17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (1653)

28. mál, vegamál

Pétur Ottesen:

Aðalflm. þessa máls, hv. 3. þm. Reykv., var hér áðan að draga upp mynd af þeim mönnum, sem nú skipa samgmn. þessarar d., og til frekari skýringar á þeirri myndagerð sinni vildi hann sýna það, sem á bak við myndina lægi, sem sé þær aðstæður, sem þessir hv. dm. ættu við að búa í sínu héraði, svo að ekki væri mikils að vænta af þeim í þeirra till. um vega- og brúamál landsins. Mér þykir þetta dálítið undarlegt, þegar maður ber þetta saman við það, hvað hv. þm. var ginkeyptur fyrir því fyrr á fundinum í dag að visa frv. um vegalagabreytingar endilega í hendur þessarar nefndar. Því ef hann er svo áhugasamur um vega- og brúargerðir í þessu landi sem hann læzt vera, þá hefði hann heldur átt að stuðla að því að forða þessu máli frá því að lenda í höndum slíkra manna, sem hann var að lýsa hér áðan.

En þótt mér virðist, að samgmn. hafi stundum verið mislagðar hendur um ýmsar till. og ekki komið fram hjá henni nægilegur áhugi fyrir afgreiðslu ýmissa mála, — ég skal ekki spá um, hvernig fer um vegalögin, sem var vísað til hennar í dag, en við, sem þar eigum hlut að máli, munum hafa vakandi auga með því —, þá virðist mér, að það nál., sem nú hefir verið útbýtt frá nefndinni um þetta mál, og sú rökst. dagskrá, sem hún leggur til að málið sé afgr. með, sé ekki fjarri sanni og rétt að taka þannig undir þá till., sem hér liggur nú fyrir.

Ég veit, að miðað við það, hvernig vegagerð og brúa hefir verið að ýmsu leyti hagað hér áður fyrr, meðan lítil reynsla var fengin í því efni, þá er ekki ástæðulaust, þótt slíkar till. séu bornar fram. En þegar maður athugar þær breyt., sem hafa orðið á þessu, og sérstaklega á allra síðustu árum, þá virðist mér, að þessar till. eigi ekki jafnvel við og séu að ýmsu leyti á misskilningi byggðar, og skal ég nú rökstyðja það nokkuð.

Hvað viðvíkur 1. liðnum, að akvegir megi ekki vera mjórri en 4 metrar, þá verð ég að taka undir með hv. 1. þm. Skagf., að það nær vitanlega ekki nokkurri átt að fara að samþ. slíkt. Það er, eins og kunnugt er, mjög keppt að því að teygja akvegina sem allra mest út um byggðir landsins. Ef slíkt skilyrði væri sett sem þetta, sem næði þá ekki aðeins til þjóðvega, heldur einnig til sýsluvega, þá væri með því ákaflega torvelduð sú nauðsyn, sem héruðunum er á að koma akvegunum áfram. Sýsluvegina verða héruðin sjálf að kosta að hálfu leyti og sjá að öllu leyti um viðhald þeirra, og það skiptir því ákaflega miklu máli, hvort þeir eru 3½ m. á breidd eða þurfa að vera 4 m., bæði að því er snertir byggingarkostnað og viðhald. En með því að hafa útskot hingað og þangað geta þeir vegir, sem minni umferð er um, komið að fullu liði með þessari breidd. Með því að samþ. slíkt skilyrði, sem þessi till. fer fram á, fyrir styrk úr ríkissjóði til þessara vega, er því ekkert unnið, nema að hefta slíkar framkvæmdir og að leggja í kostnað, sem engin þörf er á. Það dugir ekki að einblína á göturnar í Reykjavík og fjölförnustu vegina út frá höfuðstaðnum, því að málið horfir allt öðruvísi við úti um byggðir landsins, þar sem umferðin er margfalt minni.

