum oft gert vart við sig. Það hefir vantað salt við þetta fyrirtæki, sem byggir alla sína verkun á salti. Hve mikill skaði hefir af því orðið, veit ég ekki, en það liggur í augum uppi, hversu bagalegt er, þegar salt vantar við verkunina.

Þetta eru nú skakkaföll og mistök. En svo hafa menn verið beittir misrétti í stórum stíl af stj. einkasölunnar. Ég hefi bent á það, hvernig hún hlóð undir suma gæðinga sína með því að láta þá hafa tunnur framar öðrum. Svo er það ennfremur, að það hafa ekki allir orðið að bíða eftir inneign sinni, þó sjómennirnir megi bíða enn. Einkasalan hefir haft sína gæðinga hvað það snertir eins og annað. Það hefir komið á daginn. Allur almenningur hefir orðið að bíða, en sumum hefir hún greitt að fullu. Ingvari Guðjónssyni útgerðarmanni á Akureyri hefir hún greitt á undan öðrum með því að samþ. ávísanir, sem hann hefir gefið út og ábyrgzt, að þær skuli greiddar ákveðinn dag. Sama hefir hún gert við einn útgerðarmann í Hafnarfirði. Hún samþ. fyrir Ingvar Guðjónsson ávísanir að upphæð 33 þús. kr., löngu áður en aðrir fengu greitt. Hún hefir hagað sér þannig, að hún hefir tekið af sameiginlegum sjóði allra viðskiptamanna sinna og borgað einstökum vildarmönnum á undan öðrum. Fyrir þessu hefir staðið sá maður, sem nú er farinn úr stjórninni, Einar Olgeirsson, en sem talinn var af flokkum þeim, sem knúðu einkasöluna fram, sjálfsagður sem yfirmaður við fyrirtækið. Sá maður stóð með fulltrúa Alþýðuflokksins á Akureyri fyrir verkfalli í Krossanesi í fyrra, og skaðinn, sem útgerðarmenn og sjómenn höfðu af því, er lágt metinn á 180 þús. kr. Þessi maður telur sig berjast fyrir jafnaðar- eða kommúnistastefnunni. Svona notaði hann aðstöðu sína við einkasöluna.

Þessi stofnun hefir orðið til hagsbóta fyrir Ísfirðinga, segir þm. þeirra, og mætti þá ætla, að flest gæti orðið Ísfirðingum til hagsbóta, ef það er satt.

Ég hefi drepið á þetta misrétti, sem ég býst við, að allir þdm. sjái, að er illt fordæmi, að borga sumum að fullu, en láta aðra bíða. En benda má og á það, er gerzt hefir í ár hjá einkasölunni, þótt ætla mætti, að hún væri farin að sjá að sér. Hvernig hefir hún nú hagað sér með tunnukaupin núna?

Norðmenn hafa sent hingað á ári hverju stóran skipaflota til að veiða síld og keppa svo við Íslendinga á markaðinum. Sama er að segja um Svía, Dani og Finna. Hættan af samkeppni þeirra er svo mikil, að það má sjá það fyrir, að innan skamms verði Íslendingar útilokaðir af síldarmarkaðinum vegna þessarar samkeppni. Ef einhver ráð væru til að stemma stigu fyrir þessu, þá væri síldareinkasölunni skyldast að standa fyrir því.

En hvað gerir hún í þeim efnum? Ég heyri sagt, að aðdragandi þess, að Finnar fóru að veiða hérna, hafi verið sá, að síldareinkasalan gerði svoleiðis samning við Svía einn, að einkasalan seldi ekkert til Finnlands, ef hann keypti. Afleiðingin varð sú, að Finnar sögðu, að ef Íslendingar vildu ekki selja þeim síld öðruvísi en í gegnum Svía, þá veiddu þeir sjálfir, og svo fiska nú hér við land 20 finnsk skip.

Annars er talið, að á þessu tímabili, sem nú stendur yfir, hafi útlendingar fiskað fullar 200 þús. tn., en Íslendingar aðeins 172 þús.

