17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (1649)

28. mál, vegamál

Steingrímur Steinþórsson [óyfirl.]:

Ég get sagt hið sama sem hv. 3. þm. Reykv., að það er dálítið undarlegt, hvernig n. afgreiðir þessa till., því sumir liðir hennar eru þannig, að ekki getur verið vafi á, að sjálfsagt sé að samþ. þá, eins og t. d. 2. og 3. liður. Ég ætla ekki að fara mikið út í þessi atriði, því að hv. 3. þm. Reykv. hefir gert það. Aftur eru önnur atriði, sem ég er ekki sammála hv. flm. um, einkum fyrsta atriðið, þótt ég viðurkenni, að neyðarúrræði sé að hafa vegi mjóa eins og þeir eru hér, en ég álít, að þörf sé á að teygja úr þeim sem allra mest, til þess að fá vegakerfið sem lengst. Ég fyrir mitt leyti get því ekki fallizt á, að akvegir verði gerðir minnst 4 m. á breidd. Þess vegna vil ég mælast til þess, að forseti beri till. upp í liðum, svo hægt sé að samþ. þá liði, sem hv. þm. geta fallizt á, þótt þeir verði ekki allir samþ. Ég mundi t. d. fylgja 3.–4. lið, og einnig 6.–7. lið; aftur á móti get ég ekki greitt atkv. með 1. lið. Flestum þessum umbótum er þannig varið, að þær kosta nauðalítið fé, og það er því sjálfsagt að samþ. þær. Alþingi getur ekki komizt hjá því að reka á eftir, að þessar sjálfsögðu umbætur verði gerðar. Ég vonast því til, að forseti vilji bera till. upp í liðum, svo hægt sé að greiða atkv. um hvern lið fyrir sig.