06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

1. mál, fjárlög 1932

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég flutti á þskj. 183 till., sem ég hafði þá ánægju að tala fyrir, að vísu fremur fyrir stólunum en hv. dm., um það, að Gerðahreppur í Gullbringusýslu yrði styrktur til að standast kostnað af fátækraframfærslu. Ég ætla ekki, þó að d. sé betur skipuð nú, að fara að rifja upp það, sem ég hefi áður um till. sagt, heldur eingöngu með hliðsjón af því, sem hæstv. fjmrh. sagði í gær, leyfa mér að taka till. aftur. Það, sem hæstv. ráðh. sagði, var það, að hann legði til um þessa brtt. og aðra, sem er á sama þskj., um V.-Barðastrandarsýslu, að ríkisstj. tæki þær til athugunar og reyndi að ráða fram úr þeim eftir því, sem bezt þætti. Ég hafði svo hugsað mér að koma með till. um Bessastaðahrepp, sem er mjög illa stæður, en með því að mér er kunnugt um það, að hæstv. ráðh. veit hversu komið er fyrir þessum hreppi, þá ætla ég, að hann muni sjálfsagt láta þessa rannsókn ná yfir þennan hrepp og hann sæti þá sömu meðferð og hinir hrepparnir. Ég vil því leyfa mér að taka aftur till., í fullu trausti þess, að stjórnin hefjist handa um rannsókn og aðstoð þessum hreppi til handa.

Ég skal svo leyfa mér að minna hv. dm. á það, sem ég gat um í fyrri ræðu minni, um lítilmótlegan styrk handa fátækum og efnilegum söngmanni, þeim, sem söng nokkur lög áður en kvikmyndin af Alþingishátíðinni var sýnd hér fyrir nokkru. Án þess að ég vilji endurtaka nokkuð um þennan fátæka, efnilega söngmann, þá vona ég, að hv. þdm. rísi ekki á móti þessum lítilmótlega styrk til þessa unga og efnilega manns.

Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh. muni svara hv. 2. þm. Skagf. fyrirspurn, sem hann beindi til ráðh. í sambandi við till., sem hæstv. ráðh. hefir flutt með hv. þm. Seyðf. og mér um lóðakaup hér í bænum. En þar sem ég er einn flm. og hefi gert þetta að umtalsefni, vildi segja það, að fyrir mér vakir, með því að leggja til, að þessar lóðir séu keyptar, að tígulegar byggingar risi á þeim. Ég tel mjög vel til fallið, að ríkið hafi hönd í bagga með, hverjar byggingar verði reistar þar og hvernig þeim verði þar fyrir komið. Ég fyrir mitt leyti hugsa helzt, að í framtíðinni, þegar okkur gegnir betur en nú, verði reist þar þinghús og ef til vill bústaður fyrir hinn væntanlega forseta landsins, þegar þar að kemur, eða yfirleitt þær byggingar, sem mest þykir undir komið, að séu fagrar og standi á fögrum stað.

Ég hefi ekkert sagt um afgreiðslu fjárlaganna og sé ekki ástæðu til að fara langt út í það mál, þó að ýmsir hv. þm. hafi gert það. Ég get tekið undir með mörgum hv. þm., sem segja, að efamál sé, hvort ríkistekjurnar verði eins háar og fjárl. gera ráð fyrir. En menn verða að gera sér ljóst, að það er ekki nema eðlilegt, að þingið verði djarfara í fjárhagsáætlunum. þegar það er orðin þingvenja að afgr. tekjuhallalaus fjárlög, en reynslan er búin að sýna, að ríkisstj. ver eftir eigin geðþótta þeim tekjum, sem verða umfram áætlun. Það er ekki nema eðlilegt, segi ég, að þingið fari þessa leið til þess að ná eðlilegum íhlutunarrétti um það, hvernig ríkisfé er varið. Ég segi eins og sumir aðrir, að mér þykir nokkuð orka tvímælis. hvort ríkistekjurnar verði eins miklar og gert er ráð fyrir, nokkuð á 14. millj. Hér er úr vöndu að ráða, budda skattborgara er létt, þess vegna er þörf fyrir meiri afskipti ríkisvaldsins af opinberum framkvæmdum heldur en verið hefir undanfarin úr. Það er enginn vafi á því, að nú standa fyrir dyrum meiri þrengingartímar heldur en allir, a. m. k. yngri menn, muna eftir. (JÓl: Hvers vegna?). Það stendur í nánu sambandi við það, hvað daprar horfur eru fyrir sjávarafurðasölu, sem er með langerfiðasta móti, slíkt hið sama, og í engu minni mæli, ef litið er til landbúnaðarins. Og þegar svo er ástatt, þá segi ég fyrir mitt leyti, að ég get ekki varizt því, að nokkuð þungur uggur steðji að mér. Mér þykir illa til valið, að á slíkum tímum skuli Alþ. vera að þessu leyti forustulaust, að ríkisstj. skuli líta á sig sem bráðabirgðastjórn. Á tímum eins og þessum er sannarlega þörf á því, að með föstum tökum og öruggri handleiðslu verði reynt að stýra fram hjá verstu boðunum, sem verða á leið okkar á þeim siglingum, sem við erum nú á.

Ég hygg, að fjárl. séu nú orðin svo mótuð hér í d., að tilgangslaust sé að bera fram stærri breyt. á þeim. Og þó að mér hrjósi hugur við, hversu útgjöldin eru orðin há, þá sé ég ekki, að hægt sé að stöðva verklegar framkvæmdir meir en gert er ráð fyrir með fjárl. Ég get þó ekki aðhyllzt þá till., sem hæstv. fjmrh. hefir flutt, um heimild til þess að færa niður ólögboðin útgjöld um 25%, ef tekjur eru ekki fyrir hendi, af þeim ástæðum, að um mörg þau útgjöld, sem ekki eru lögboðin, er það að segja, að þau eru engu síður nauðsynleg en lögboðin útgjöld. Ef menn eru almennt þeirrar skoðunar, að tekjur ríkisins á næstu árum muni ekki jafngilda þeirri útgjaldaáætlun, sem nú er í fjárl., þá tel ég réttara, að farnar verði aðrar leiðir til að girða fyrir tekjuhalla.