Þegar þess er gætt, hvílík hætta Íslendingum stafar af samkeppninni, þá er það fyrst og fremst skylda síldareinkasölunnar að forða þeirri hættu frá. En hún hefir gert það gagnstæða. Af 70 þús. tn. kaupir hún 60 þús. í gegnum Ingvar Guðjónsson af norskum útgerðarmanni og eru þeir í samlögum um veiði utan landhelgi. Þeir senda þessar tunnur með veiðiskipum sínum, og drýgir einkasalan þannig hlut þeirra með því að láta þá fá flutningsgjaldið af tunnum þeim, er hún þarf að nota, og hleður þannig undir keppinauta sína. Það er eins og hún sé að láta þá fá verðlaun fyrir að koma hingað. Þar á ofan bætist svo það, að saltið í sumum saltfylltu tunnunum var ekki nýtileg vara. Einkasalan hefir hér sem víðar látið erlenda hagsmuni sitja í fyrirrúmi fyrir hinum innlendu.

Hv. þm. Ísaf. var hróðugur af því, að ísfirzkir sjómenn hefðu 500–600 kr. yfir allan útgerðartímann. En þótt svo væri, sem ég efast um, þá er hlutur sjómannanna lakur móts við hlut þeirra, sem í landi vinna. Til sönnunar má benda á það, að í síldarverksmiðjunni hafa menn 600 kr. á mánuði og þurfa ekki að bíða, heldur fá kaup sitt borgað undir eins, eins og við aðra vinnu. — Þessu virðist hv. þm. Ísaf. vera ánægður yfir. Hann virðist ekki gá að samanburðinum við landfólkið. En það er ekki rétt, að landmenn beri meira úr býtum en sjómenn. Og vitanlega búa bátaeigendur við sömu kjör og sjómennirnir.

En þetta eru aftur á móti þau mistök, sem gerð hafa verið af stj. einkasölunnar og róið undir af flokksmönnum hv. þm. Ísaf., að kaup landverkarnanna hefir hækkað á kostnað sjómannanna. Það hefir gengið svo langt, að einn forstjórinn hækkaði í fyrra kaup verkakvennanna upp yfir þann taxta, sem verkakvennafél. hafði sett. Einn af forstjórum atvinnufyrirtækisins borgar sem sagt hærra kaup en taxti ákveður án þess að bera undir þá, sem atvinnufyrirtækið eiga. Það virðist nokkuð langt gengið. Sá mismunur nemur um 40 þús. kr., sem þarna er tekið af hlut sjómanna og útvegsmanna til ágóða fyrir söltunarstúlkurnar, og verður þó ekki sagt, að taxti þeirra hafi áður verið lágur. Það er nú svo fyrir aðgerðir einkasölustj., að þær stúlkur, sem eru í landi, fá eftir því hve þær eru duglegar, 2–5 kr. á klst. Þetta er náttúrlega geypikaup. Þess vegna hefir sú raunin orðið á nú í ár, að þangað norður hafa flykkzt svo margar stúlkur, að þótt vinnan sé svona hátt borguð, þá kemur lítið í hlut hverrar einstakrar vegna þess, hve þær eru margar um vinnuna. Annarsstaðar, t. d. við sveitavinnu, er svo ekla á vinnukrafti.

Áður hefir verið á það drepið, að síldareinkasalan hefir eina starfsgrein í Kaupmannahöfn. Kostnaðurinn við hana er um 40 þús. kr., en það eru aðeins nokkur hundr. tunnur, sem hafa seldar verið í gegnum þá skrifstofu. Svo að það má segja, að hver silkihúfan sé upp af annari í stj. síldareinkasölunnar.

Það skal játað, að það er nauðsynlegt að taka tillit til hagsmuna allra aðilja, enda var í till. okkar sjálfstæðismanna þegar í byrjun séð fyrir því, að sjómenn og útgerðarmenn hefðu þar ráðin. Við bentum á þá hættu, sem af því gæti stafað, að draga valdið úr höndum þeirra, sem hlut áttu að máli. En við fengum enga áheyrn, því að fyrir framsóknarmönnum og jafnaðarmönnum vakti það eitt að ráða öllu og spyrja okkur hina ekki um neitt. Hv. 3. þm. Reykv. réðst mjög ákaft móti því, að framkvæmdastjórarnir væru kosnir hlutfallskosningu af útflutningsnefndinni. Það mátti ekki ske, og kemur það þó alveg í bága við það, sem jafnaðarmenn hafa haldið fram, að hlutfallskosningar ættu yfirleitt að fara fram til að rétta minni hl. Þannig braut hann princip sitt í þessu efni, af því að hann mat meira að hafa allt valdið sjálfur, er þess var kostur.

