06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Ólafsson:

Ég hafði ekki tekið eftir till. á þskj. 183, LIV, fyrr en sessunautur minn minntist á hana, um lóðakaup milli Laugavegar og Amtmannsstígs. Ég fyrir mitt leyti get ekki tekið þetta mál alvarlegu. Hv. þm. var að tala um þjóðhýsi. Mér verður á að spyrja, hvaða stórhýsi hann hugsi sér að reisa þar. Þó að hv. þm. G.-K. sé að tala um að reisa þar þinghús, þá eru margir, sem álíta, að þetta hús, sem við erum nú í, muni geta dugað þinginu um aldaraðir, a. m. k. má landsmönnum fjölga mikið til þess, að þetta hús dugi ekki, þegar búið er að byggja háskólann, og þannig rýma til fyrir þinginu. Það er það eina þjóðhýsi, sem um er að ræða, að byggt verði á næstunni, en engum dettur í hug að ætla, að það þjóðhýsi verði sett á þennan blett, sem verið er að tala um kaup á. Mér þykir hér kenna allt of mikið þeirrar hugsunar, sem kennd er við brask. — Ég held, að öllum komi saman um, að nýja símahúsið muni nægja okkur um aldaraðir. Ég geri ráð fyrir, að það hafi þeim mönnum verið ljóst, sem létu byggja það. — Ég heyri sagt af kunnugum mönnum, að menntaskólinn muni hverfa af þeim bletti, sem hann nú stendur á, þegar að því kemur, að hann brenni eða verði rifinn niður vegna þess, að hann eigi þar ekki heima í raun og veru, og áreiðanlegt er, að hann verður ekki reistur á þessum stað, heldur fluttur þangað, sem ungt fólk hefir miklu fríara pláss. Þar gæti þá komið pláss fyrir þennan væntanlega lýðveldisforseta, sem hv. þm. G.-K. var að tala um. Ég veit ekki, hvort það er í raun og veru æskilegt, að hann búi í miðjum bænum. Ég get vel hugsað mér, að hann búi einhversstaðar fyrir utan bæinn, því að hann mun fá nógan hávaða á daginn. þó að hann fái næturnar fríar. Ég vil líka minna á það, að ríkið á aðrar lóðir fyrir þjóðhýsi; Arnarhólslóðirnar eru að mestu leyti óbyggðar ennþá. Ég vil, til þess að sýna fram á, hvað þetta er mikil fjárhagsleg fjarstæða, taka það fram, að engin af þessum byggingum getur gefið af sér 6% af brúttókaupverðinu, en til þess að renta og halda við hinum gömlu og lítilfjörlegu húsum, sem á lóðunum standa, þyrfti eignin að gefa af sér minnst 10 til 12%. Það gerði náttúrlega ekki mikið til, ef fyrir lægi að reisa þessi þjóðhýsi nú þegar, en þar sem yfirlýst er, að það liggi ekki fyrir, vil ég fullyrða, að kaup á þessum eignum sé óforsvaranleg ráðsmennska á ríkisfé. Hafa flm. þessa máls gert sér grein fyrir því, í hvaða verði þessar eignir koma til með að standa ríkissjóði t. d. að 50 árum liðnum, ef þær gefa aðeins 5–6% í viðhald og vexti, en þurfa minnst 10–12% á ári, — þ. e. gefa aðeins af sér viðhald, en enga vexti. Mér telst svo til, að þá tvöfaldist kaupverðið á ca. 12 árum, og að í raun og veru kosti eignirnar að 50 árum liðnum ríkissjóð ca. 1600 þús. kr. Það myndi því betra fyrir okkur að kaupa og rífa niður góðar byggingar en að kaupa eignirnar nú og liggja svo með þær jafnvel það sem eftir er af öldinni.

Ég held, að hv. þm. ættu að átta sig betur á málinu, áður en þeir binda sig við þessi kaup, að jafnlítt athuguðu máli. Sem sagt, ég vildi a. m. k. láta hv. dm. vita mína meiningu um þetta til þess, þegar þetta á sínum tíma kemur á daginn, að ég hafi þó vakið athygli á þessu.