27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (1616)

41. mál, veðdeild Landsbankans

Jón Þorláksson:

Ég ætla ekki að halda hér uppi deilum við hv. 2. þm. Árn. um verðlaunagripi hans. Ég vil aðeins benda á, að það er oft ekki einungis undir gæðingnum komið, hvernig fer um verðlaunin. Það að hafa létta og sniðuga knapa veldur þar og miklu um.

Við, ég og minn flokkur, eigum þess nú ekki kost að njóta reiðmannshæfileika hv. 2. þm. Árn. og stöndum að því leyti verr að vígi til að fá verðlaun. (PH: Því þá það?). Af því að hann er ráðinn til að hleypa öðrum hesti.

En ég tek undir það með hv. 1. flm., að ef hæstv. stj. þykir óþarft, að till. verði samþ., þá verður hún að gera þess grein, hvað hún ætlast fyrir í málinu.

Hv. 5. landsk. kom með skilaboð inn á fundinn frá hæstv. forsrh., en ég tel, að þau séu alls ófullnægjandi í því efni.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að málið yrði lagt fyrir fjhn. þessarar deildar. Tel ég því rétt að láta till. ganga til atkv., til þess að hv. d. fái að sýna það, hvort henni þykir rétt að sinna þessu máli.