Þessir menn, sem skipulögðu einkasöluna og stóðu að því að koma henni í þetta horf, geta nú séð ávöxt verka sinna. Þar er allt í kaldakoli og er spursmálið nú aðallega það, hvenær þessi einkasala verður sjálfdauð. Þótt einhver skipun verði nú á henni gerð, sem til bóta má kallast, þá verður það líklega um seinan. Þótt þeir jafnaðar- og framsóknarmenn í sameiningu hafi getað komið þessum atvinnuvegi í öngþveiti, þá er ekki víst, að þeir verði færir um að koma honum aftur á réttan kjöl. Það er búið að skrúfa alla kostnaðarliði svo upp, að ísl. síldarútvegur er ekki orðinn samkeppnisfær við erlendan útveg í sömu grein.

Þeir, sem vilja á þetta líta frá hagsmunum allra aðilja, hljóta að sjá, að það eru ekki sjómennirnir einir, sem tapa, og ekki aðeins útgerðarmennirnir, sem tapa, heldur kemur tapið líka að lokum á landverkafólkið, sem jafnaðarmenn hafa spekúlerað í að hækka kaupið fyrir á kostnað annara aðilja og hvergi gætt hófs. Þess vegna er það nauðsynlegt og óhjákvæmilegt fyrir síldarútveginn að fá kaupgjald á Siglufirði og þeim stöðum, þar sem síld er söltuð, lækkað niður í skynsamlegt horf, og sömuleiðis að fá tolla og skatta, bæði inn- og útflutningsgjald af síld til ríkisins, lækkaða, sömuleiðis bryggjuleigur og hafnargjöld á Siglufirði, sem er allt óhæfilega hátt. Ef þessir liðir fást ekki niður, þá geta Íslendingar alveg eins í dag eins og á morgun lagt árar í bát hvað þennan atvinnuveg snertir. En þá hygg ég, að það myndi einhvers staðar verða skarð fyrir skildi, ef síldarútvegur landsmanna hætti alveg, bæði að mjólka ríkissjóði og veita atvinnu því fólki, sem hefir haft atvinnu við hann. Hann er vitaskuld að nokkru leyti hættur að vera nokkur atvinna, a. m. k. hvað sjómenn snertir. Í Vestmannaeyjum var árið 1926 komið í það horf, að við síldarútveginn höfðu 25–26 bátar atvinnu yfir sumarmánuðina, en nú í sumar er það orðið svo, að eitthvað 2 bátar hafa farið norður. Sjómenn fást yfirleitt ekki til að fara á síldveiðar, því þeir vita, að síldareinkasölunni er komið þannig fyrir, að þeirra hlutur verður sama og enginn. Það verður náttúrlega hlutverk þeirra, sem stjórna síldareinkasölunni í framtíðinni, ef hún á þá nokkra framtíð fyrir hendi, að reyna að fá niður þá kostnaðarliði, sem ég hefi minnzt á, t. d. kaup verkafólksins og opinbera skatta og gjöld til Siglufjarðar og ríkisins.

Ég er hræddur um, að ef jafnaðarmenn fara fram með jafnmiklu forsjáleysi gagnvart síldarútveginum framvegis eins og þeir hafa gert hingað til, og halda áfram þeirri stefnu að níðast á bátaútvegsmönnum og sjómönnum til þess bara að hækka kaup einnar stéttar í landinu, þá sé ekki hyggilegt, að þeir fái framvegis of mikil ítök um stjórn rekstrarins. Hinsvegar, ef jafnaðarmenn kannast við, að í fleiri en eina átt þurfi að líta og að hér þurfi sameiginleg átök til þess að kippa því í lag, sem komið er í ólag, þá sæi ég ekkert athugavert við, að þeir hefðu hæfilega íhlutun um stj. einkasölunnar. Við flm. frv. gengum í nefndinni inn á nokkurskonar samkomulag um það, hvernig yfirráð yfir síldareinkasölunni skuli vera framvegis. Nokkurn afslátt af þeim kröfum, sem við settum fram í byrjun, höfum við að vísu gefið, en með það fyrir augum, að út af þessu gæti tekizt samvinna milli allra aðilja til þess að rétta við hag atvinnuvegar þess, er hér um ræðir og kominn er á kné sökum óstjórnar, óhappa og ýmis þess, er ég nú hefi á drepið. Ég býst við, eins og ég sagði áðan, að það sé ekki mikið útlit fyrir það, að þessi breyt. nái fram að ganga í þetta sinn, en þó er enn tími til þess, ef þingmeirihl. vill sjá og kannast við skyldu sína gagnvart síldarútveginum eins og hann er nú kominn.