17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég get látið falla niður frekara umtal um spaugsyrði milli mín og hv. 4. þm. Reykv. En ég vil ekki láta ómótmælt þeim afarhörðu orðum um þá ýtarlegu og myndarlegu ræðu, sem hæstv. fyrrv. fjmrh. flutti við fjárlögin hér í deildinni. Ég vil algerlega mótmæla þeim orðum hv. þm., að þar hafi verið sumpart óljóst og sumpart rangt farið með. Ég álít, að hann hafi haft betri greinargerð en tíðkazt hefir, að minnsta kosti í mínu minni, um fjárhag og afkomu landsins. Ég vil minna á í því sambandi, að til að ráðast á þá grg. var fenginn af hálfu þess flokks, sem hv. 4. þm. Reykv. heyrir til, meiri maður en hann, í augum þess flokks, sjálfur fjármálaspekingur flokksins, fyrrv. fjármálaráðherra, formaður flokksins. Hann var fenginn til að standa upp í Ed. með ótal fyrirspurnir og vífilengjur út af ræðunni. Það var maðurinn, sem hv. þm. G.-K. kallaði eitt sinn heila heilanna. En það mun almælt hjá öllum þorra manna í þessu landi að varla muni nokkur maður hafa fengið verri útreið en hv. l. landsk. fékk, þegar hann réðst á fjmrh. Framsóknar í vetur. Það er mjög heppilegt, að hv. þm. gaf mér tækifæri til að minna á þetta í þessu sambandi.

Um þær almennu aths., sem hv. þm. kom með, skal ég ekki ræða neitt. Ég vil aðeins minna á það, hvað hann tekur miklum lausatökum á málinu, eins og þegar hann fór að tala um afkomu Landsbankans, sem hann sennilega veit um sem bankaráðsmaður. (MJ: Reikningurinn er kominn út). Ekki hefir sá reikningur komið til mín úr Landsbankanum. Hann sagði, að innstæður hefðu lækkað á 8. milljón. Hann gleymir því alveg, að bæði gerir hátíðarárið lækkun eðlilega, og hinu, að stofnaður var nýr banki, sem mun hafa fengið hátt á 2. milljón króna í sparifé, og að miklu leyti er flutt úr Landsbankanum.