17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (1651)

28. mál, vegamál

Lárus Helgason:

Hv. 1. þm. Skagf. og hv. 3. þm. Reykv. hafa þegar tekið fram margt af því, sem ég vildi segja. En ég get strax látið það í ljós, að mig undrar á því, hvernig n. hefir afgr. þetta mál. Ég sé ekki betur en að flestir af þessum liðum, sem þarna eru, eigi mjög mikinn rétt á sér, og ég get ekki skilið annað en að d. hljóti að fallast á að samþ. þá. Hér er um alveg nauðsynlegar umbætur að ræða, og sumar þurfa að koma sem allra fyrst. Flestar þeirra eru þannig, að þær yrðu ekki svo dýrar, og gæti verið beinlínis hagnaður í að framkvæma sumar þeirra, t. d. eins og það, að eftirlitsmenn skuli vera meðfram vegum. Þar mundi ekki vera um neinn kostnað að ræða; sennilega yrði það beinn hagnaður. Það er ekki svo sjaldan, sem vatn gengur yfir vegi og veldur stórskemmdum á þeim. Þá kostar það mjög mikið fé að byggja vegina upp aftur.

Það er eins með það, að nauðsynlegt er, að brýr yfir ræsi séu jafnbreiðar vegum. Mjög víða eru brýr svo mjóar, að skarð er beggja megin vegarins, en það hefir sýnt sig ákaflega hættulegt fyrir hesta, hvað þá heldur fyrir bíla.

Ég get, eins og ég tók fram í upphafi, yfirleitt fallizt á alla þessa liði. Það getur verið tímaspursmál, hvenær þeir verða allir framkvæmdir, en ég held, að það sé því betra því fyrr sem það verður gert, og flesta af liðunum ætti að framkvæma sem allra fyrst.

Ég vænti þess fastlega, að d. geti orðið sammála um að samþ. þessa þáltill.