06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

1. mál, fjárlög 1932

Sveinbjörn Högnason:

Það er aðeins örstutt aths., sem ég óskaði að gera viðvíkjandi tveimur brtt. á þskj. 207, sem ég hefi komið fram með.

Sú fyrri er þess efnis, að aftan við brtt. 183, XXII, 2, komi orðin „ef fé er fyrir hendi“, og ennfremur, að við 13. gr. c, VIII, á eftir: til bryggjugerða og lendingarbóta, komi “ef fé er fyrir hendi í ríkissjóði“. Ég vildi skýra frá því, af hvaða ástæðu ég kem fram með þessar brtt., af því að ég hefi orðið þess var, að þær hafa valdið dálitlum misskilningi. Ég hefi borið þær fram vegna þess, að hv. fjvn. hefir þóknazt að setja aftan við brtt. um að brúa Þverá í Rangárvallasýslu orðin „ ef fé er fyrir hendi“. Um leið vildi ég leiðrétta það, að í brtt. stendur Þverá á Rangárvöllum, en á að vera Þverá í Rangárvallasýslu, því að brúin mun eiga að vera hjá Dufþaksholti, en ekki á Rangárvöllum.

Í sjálfu sér álít ég ekki, að það skipti svo miklu máli, hvort þessi orð standa aftan við till. eða ekki, en það, að ég fer fram á, að samskonar aths. sé tengd aftan við hina tvo liðina, orsakast af því, að með því vil ég leggja áherzlu á, að þær fjárveitingar eru að engu leyti rétthærri en þessi til Þverárbrúar, og framkvæmdirnar heldur engu nauðsynlegri.

Þá vil ég fara örfáum orðum um þær brtt., sem ég hefi borið fram ásamt hv. samþm. mínum, og þá fyrst og fremst um sjúkrastyrkinn til Sigríðar Kjartansdóttur í Holti. Hv. frsm. fjvn. segir um þá till., að það eina, sem hann hafi á móti þessari fjárveitingu, sé fordæmið. En ég vil segja hv. frsm. það, að fordæmið er hér fyrir hendi. Alþ. er oft búið að veita svipaða sjúkrastyrki. Það er aðeins í einu tilfelli, sem hv. d. gæti gefið slæmt fordæmi, og það er með því að fella þessa till., það fordæmi, að fella styrkveitingu þar sem þörfin er mest og brýnust.

Þá vil ég beina örfáum orðum til hv. 4. þm. Reykv. Hann minntist einnig á þessa liði. Það var nú að vísu rétt af hendingu, að ég veitti því eftirtekt, því að hann þarf um alla hugsanlega hluti að tala, þó að það sé ekki alltaf af miklum skilningi eða rökfestu gert, sem varla er heldur von, þó að skilningur hans sé kannske mikill á mörgum sviðum. En þessi hv. þm. er búinn að sannfæra mig um það, sem ég hafði tæplega trúað áður, að ef maður heyrir lengi sama hljóðið, þó að hátt sé, þá hættir maður að taka eftir því, er maður venst því. Ég minnist þess, þegar ég kom í fyrsta sinn um borð í mótorskip, þá kvartaði ég undan hljóðinu í mótornum, hve hátt það væri og truflaði mikið, en sjómennirnir sögðu mér, að þegar menn hefðu hlustað á það nokkra stund, þá hættu menn alveg að gefa því gaum. Hv. 4. þm. Reykv. hefir sannfært mig þennan tíma, sem ég hefi verið í þessari hv. d., um að þetta er rétt. Það veður á honum um alla hluti, svo að allir hv. dm. eru dauðleiðir orðnir og hættir að gefa orðum hans nokkurn gaum.

Hann lýsti yfir því, sem mér vitanlega þótti vænt um, að hann ætlaði sér að fylgja þessari till.; en ekki vegna skilnings á málinu, ekki vegna þarfarinnar, heldur ætlaði hann að fylgja því af eintómum misskilningi. Hann var náttúrlega ekki lengi að finna, hverjum sjúkdómurinn væri að kenna. Ég skal ekki fara langt úr í það efni. Ég býst við, að honum sé jafnókunnugt um orsakir þess sjúkdóms og mér, en það er harla óviðkunnanlegt, og ekki sízt af honum, að blanda slíku inn i, þegar verið er að biðja um styrk, sem mikil þörf er fyrir og sennilegt, að allir séu sammála um að veita, þó að ekki væri nema af mannúðarskyldu.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum nú um það, sem hv. þm. sagði um þetta atriði. Mér gefst sennilega tækifæri til þess seinna hér í þinginu að svara honum.

Þá er önnur brtt., sem ég hefi borið hér fram, um að hækka eftirlaun Ögmundar Sigurðssonar skólastjóra upp í 2500 kr. Hv. frsm. fjvn. sagði, að n. væri á móti þessari till., af því að hún sæi ekki ástæðu til að verða við henni öðrum fremur, en ég held, að ég hafi sýnt fram á, þegar ég mælti með þessari till., að hér væri einmitt ástæða til þess fremur en í öðrum tilfellum, þar sem þessi maður hefir starfað í mörg ár og haft mjög lág laun. Það er því ekki nema sanngjarnt og sjálfsagt, að hann fái þessa viðurkenningu nú, þegar hann hefir látið af störfum. Ég vona því, að hv. frsm. og fjvn. taki þetta til greina og fylgi mér að því að veita þessum ágæta starfsmanni nokkra viðurkenningu og uppbót á þau litlu laun, sem hann í svo mörg ár hefir haft.