17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (1647)

28. mál, vegamál

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Ég hefi lítið um þessa till. að segja fram yfir það, sem stendur í nál. Samgmn. hefir leitað álits vegamálastjóra og borið málið undir hann til umsagnar. Hjá honum kom ekki annað fram en það, sem n. hafði búizt við áður, að umbætur þær, sem till. lýtur að, eru sumpart komnar í framkvæmd, sumpart ekki aðkallandi og enn aðrar, sem ekki er hægt að framkvæma á meðan alla áherzluna verður að leggja á aukningu vegakerfisins og samtenging héraða. Það hefir farið eins og við mátti búast, að meira fé og lengri tíma hefir þurft til að hnýta umgerð þeirra lögákveðnu þjóðvega um landið en ætlað var, enda nær því árlega einhverju hætt við þá vegi. Þess vegna er líka mikill hluti af aðalvegunum ekki ennþá nema hálfgerður og víða til bráðabirgða aðeins gert akfært með ruðningi. Meðan svo er háttað vegagerð og teygja verður vegina sem lengst á hverjum tíma, tjáir ekki að heimta jafnvíðtækar umbætur og till. gerir. Þær verða að bíða vegna annara brýnni þarfa. Að því er snertir 5. lið till., þá er það upplýst af vegamálastjóra, að eftirlitsmenn eru settir til og frá með vegunum, búendur í nágrenni þeirra. Að skipa fasta, opinbera og launaða starfsmenn til slíkra starfa myndi hafa mikinn kostnað í för með sér, og meðan ekki er lengra komið vegalagningum, þá virðist engin ástæða til að stofna til frekari kostnaðar vegna eftirlits. Yfirleitt má segja um 7 fyrstu liði till., að þeir lúta allir að meira eða minna gagnlegum umbótum á vegunum, en eins og ég hefi tekið fram, þá skortir ennþá efni til að framkvæma þær, nema að nokkru leyti. Fyrir því lítur n. svo á, að enga þýðingu hafi að ýta á eftir þessum framkvæmdum frekar en efni leyfa og samrýmzt getur þörfinni til aukningar vegunum. Um síðasta lið till., sem lýtur að breytingu á vegal., er þess fyrst að geta, að lögin hafa nýlega orðið fyrir víðtækum breytingum, og virðist því ekki mikil þörf breytinga á þeim á þessu þingi, enda eru stofnlögin sjálf aðeins 6 ára gömul, eða frá 1924. Að tímabinda hvern einstakan veg, eins og till. ráðgerir, mundi hvorki verða auðsótt eða líklegt til að standa lengi í lögum óbreytt.

Af þessum og fleiri ástæðum telur n. óþarft að samþ. áskorun til stjórnarinnar um að undirbúa slíka breytingu. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál frekar. N. leggur til, að till. verði afgr. með þeirri rökstuddu dagskrá, sem fram er komin á þskj. 300, og hyggur með henni allt það sagt, sem nauðsynlegt er að taka fram á þessu stigi málsins.