Þá er talað hér um nauðsyn á því að setja upp steinstöpla á vegbrúnum, þar sem hátt er niður og hætt við því, að bílar og önnur aktæki geti farið út af. Þetta er sjálfsagt gott og nauðsynlegt, enda er þetta sumstaðar á vegum, en vitanlega allt of óvíða. Hinsvegar er það, að í nágrannalöndunum við okkur, og sérstaklega í Noregi, þar sem hagar að ýmsu leyti svipað um vegagerð og hjá okkur, er í staðinn fyrir að reisa slíka steinstöpla farið að setja upp lágar girðingar, því að á þann hátt er tryggt miklu betur, fyrst og fremst að bilar fari ekki út af vegunum, og auk þess, ef bíll rekur sig á steinstöpul, þá er hætt við að hann brotni og skemmist, en miklu síður er hætta á því, ef slík girðing er fyrir.

Mér er kunnugt um, að vegamálastjóri hefir gert till. um að bæta úr þessum ágöllum, ekki á þann hátt að setja upp steinstöpla, heldur með því að koma upp slíkum girðingum, sem ekki eru líkur til, að myndu verða dýrari, en koma þó að miklu meira liði.

Þetta mál barst í tal í fjvn. í vetur, og vegamálastjóri gat þess þá, að ef fé fengist til þess, þá myndi verða komið upp slíkum girðingum í sumar þar, sem þess væri mest þörf. Ég veit ekki, hvort orðið hefir úr framkvæmdum. En hafi það ekki orðið, þá stafar það áreiðanlega af því, a.ð ekki hefir verið hægt að leggja fram fé til slíkra hluta.

Þá er 3. atriðið, þar sem gert er ráð fyrir því, að brýr yfir ræsi séu hafðar jafnbreiðar vegum. Miðað við núverandi ástand er ekki nein ástæða til þessarar till. Áður voru brýr yfir ræsi nokkru mjórri en vegir, og stafaði það ekki af því, að þær væru byggðar mjórri, heldur af því, að þar sem vegirnir liggja á blautum jarðvegi, fletjast þeir út, en ræsin, sem byggð eru á traustri undirstöðu, standa í stað. Á sumum eldri vegum eru ræsin því mjórri en vegirnir. En á vegum, sem verið er að byggja nú, er séð við þessum leka, þannig að brýr á ræsum er gerðar breiðari en vegirnir, svo að þótt þeir fletjist út, þá standa brýrnar jafnbreiðar þeim. Þessi till. á því ekki við um það fyrirkomulag, sem nú er komið á um þetta. Hún heyrir fortíðinni til.

Þá er talin nauðsyn til að bæta úr því, að lautir myndist við þessi ræsi, og bent á þá úrlausn að hafa plötuna, sem steypt er yfir ræsin, þykkari en nú á sér stað. Þetta er mesti misskilningur. Þykkt plötunnar er eingöngu miðuð við nauðsynlegan styrkleika hennar, en þegar lautir myndast, þá stafar það af því, að vegirnir siga, en brýrnar ekki, og getur það tekið 2–3 ár að fá þá jafnháa brúnum. Þetta verður því lagfært með því einu að hækka veginn jafnóðum og hann sigur, og þegar hann er fullsiginn, þarf ekki lengur um að bæta í þessu efni.

Það er náttúrlega mikið hagræði fyrir umferðina, að þetta sé lagfært, því að slíkar lægðir eru til trafala fyrir alla bílaumferð.

Í 4. liðnum er talað um, að kappkostað verði að gera akbrautir að brúm sem allra beinastar. Þetta geta náttúrlega allir verið sammála um, og að áliti ýmissa manna eru nú sumstaðar óþarfa beygjur á vegum við brýr. Þetta hefir þó breytzt hin síðari ár, og er miklu minna um slíkar beygjur á nýrri vegum. Hinsvegar getur verið svo mikið kostnaðaratriði, hvort þetta sé gert, að af þeirri ástæðu geti fullkomlega réttlætzt, þótt nokkrar beygjur séu hafðar sumstaðar. En mér er kunnugt um, að þar sem óþægilegar bugður eru við gamlar brýr, hefir verið gert allt, sem hægt er, til þess að bæta úr því.

