27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (1612)

41. mál, veðdeild Landsbankans

Jón Þorláksson:

Mér fannst ræða hv. 2. þm. Árn. ekki fallin til þess að auka traust okkar flm. á því, að þetta mál ætti að fá framgang á þessu þingi.

Hv. þm. tók það réttilega fram, að menn vita, að hæstv. stj. er að undirbúa málið. Menn vita líka, að hún var að undirbúa málið í vetur. En málið kom aldrei frá stj. Hv. þm. sagði, að stj. hefði sínar ástæður til þess að draga það að láta málið koma fram. Hann er sjálfsagt það kunnugur hæstv. stj., að hann viti um þetta, en hitt hefir hann ekki sagt, hverjar þær eru. Mér er alls ókunnugt um þessar ástæður, en fyrirfram veit ég ekki, hvort þær eru þess eðlis, að þær falli burt í dag eða á morgun. Það, sem við flm. óskum eftir, er, að þessi hv. þingdeild láti kurteislega í ljós þá ósk, að löggjöf um endurreisn veðdeildar Landsbankans megi fá framgang.

Ég sé enga ástæðu til þess að líkja þessu máli við keyri á hest, og því síður við keyri á staðan hest, eins og hv. fylgismaður stj. vildi gera. En það er svo um þetta mál, að eftir að veðdeildirnar urðu tvær, er það ekki eins einfalt og meðan veðdeild Landsbankans starfaði ein.

Hv. 5. landsk. sagði, að þeir í vetur hefðu fundið þessa leið til þess að gera veðdeildarbréfin seljanleg á erlendum markaði. Það er ekki um það að ræða, að neinn hafi fundið þessa leið árið 1931. Þetta hefir oft komið til mála áður, þótt mönnum hafi ekki fundizt hægt að fara inn á þá braut meðan lausgengi var á ísl. kr. og á gjaldeyri nágrannalandanna og áður en fyrirsjáanlegt var, hvernig enda myndi um gildi pappírsgjaldeyrisins. Þetta þótti því ekki fær leið 1926 eftir gengissveifluna 1925, því menn vissu ekki, hvort hún myndi verða sú síðasta. En menn vissu, að þessi leið var til, og hún er sú eina endanlega úrlausn þessa máls. En þá var ekki hægt að vita, hvort það, sem veðdeildin veitti í ísl. kr., myndi samsvara skuldbindingum hennar, ef þær væru teknar í erlendum gjaldeyri. Þetta þótti heldur ekki kleift nema að setja ríkissjóð sem millilið til þess að taka á sig áhættuna af óhagstæðum gengissveiflum.

Nú er málið orðið nokkru flóknara, þar sem veðdeildirnar eru nú orðnar tvær, önnur fyrir hvaða fasteign sem er (veðdeild Landsbankans), en hin fyrir tiltekinn flokk þeirra (veðdeild Búnaðarbankans).

Ég hefi góða trú á, að þegar jafnfær maður eins og Jón Krabbe hefir farið höndum um málið, sé fengin sæmileg úrlausn þess vandamáls að selja sameiginlega veðdeildarbréf frá tveim stofnunum, þannig að út á við komi þær fram sem ein stofnun. En það skaðar ekki, þótt það verði athugað nánar, því verið getur, að eitthvert atriði geti valdið ágreiningi. En það, sem ekki getur valdið ágreiningi, er það, að játa í ljós þá ósk að fá löggjöf, sem rétti veðdeildina við.

Það er hægt að gefa nokkrar upplýsingar um það, hve óhemju miklum erfiðleikum það veldur bönkum og einstökum mönnum, að veðdeild Landsbankans er í þessu lamasessi. Um Búnaðarbankann er mér ekki eins kunnugt. Ég get aðeins getið þess, að nú er að koma á sama neyðarástandið og 1923–24, að þeir, sem ekki komast hjá því að fá veðdeildarlán, verða að taka það í veðdeildarbréfum og verða svo að selja þau sjálfir eftir því sem þeir geta, og hafa þeir þá oft orðið að sæta hinum mestu neyðarkjörum. Þau afföll, sem sumir hafa orðið að sæta, eru svo gífurleg, að ég vil leiða það hjá mér að nefna þau.

Ég álít því rétt að samþ. till., þótt það e. t. v. skipti ekki miklu máli. Það er vonandi, að þær ástæður, sem hæstv. stj. hefir hingað til haft til þess að draga þetta mál, verði þess ekki valdandi, að meiri hl. fjhn. setjist á málið, ef það kynni að koma þangað. En um þetta get ég ekkert sagt ennþá.