17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (1635)

130. mál, minning þjóðfundarins 1851

Jón Þorláksson:

Ég ætla að greiða atkv. móti þessari till., en þó ekki af því, að ég sé efni hennar mótfallinn. En ég álít, að ekki eigi við að afgreiða málið með þáltill., heldur taka upp um það fjárveitingu í fjárl. Ég get ekki heldur ímyndað mér, að þessu liggi svo mikið á, að ekki megi nota fjárlagaheimild í þeim fjárl., sem nú liggja fyrir þinginu. Það, sem aðallega liggur hér fyrir, er viðgerð á einu herbergi í menntaskólanum, ný sæti í það, og einnig að mála mynd á einn vegginn, — allt saman hlutir, sem venja er að veita fé til í fjárl. En ég vil ekki stuðla að þeirri óvenju að vera að peðra út þál. um heimildir til fjáreyðslu á sama tíma sem fjárl. liggja fyrir þinginu til meðferðar.