5. liðurinn er um að hafa sérstaka eftirlitsmenn með vegum. Ég veit ekki, hvernig þetta er framkvæmt alstaðar á landinu, en í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu eru fastir eftirlitsmenn með öllum vegum, og það eru aðallega þeir menn, sem standa fyrir vegavinnu innan héraðsins. Þeir eru til þess ráðnir af vegamálastjórninni að hafa eftirlit með því, að strax þegar vegirnir skemmast, sé undið að því að bera ofan í þá, því að það er rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. tók fram, að ef það er látið dankast að gera við holur í vegunum, þá verður það miklu dýrara síðar. Í Borgarfjarðarsýslu er það jafnvel svo, að þegar asahlákur koma og klaki fer skyndilega úr jörðu, þá er bílaumferð bönnuð, meðan ástand veganna er svo illt og umferðin veldur miklum skemmdum.

Mér er ekki kunnugt, hvernig þessu er háttað í öðrum sýslum, en ég geri ráð fyrir, að þar sé svipuð tilhögun og í þessum tveim sýslum. Þar eru því gerðar allar þær ráðstafanir, sem hægt er að geratil þess að tryggja, að sem bezt og hagkvæmast sé fyrir, komið öllu viðhaldi og endurbótum veganna.

Um að eftirlitsmenn skuli skyldir til að tilkynna vegamálastjóra um nauðsynlegar viðgerðir, er það að segja, að þeir telja það nú að sjálfsögðu skyldu sína, og ennfremur er mjög eðlilegt, að allir þeir, sem stýra bifreiðum, geri allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að sjá um, að vegunum sé haldið sem bezt við.

Viðvörunarmerki og leiðarvísa á vegum er náttúrlega sjálfsagt að setja upp þar, sem svo stendur á. Þar sem leiðir manna liggja nú um miklu lengra svæði en áður, og þeir, sem um vegina fara, eru oft ókunnugir, þá er þetta nauðsynlegt, en ég veit ekki betur en að þetta mál hafi verið tekið til athugunar, bæði af vegamálastjórninni og landsstj., og leitað tilboða um það erlendis, hvað slíkir leiðarvísar myndu kosta. Það barst í tal í fjvn. í vetur, að til stæði að kaupa einhver slík merki í sumar og setja þau upp. (HV: Það hefir alltaf staðið til í mörg ár!). Ég hefi ekki heyrt talað um það þar áður. Ég veit ekki, hvort þetta hefir verið gert. En það er mjög réttmætt, að ýtt sé undir það, ef það hefir ekki enn verið framkvæmt.

Um síðasta liðinn, undirbúning vegalaga, skal ég ekki segja annað en það, að um framkvæmdir á lagningu þjóðvega er að nokkru leyti farið eftir þeirri löggjöf, sem gildir um það á hverjum tíma. Og hvað snertir aðra vegi, t. d. sýsluvegi, þá veit ég ekki betur, af margra ára starfi í fjvn. og margra ára samstarfi við vegamálastjóra þar, en að hann hafi yfirleitt gert till. um framkvæmdir slíkra vega á næstunni, og jafnvel langt fram úr því, sem hægt er að fá fjárveitingar til í þeim fjárlögum, sem þá eru til meðferðar. Ég býst þess vegna við, að standi ekkert á í þessum efnum. Það, sem stendur á, er, hve mikið fé er hægt að leggja af mörkum til þessara framkvæmda. Hitt leiðir af sjálfu sér, að meðan vegagerð er ekki komin lengra áfram en nú er, og það er að mótast, hvernig umferðin leggst á vegina, verður að haga sér eftir því, hvað réttmætt er að taka af vegum í þjóðvegatölu á hverjum tíma. Ef farið er að setja um þetta löggjöf fram í tímann, þá kemur reynslan og sýnir, að umferðin hefir hagað sér þannig, að t. d. vegi, sem áður voru í tölu sýsluvega, verður nú að taka í þjóðvegatölu. Það er með hliðsjón af þessari reynslu, að slíkar tillögur og óskir um breytingar á vegalögunum koma fram, eins og þær, sem var vísað til samgmn. í dag.

Þetta vildi ég taka fram sem rökstuðning og grg. af minni hálfu fyrir því, að ég mun greiða atkv. með hinni rökst. dagskrá, sem samgmn. hefir borið fram.